Kemur sterkur inn með stórri rafhlöðu, en er ekki jeppi.

Nýi RAV-4 tengiltvinnbíllinn hjá Toyota kemur mjög sterkur inn í flokk bíla, þar sem keppinautarnir hafa fengið nokkur ár til að láta að sér kveða. Toyota RAV4 2020

RAV-4 hefur um langt árabil notið mikilla vinsælda fyrir notagildi og gæði og síðstu ár hefur Toyota tekist að hafa ákveðna forystu varðandi útlitshönnun.  

Þótt tengiltvinnbílar (plug-in-hybrid) hafi þann ákveðna kost fram yfir hreina rafbíla, að hægt er að nýta það eldsneytisölukerfi sem fyrir er í landinu ef raforkuna þrýtur, hefur ókostur þeirra verið sá, að rafhlöðurnar hafa verið svo litlar, að drægið hefur verið allt niður í 20-20 kílómetrar við íslenskar aðstæður, þar sem loftkuldinn dregur drægið niður um 20 prósent við frostmark og 30 prósent í 10 stiga frosti. Toyota RAV4 1992

Rafhlöðurnar hafa hingað til varla verið stærri en 10-13 kílóvattstundir en vegna mikillar þyngdar þessara bíla með svona flókið aflkerfi hefur hingað til ekki verið farið lengra í stærð rafhlaðnanna. 

Toyota stígur myndarlegt skref með því að fara með rafhlöðuna upp í 18 kwst, sem er álíka stór hlaða og er í Smart rafbílnum og næstum því jafn stór rafhlaða og var í upphafi í Volkswagen e-Up!.

En þessir tveir minnstu rafbílarnir á markaðnum eru 40 prósent léttari en RAV-4 tengiltvinnbíllinn.  

 

Og þess má geta, að í fyrstu gerðinni af Nissan Leaf sem kom þeim hreina rafbíl á kortið, var rafhlaðan aðeins 24 kwst. 

Raunar má vel hugsa sér að rafhlaðan á tengiltvinnbíl sé enn stærri, því að margir eigendur tengiltvinnbíla, sem aka mikið úti á þjóðvegunum, kvarta yfir mikilli bensíneyðslu þegar bensínvélin ein er í gangi í bíl, sem er um tvö tonn. 

Það eru ekki tómir kostir við að hafa rafhlóðuna stóra, til dæmis ef menn gera þá kröfu til RAV-4 tengiltvinnbílsins að hann standi undir þeirri lýsingu að vera "jeppi" á þeim forsendum að hann sé fjórhjóladrifinn. 

Til þess að koma rafhlöðunum fyrir í bílnum og halda samt góðu farangursrými hefur þeim verið bætt undir miðju bílsins, þannig að hæð undir hann tóman og nýjan, er aðeins 17 sentimetrar í stað 19,5. 

Sú veghæð minnkar niður í 12-13 sentimetra ef fólk og farangur eru í bílnum. 

 

Þegar þessi nýjasti RAV-4 "sportjeppi" er borinn saman við þann fyrsta fyrir 18 árum, sést mikill munur hvað varðar undirvagninn. 

Forfaðirinn var næstum helmingi léttari, mun hærri undir kviðinn og enn hærri undir hinn stutta framenda, svo að það mátti kannski nota heitið "jepplingur" um hann, þótt hann væri ekki með lágt drif eins og jeppi. 

Bæði Mitsubishi Outlander og RAV-4 voru upprunalega hannaðir sem bensínbílar, og hér á landi hafa orðið óhöpp á jeppaslóðum í akstri þar sem bílarnir hafa rekist niður og rafhlöðurnar stórskemmst.  


mbl.is Toyota stígur stórt en nær ósýnilegt skref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar það getur haft kosti að vera fjögurra stjörnu í stað fimm.

Hótel Rangá skaust að sumu leyti upp á frægðarhimin vorið 2010 þegar það gaus í Eyjafjallajökli. 

Fjöldi þekkts fjölmiðlafólks gisti þar og hreifst af sérstæðu útliti hótelsins jafnt utan dyra sem innan.   

Hótelið var samt ekki fimm stjörnu hótel, þótt mörgum fyndist það líklegt og lýstu jafnvel yfir undrun sinni yfir því hvers vegna það væri ekki prýtt fimm stjörnum. 

Svar Friðriks Pálssonar við spurningum varðandi þetta var skemmtilegt:  "Það eru til mörg fimm stjörnu hótel í heiminum, en að sumu leyti er betra, að gestir á hótel Rangaá segi við viðmælendur sina að þeir undrist það hvernig fjögurrra stjörnu hótel geti verið svona aðlaðandi og eftirminnilegt, heldur en þeir segi ekki neitt eða sé í vafa um fimm stjörnurnar á viðkomandi hóteli.  

Til nánari útskýringar má nefna, að á fjórtán daga ferð um gervallan Noreg sumarið 1998 var gist í mörgum gistihúsum.  

Eftir á mundi maður aðeins eftir tveimur þeirra: Frumstæðu sæluhúsi á Harðangursheiði og afar fornfálegu en óvenjulegu hóteli í Syðri-Kjós, nyrst í Finnmörku, þar sem hótelhaldarinn var enn fornfálegri kona á áttræðisaldri sem lagði sérstaka rækt við að sinna gestum sínum í eigin persónu og var allt í öllu í því efni. 

Eftir ferðina runnu hin 12 hótelin öll inn í minnið líkt og um algerlega eins stöðluð hótel hefði verið að ræða. 

Hér á landi eru mörg góð og minnisverð hótel, en auk Hótels Rangár, þar sem eigandinn, Friðrik Pálsson, er sjálfur einstaklega persónulega áhugasamur um velferð gesta sinna, kemur nafn Ólafs Laufdals, eiganda Grímsborga í hugann.   


mbl.is Hótel Rangá eitt af þeim bestu í Norður-Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæg en jöfn framþróun í framtíðardraumaflugi Baldurs Bjarnasen.

Enn er mörgum í minni hrifning drengjanna á sunnudagsfundi í KFUM fyrir rúmum 70 árum, þegar hann flutti okkur innblásinn fyrirlestur um framtíðarsýn sína í flugmálum. 

Baldur var flugvélstjóri hjá Loftleiðum og þannig ævintýramaður í okkar augum á þeim árum þar sem "Loftleiðaævintýrið" var í uppsiglingu. 

Tugþúsundir flugmanna í Seinni heimsstyrjöldinni voru þá komnir heim úr stríðinu og á tímabili var afar lífleg framleiðsla einkaflugvéla í gangi vestra og meðal annars kominn fram flugbíllinn Aerocar. 

Svo fór, að stórt atriði gleymdist í málinu, konurnar sem biðu ungu mannanna og gerðu það að verkum að aðal viðfangsefni þeirra varð að kvænast og eignast heimili og börn. 

Baldur Bjarnasen var einna hrifnastur af þróuninni í þyrlusmíði og spáði því að í framtíðinni yrði mikil umferð einkaþyrlna í borgum heimsins. 

Sú draumsýn rættist heldur ekki meðan Baldur lifði. Því olli margt, svo sem það hve dýrar þyrlur eru í rekstri og hve erfitt yrði að tryggja flugumferðaröryggi. 

Baldur sé eðlilega hvorki fyrir sér byltingu í tölvu- og fjarskiptatækni og þaðan af síður tilkomu rafmagns og nýrrar uppsetningar í drónum framtíðarinnar. 

Nú er hins vegar í gangi jöfn og hæg en nokkuð örugg þróun í þessum efnum á öllum helstu sviðum. 

Að vísu er aðal dragbíturinn hin mikla þyngd rafgeymanna miðað við þyngd eldsneytistgeyma, en á móti kemur furðu hröð framför í gerð rafgeyma, bæði með þróun líthíums en einnig tilkomu geyma með öðrum efnum, svosem graphene. 

Það er hins vegar afar langur vegur framundan, en þó ljóst að heillandi möguleikar opnist í flugi á styttri leiðum, einmitt á því sviði sem heillaði hinn trúaða og yndislega skemmtilega Baldurs Bjarnasen mest. 

Eins og er, gera þungir rafgeymar það að verkum að flugdrægi rafknúinna flugvéla í farþegaflugi er varla meira en 160 kílómetrar og farþegar aðeins níu í ferð. 

Tveir eiginleikar driflínu rafaflsins hafa mest að segja og vinna hvor á móti öðrum. 

Annars vegar yfirburða eiginleikar, einfaldleiki og nýtni rafhreyfla, en hins vegar hin gríðarlega þyngd rafgeymanna og viðkvæmni orkugjafanna gagnvart miklum kulda.  

 


mbl.is Fljúgandi leigubílar næsta vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband