Byltingarkennd farartæki.

Það er óhætt að fagna því að Sniglarnir ætli að kynna möguleika á notkun rafhjóla í samgöngum, farartækja, sem alveg hefur vantað í íslensku flóruna. BMW rafhjól

Einkum eru rafhjól með útskiptanlegum rafhlöðum spennandi kostur vegna þess mikla sparnaðar á fyrirhöfn og tíma sem þeim fylgir. 

Það verður áhugavert að sjá hvaða hjól munu verða í för Sniglanna. 

Ekki hvað síst ef flottasta hjólið, BMW C evolution, verður með, hjól sem kemst hátt á annað hundrað kílómetra hraða og fer meira en hundrað kílómetra á hleðslunni. 

En er að vísu ekki með útskiptanlegum rafhlöðum. 

Selst betur en svipuð hjól með bensínhreyfli hjá BMW. 


mbl.is Sniglarnir í rafmagnaða hringferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagkvæmni nýju hreyflanna mun ráða úrslitum.

Bæði Boeing og Airbus hafa misreiknað ýmislegt í spám sínum um heppilegustu farþegaþoturnar. 

Airbus ofmat til dæmis markaðinn fyrir hina risavöxnu A380 og vanmat um leið möguleikana, sem endurbætur Boeing á 747 þotunum gáfu til þess að framleiða hagkvæmustu stórþoturnar (Bumburnar). 

En stóraukin fjölgun farþega í markhópi sem mætti skilgreina sem lægri millistétt og sættir sig við að fljúga í mjóum þotum, sem knúnar eru nýjustu gerð sparneytnustu hreyfla sem þar að auki bjóða upp á aukna langdrægni, olli því að samkeppni flugvélarisanna varð áköfust í smíði Boeing 737 Max og Airbus 320 neo. 

Ef 737 Max verður ekki komin í gagnið næsta vor, er varla annað í boði en að taka inn Airbus í staðinn, jafnvel þótt það kosti algera kúvendingu í þotukaupum að fara frá hinum ameríska framleiðanda til hins evrópska. 

Það yrðu þáttaskil hjá Icelandair.   


mbl.is Icelandair velji Airbus-vélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólrafhlöðuknúin farartæki hafa verið til.

Sá framsýni maður, Bragi Árnason, sem varð heimsþekktur fyrir um þremur áratugum fyrir rannsóknir sínar á möguleikunum til að nota vetni sem orkubera, spáði því í viðtali við Ara Trausta Guðmundsson, að nýting sólarorkunnar myndi um síðir verða almenn og lykillinn að lausn orkuvanda mannkyns. 

Og um nokkurra ára skeið hafa verið til fislétt farartæki, knúin sólrafhlöðum, en jafnframt hægt að nota fótaafl ef sólarorkan hefur þorrið.  

Einnig möguleiki á að nota bæði fótaafl og sólarorku samtímis. 

Einnig hefur sést á netinu mynd af lítilli flugvél með afar stóra og langa vængi, sem eru þaktir sólarsellum og gefa afl til flugs. 

Sólarorkuknúin landfarartæki hafa þann óhjákvæmilega kost, ef svo má að orði komast, að yfir ökumanninum verður að vera sem stærst sólarselluþak, en þó jafnframt sem léttast.

Nú má sjá að einn af helstu bílaframleiðendum heims hefur útfært svona lausn á venjulegum bíl, þar sem sólarorkan kemur sem viðbót við aðra orku. 

Og rétt eins og að gjöfulustu olíulindir jarðar eru á suðlægum breiddargráðum, mun nýting sólarorkunnar væntanlega verða þeim mun betri, sem sólin skín brattar og meira. 


mbl.is Sólrafhlöður í þakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverðar tölur á Audi e-tron. 700 kílóa rafhlaða.

Í reynsluferð á Audi-etron milli Reykjavíkur og Akureyrar var þessi hreini rafbíll nálægt því að komast á einni hleðslu.  Um þessar mundir er ferð rafbíla á milli þessara staða á einni hleðslu orðið að algengu keppikefli þeirra rafbíla, sem stærstu rafhlöðurnar hafa en ef sprett er úr spori á rafbíl eins og e-tron, sem er um 6 sekúndur úr kyrrstöðu upp í hundrað og með 200 km/klst hámarkshraða, verður að stansa einu sinni á leiðinni til þess að hlaða. 

Nokkrir af langdrægustu bílunum eru með 65 kwst rafhlöður, en 95 kwst rafhlaðan í Audibílnum er 700 kíló á þyngd, eða álíka þung og heill tveggja manna Tazzari rafbíll með rafhlöðum og öllu saman. 

Rafhlöðurnar á Audinum eru hafðar í undirvagninum eða sem allra neðst í bílnum, og hefur það mjög góð áhrif á aksturseiginleikana. 

En þyngd þeirra sker í augun og segir sína sögu um það, hve mikil framför yrði í því að auka orkuna sem hægt er að geyma í rafhlöðum farartækja.  

 


mbl.is Tómaþyngdin skiptir máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband