Felst öryggið í stærðarkapphlaupi?

Í viðtali í tengdri frétt á mbl.is um bandaríska bíla er því haldið fram, að þeir séu miklu öruggari en evrópskar druslur og að það ætti að vera keppikefli til að auka umferðaröryggi að fjölga amerísku drekunum sem allra mest og að einkabílar eigi helst að vera sem allra stærstir. Pallbíll, GMC

Einnig er því haldið fram að auka eigi útblástur á koldíoxíði en minnka í staðinn útblástur á níturoxíði. 

Amerískir bílar eru alveg nógu ágætir án þess að þessu sé haldið fram. 

Það er nefnilega ekki endilega samasemmerki á milli öryggis og stærðar. 

Það kom til dæmis furðu oft fram í árekstraprófunum fyrir nokkrum árum, að bandarískir pallbílar og minivan bílar fóru herfilega út úr þeim á sama tíma og miklu minni bílar stóðust prófanirnr mun betur. Kvikmyndir af þessu á Youtube eru afar sláandi. 

Þegar litið er á upplýsingar í handbókum um nýjustu bílana af árgerð 2020 koma nokkrir bandarískir bílar, svo sem Jeep Renegadee og Compass vel út með fimm stjörnur, en hins vegar er Jeep Wrangler með aðeins eina stjörnu, sem er óvenjulega léleg útkoma. Pallbíll. Dodge Ram

Síðan er sú ályktun byggð á skakkri forsendu, að með stórfeldri stækkun á bílum landsmanna muni stærð þeirra og þungi auka umferðaröryggi, því að þvert á móti mun hið þveröfuga verða niðurstaðan af slíku. 

Fjáraustur til kaupa á stórum drekum mun minnka það fé, sem þarf til úrbóta á gatna- og vegakerfi auk þess sem drekarnir taka aukalega gríðarlegt rými á götum og bílastæðum.

Og í ljósi þess hve vel hinir smærri bílar koma út í öryggisprófunum, allt niður í minnstu VW-bílana, sem eru með fimm stjörnur, má álykta í öfuga átt varðandi það að breyta bílaflotanum í safn af drekum, sem í krafti stærðar og ofurþunga valda skemmdum á smærri bílum í árekstrum.  Það myndi auka heildaröryggi að fækka óþarflega stórum drápstækjum. 

Í lokin er hins vegar hægt að taka undir það, sem sagt er í nefndu viðtali, að margir þurfa vegna atvinnu eða áhugamála á öflugum bílum að halda með góða dráttargetu. 

En að það þýðir ekki að nauðsynlegt sé fyrir sem flesta að fara að versla í Bónus á þriggja tonna amerískum drekum.  

 


mbl.is Hafðir fyrir rangri sök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar snjómökkur á ofsahraða breytist í hvíta "steypu".

Það þarf sérstaka hugarró fyrir þann, sem lendir í snjóflóði, til að lýsa lýst því rólega og yfirvegað eftir að hafa legið fastur í 40 mínútur, hvað gerist þegar snjóflóð stöðvast og leggst ofan á þann, sem þar er lendir í því. 

Lýsing Ölmu Sóleyjar Ericsdóttur frá Flateyri er aðdáunarverða skýr, og þótt orðalag hennar, hvernig öskrandi og þykkur snjómökkurinn breytist skyndilega í hvíta "steypu", eins og hún orðar það, þá er líklega ekkert annað orð, sem getur lýst þessu magnaða, en lífshættulega fyrirbæri betur. 

Samkvæmt vísindalegum lýsingun á eðli þessa fyrirbæris, er það nefnilega þannig, að gríðarleg orka myndast í flóðinu við það að æða í lausu formi áfram á allt að 200 kílómetra hraða og rífa upp með sér lausamjöll á leiðinni. 

Á undan fremsta flóðveggnum þrýstist loftbylgja áfram á ógnarhraða og ef hún verður fyrir fyrirstöðu getur hún ein og sér sprengt mannvirki í loft upp eða vaðið í gegnum gluggana inn í hús og út um gluggana hinum megin á ógnarhraða, eyðandi flestu, sem fyrir verður. 

En um leið og flóðið stöðvast og fellur dautt niður, þrýstist hið orkumikla loft út úr því, svo að ólgandi snjó-iðu-veggurinn breytist á augabragði í hvítt snjóþykkildi, sem er hart eins og steypa. 

Sá, sem þar lendir inni, getur sig hvergi hrært; Alma Sóley giskaði á tveggja sentimetra möguleika á hreyfingu, og þar með ástandi, sem líktist kviksetningu. 

Jafnvel tiltölulega litlar "spýjur" búa yfir ótrúlegu afli í krafti hraðans. 

Það sást vel í slíku fyrirbæri í Bolungarvík 1997, þegar mjó spýja braut sér leið inn í neðstu hæð húss og þaut í gegnum það með því, braut niður millivegg á leið sinni út um húsið hlémegin. 

Enginn var inni í herberginu þarna þá stundina, og var það mikil mildi. 

 


mbl.is Andaði djúpt og rólega til að spara súrefnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hamingjan og núið"

Sumar af einföldustu staðreyndum mannlífsins eru þess eðlis, að þær verða okkur oft ekki nógu ljósar, heldur gleymast í dagsins amstri og lífsins ólgusjó, þrátt fyrir einfaldleika sinn.

Ýmis ljóðmæli og máltæki snerta þetta, sem nefna mætti alþýðuspeki. 

Undanfarnar vikur og daga hafa verið að mótast og fá á sig endanlega mynd lítið ljóð og lag um þetta efni, og líta má á sem ófullkomnar hugleiðingar af svipuðu tagi og björgunarsveitarmaðurinn Halldór Óli Hjálmarsson á Ísafirði lýsir svo eftirminnilega í tengdri frétt á mbl.is. 

 

HAMINGJAN OG NÚIÐ.

 

Hver andrá kemur og hún fer, 

og einn og sér er dagur hver. 

Hve margir góðir dagar verða´er óvíst enn.

En morgunljóst og augljóst er,

að hvern og einn dag þakka ber, 

sem Drottins gjöf, sem þá eignast allir menn.  

 

Þótt hamingjan sé ekki alltaf gefin

og óvissan sé rík og líka efinn

munum, er við æviveginn stikum,

að ævin, hún er safn af augnablikum,

og missum ekki´á hamingjuna trúna;

hún mun í hvert sinn gefast okkur - núna.

Það er svo morgunljóst og ekki snúið;

þau eiga samleið, hamingjan og núið.

 

Hver andrá kemur og hún fer

og einn og sér er dagur hver.

Hve margir góðir dagar verða´er óvíst enn.

En fjársjóð geymir fortíðin,

sem felur í sér vísdóminn:

"Svo lengi lærir sem lifir" segja menn.

 

Er andstreymi og mistök okkur þreyta,

þá er það víst að því mun ekkert breyta,

að ævin, hún er safn af augnablikum, 

er æviveg í tímans straumi stikum.

Við megum aldrei missa á það trúna,

að mega leita hamingjunnar - núna,

því morgunljóst það er og ekki snúið,

Þau eiga samleið, hamingjan og núið.

 

Hver andrá kemur og hún fer

og einn og sér er dagur hver;

þau eiga saman, hamingjan og núið. ´ 

 


mbl.is Lærði fyrir 25 árum að morgundagurinn er ekki vís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður "slysagildran" öll úr sögunni fyrr en 2030?

Bót er að því að útfæra "hagkvæma" breikkun Reykjanesbrautar á milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahraus á nýjan og bættan hátt eins og boðað er í nýútkominni frumdragaskýrslu Vegagerðarinnar og Mannvits.

En í fréttinni um þetta virðist ekki koma fram hvort það verði fyrr en 2030 sem endanlega verður lokið við alla breikkun Reykjanesbrautar, eins og nefnt var í fréttinni.  

Er þá er ekki annað aða sjá en að það sitji enn eftir hluti af einbreiðri "slysagildru" milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar, og það allt til ársins 2030. 

Þetta er hálf neyðarlegt þegar þess er gætt hve það er í raun lítill hluti heildarleiðarinnar, sem er eins og mjór fleinn á þessari fjölförnu leið.  


mbl.is Hagkvæmast að breikka frá Krýsuvík að Hvassahrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband