40 km hraði er óvenjulegur.

Það má túlka niðurstöðu mælinga lögreglunnar vestast á Hringbrautinni á tvo vegu: 

1. Ökumenn stamda sig illa við að fara eftir hraðatakmörkunum. 

2. Ökumenn eru vanir því að annað hvort sé hámarkshraðinn 50 eða 30, og aka því á gamla 50 km hraðanum, eða að þeir taka ekki eftir breyttum reglum um hraða og fatta ekki að þeir séu að brjóta hraðareglurnar. 

Kannski þarf að kynna betur og merkja betur nýja 40 km hraðann. 


mbl.is Ökulag olli lögreglu vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kóróna og hjarta landsins.

Ekki er víst að allir átti sig á þvi til fulls, hve mikils virði það er yfir land og þjóð og hve mikið fagnaðarefni það er, að Vatnajökulsþjóðgarður sé kominn á Heimsminjaskrá UNESCO.Kverkfjöll og Herðubreið.

Það er stórviðburður að svona stórt og mikilfenglegt fyrirbæri sé á þessari skrá svo að eftir sé tekið. 

Gildi svona gæðastimpils kemur skýrt fram þegar skoðuð eru fyrirbæri erlendis sem eru með hann og Vatnajökull er kóróna þjóðgarðsins og lands okkar. 

Í kjölfar gleði yfir þessum tíðindum hljóta næstu skref að felast í stærsta draumnum, að gera þjóðgarðinn enn stærri og magnaðri svo að hann nái yfir allt miðhálendið og innihaldi ekki aðeins kórónu landsins, heldur beri með sóma heitið Hjarta landsins. 

Í tilefni dagsins er hér ljóðið "Kóróna landsins" þar sem farið er frá norðurströndinni upp til Vatnajökuls. 

 

KÓRÓNA LANDSINS. 

 

Svíf ég af sæ

mót suðrænum blæ

upp gljúfranna göng 

gegn flúðanna söng. 

Þar flytur hver foss

fegurðarhnoss 

og ljúfasta ljóð 

um land mitt og þjóð. 

 

Allvíða leynast á Fróni þau firn, 

sem finnast ekki´í öðrum löngum: 

Einstæðar dyngjur og gígar og gjár 

með glampandi eldanna bröndum. 

Við vitum ekki´enn að við eigum í raun

auðlegð í hraunum og söndum, 

sléttum og vinjum og urðum og ám 

og afskekktum, sæbröttum ströndum. 

 

Því Guð okkur gaf 

gnægð sinni af 

í sérhverri sveit 

sælunnar reit. 

 

Í ísaldarfrosti var fjallanna dís

fjötruð í jökulsins skalla 

uns Herðubreið þrýsti sér upp gegnum ís, 

öskunni spjó og lét falla. 

Er frerinn var horfinn varð frægð hennar vís, 

svo frábær er sköpunin snjalla. 

Dýrleg á sléttunni draumfögur rís 

drottning íslenskra fjalla. 

 

Að sjá slíka mynd

sindra í lind! 

Og blómskrúðið bjart 

við brunahraun svart! 

 

Beygðir í duftið dauðlegir menn 

dómsorði skaparins hlíta. 

Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn 

sig ekki frá gröf sinni slíta. 

Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn;  

eldstöð og skaflana hvíta. 

Alvaldsins sköpun og eyðingu´í senn

í Öskju þeir gerst mega líta.  

 

Höll íss og eims. 

Upphaf vors heims. 

Djúp dularmögn, 

dauði og þögn. 

 

Endalaus teygir sig auðnin, svo víð, 

ögrun við tækniheim mannsins. 

Kaga við himin með kraumandi hlíð

Kverkfjöll í hillingum sandsins. 

Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð 

við eldsmiðju darraðardansins. 

Drottnandi gnæfa þau, damalaus smíð, 

djásnið í kórónun landsins. 

 

Seytlar í sál 

seiðandi mál: 

Fjallanna firrð, 

friður og kyrrð.  

 

Í Gjástykki aðskiljast álfurnar tvær. 

Við Heklu´er sem himininn bláni. 

Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær. 

Í Öskju er íslenskur máni. 

Ísland er dýrgripur alls mannkynsins, 

sem okkur er fenginn að láni. 

Við eigum að vernda og elska það land, 

svo enginn það níði né smáni. 

 

Seytlar í sál 

seiðandi mál; 

fjallanna firrð, 

friður og kyrrð, 

íshvelið hátt, 

heiðloftið blátt; 

fegurðin ein 

eilíf og hrein. 

 

 


mbl.is „Til hamingju Ísland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanlegt þegar framkvæmdir á svæðinu voru ákveðnar.

Á tiltölulega skömmum tíma voru teknar ákvarðanir um stórfelldar framkvæmdir á því svæði í borginni þar sem nú ríkir mesta umferðaröngþveiti í sögu borgarinnar, allt frá Nauthólsvík og miðju Vatnsmýrar austur um Miklubraut. 

Landsspítalinn er langstærsti vinnustaður landsins og fer vaxandi. Þegar ákveðið var að reisa ekki nýjan spítala frá grunni eins og Norðmenn gerðu í Osló, og það gafst svo vel, að rómað var, var bent á það sem einn af ókostum bútasaumsins við Vatnsmýrina, að þarna væri verið að efna til vandræða í umferðarmálum svæðisins nema að farið yrði út í tugmilljarða framkvæmdir við gatnakerfið í viðbót við kostnaðinn við spítalann. 

Mun auðveldara yrði að standa að þessum málum þar sem rými er meira, eins og til dæmis við Keldur eða á Vífilsstöðum. Norðmenn fóru bútasaumsleiðina í Þrándheimi og það gafst illa. 

Ágætt tækifæri til að breyta um stefnu var fyrir rúmum áratug, en sterk öfl nýttu sér aðstöðu sína til stýra umræðunni í þann farveg sem hún fór.

En Landsspítalinn er ekki það eina, heldur skapar Háskólinn í Reykjavík mikla viðbót við umferðina á álagstímum, og varla mun nýja hverfið á Valsreitnum draga úr því.   


mbl.is Vatnsmýrin mikið vandræðasvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband