Einu sinni eyðilagðist brunaæfing í eldi.

Höldum alveg ró okkar þótt áramótabrenna eyðileggist vegna eldleysis. 

Það hefði getað orðið verra, samanber sjónvarpsfrétt, sem send var út fyrir næstum hálfri öld. Málavextir í henni voru þessir: 

Hér í gamla daga æfði flugvallarslökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli sig einstaka sinnum á því að slökkva í flugvélarflaki á grasinu fyrir sunnann brautarendann á 14-32. (Síðan hefur segulpóllinn færst og brautin heitir nú 13-31). Það er opðið þetta langt síðan! 

Til þess að þetta gengi allt vel, var reynt að velja sæmilega gott veður, rétt eins og að flugslys gætu ekki orðið í slæmu veðri. 

Eitt sinn fór æfingin úr böndunum, svo að úr varð að setja stutta frétt um það í sjónvarpsfréttir kvöldsins. 

Aðstæður voru þannig, að eftir því sem tími vannst til, var drasli ásamt flugvélarflaki komið fyrir í eins konar bálkesti fyrir sunnan brautina og var notuð lítil dráttarvél til að draga vagn með eldsneyti á brúsum að kestinum, en leiðin var óslétt og gusaðist lítils háttar bensín úr einhverjum af brúsunum, án þess að þess yrði vart. 

Þegar búið var að skvetta úr talsverðu magni af bensíni á flakið á fjórða tímanum, vildi svo til að einhver leit á klukkuna og kallaði: "Kaffi!" 

Fóru þá allir inn í kaffi í nokkur hundruð metra fjarlægð.  

En tvær pörupiltar, sem höfðu fylgst með álengdar, laumuðust þá yfir girðinguna, og hentu logandi spýtu á köstinn, svo allt fór í bál og brand. 

Og, - það sem verra var, eldurinn læsti sig eftir nýlegri bensínslóðinni yfir í vagninn með brúsunum og þaðan yfir í dráttarvélina. 

Þegar fréttin um þetta barst inn á kaffistofuna, varð uppi fótur og fit og mikil ringulreið olli því, ásamt því að þessi eldsvoði kom öllum á órvart, að loksins þegar hægt var að hefja slökkvistarf hafði allt brunnið, sem brunnið gat og eldurinn að slokkna af sjálfu sér. 

Þegar að því kom að skrifa þyrfti stutta sjónvarpsfrétt um málið, þurfti á þessum árum að gefa öllum fréttum nafn eða eins konar fyrirsögn.

Og það lá beint við hvernig hún yrði: "Brunaæfing eyðileggst í eldi."  


mbl.is „Það klikkaði allt sem klikkað gat“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðinn er víða alltof hár hjá of mörgum.

Það er líklega rétt niðurstaða í frumrannsókn á umferðarhraða í og við hringtorg, að víða sé hann of mikill. Gera þyrfti viðameiri rannsókn þar sem miklu fleiri hringtorg væru könnuð, enda geta aðstæður og útsýni ökumanna verið misjöfn, bæði við hringtorg og gatnamót. 

Sem dæmi má nefna hringtorg austarlega í Grafarvogshverfi þar sem mætast Borgavegur, Gullengi, Fróðengi og Langirimi. 

Aksturleiðin frá sameiginlegri aðrein Gullengis og Fróðengis er þannig, að útsýni austur eftir Borgavegi er ekki fyrir hendi fyrr en komið er alveg að hringtorginu. 

Á þessum krítiska stað skapar þrennt oft stórhættu. 

1. Bílum sem ekið er austan frá eftir Borgavegi og í gegnum torgið til vesturs er oft ekið á ofsahraða, miðað við aðstæður. Stundum er hraðinn svo mikill, að engin leið er fyrir bílstjóra sem er á leið inn í torgið frá Fróðengi/Gullengi að sjá hinn hratt aðvífandi bíl fyrr en svo seint, að mikil árekstrarhætta er.  

2. Á Íslandi hefur ríkt sú hefð, að svonefndur hægri réttur virki ekki við hringtorg þar sem leiðir skerast við innakstur í það. Af því leiðir, að bílstjórar, sem koma úr austri í loftköstum eftir Borgavegi inn á hringtorgið, gefa sér það oft fyrirfram að þeir muni eiga forgang ef bílar komi inn á torgið frá Gullengi/Fróðengi, jafnvel þótt bílstjórarnir sem koma þaðan sjái ekki hinn hraðskreiða bíl fyrr en í óefni er komið. 

3. Það eykur enn á óvissuna á þessum stað, að bílstjórar, sem koma úr austri og ætla að beygja strax út úr torginu til hægri, séð frá þeim, inn á Gullengi, gefa yfirleitt ekki stefnuljós og valda með því óvissu og töfum, sem geta aukið á það hættuástand sem mikill hraði skapar á þessum stað. 

Nú hafa ný umferðarlög tekið gildi, en varðandi hringtorgin hefur verið sagt að reglan hér á landi, sem hefur verið öfug við það sem tíðkast í flestum öðruum löndum, hafi ekki verið óyggjandi í gömlu lögunum. 

Heyrst hafði að þessu yrðí breytt, en í umfjöllun Samgöngustofu og fjöliðla um helstu breytingar hefur ekki verið hægt að sjá neitt um þetta. 

 


mbl.is Hraði of mikill í hringtorgum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kuldinn háir rafbílum, en þó miklu minna en áður.

Tröllasögur á tímabili á netmiðlum á borð við þá, að rafbílaeigendur þyrftu "að hafa bílana í gangi á næturna á frostnóttum" til þess að forða þeim frá því að frostið eyðilagði þá, áttu sér ekki stoð í veruleikanum, en hitt er staðreynd, að kuldi er einn af ókostum landsins okkar varðandi þessa bíla. Tazzari. Farþegarými

Í handbók hins örlitla tveggja sæta Tazzari rafbíls er þess getið, að upplýsingar um drægni bílsins séu miðaðar við 20 stiga lofthita, en við hvert hitastig fyrir neðan 20, lækkaði drægnin um 1 prósent.

Þá segja kannski einhverjir að það sé nú ekki mikið, en samt samsvarar það því að í 5 stiga frosti minnki drægnin um heil 25 prósent, eða um fjórðung. 

Meðalhiti sumarmánaðanna hér á landi er nálægt tíu gráðum, svo að á þeim árstíma er drægnin 10 prósent minni. Tazzari í snjó

Meðalhiti ársins hér á landi er um fimm stigum lægri en á norðanverðu meginlandi Evrópu og síðan bætist það við, að það þarf meiri miðstöðvarhita inni í bílnum til að hita hann upp heldur en í bílum, þar sem orkan kemur eingöngu úr brunahólfi sprengihreyfla, þannig að miðstöðvarhitinn fæst á sjálfvirkan hátt að miklu leyti. 

En rafhreyfillinn verður hins vegar að búa mestallan hita til og eyða með því orku, sem annars færi í í knýja bílinn áfram. 

Á nýja Honda e-bílnum, sem var frumsýndur í fyrradag, er kerfi, sem jafnar hitann á vél og driflínu, en erfitt er að sjá, að nýtni sprengihreyflanna náist til fulls með því. 

Svo aftur sé minnst á Tazzari rafbílinn, er það kostur hans, að rýmið fyrir þá tvo, sem bíllinn tekur, er auðvitað tvöfalt minna en á fjögurra sæta bíl, og því þarf mun minni hitaorku úr miðstöð hans til upphitunar en á venjulegum rafbílum, sem eru miklu stærri og meira en helmingi þyngri. 

Kuldinn íslenski og íslenska veðurfarið hefur því ekki reynst neitt vandamál í rúmlega tveggja ára akstri hans, alls um níu þúsund kílómetra í öllum veðrum, allt árið. 

Á síðustu misserum hefur stærð rafhlaðna og drægni allt að þrefaldast í rafbílum svo að gallinn vegna upphitunar þeirra er orðinn brot af því sem áður var.  


mbl.is Litríkur orkusparnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband