29.11.2020 | 22:29
Ný tegund af COVID tölum, sem hækka uggvænlega um allan heim.
Tölur yfir fjölda látinna og smittölur vegna COVI19 hafa verið fyrirferðarmiklar daglega í níu mánuði hér á landi og um allan heim.
Í dag brá svo við síðdegis, að á þremur sjónvarpsstöðvum sem horft var á, voru uggvænlegar fréttir af fyrirbrigði sem er í hraðri útbreiðslu og er uggvænlegra en COVID vegna þess að á þessu fyrirbrigði fást nær engar skýringar og læknar standa ráðþrota.
Þetta felst í mikilli fjölgun langveikra sjúklinga, sem hafa haldið áfram að vera veikir eftir að COVID virtist farið og margir orðið enn veikari en meðan pestin hrjáði þá.
Áhrifamest og best var umfjöllunin um þetta í fréttaskýringaþættinum 60 mínútum, sem sýndur var á Stöð 2 nú síðdegis og verður endurtekinn á morgun.
Einna athyglisverðast í þessari umfjöllun var það, að hár aldur og undirliggjandi atriði eða sjúkdómar voru ekki eins stór þáttur í þessum veikindum og lengi vel var talað um.
Þvert á móti var aldur þessara sjúklinga allt frá barnsaldri og upp úr.
Fílhraust og vel þjálfað íþróttafólk á besta aldri gat orðið jafn fárveikt til langframa og hverjir aðrir.
Óhugnanlegt var að sjá hve ráðþrota læknar standa gegn þessu fyrirbrigði og finna nær engar skýringar á því hve ófyrirsjáanlegar afleiðingar smitunar geta orðið.
Þeim bar saman um að aldrei fyrr hefðu þeir kynnst neinu sem líktist þessu.
Að vísu hafa menn fundið út að í mörgum tilfellum er það ónæmiskerfið sjálft sem getur valdið jafn miklu líkamstjóni og veiran sjálf vegna þess að átökin milli veirunnar og kerfisins verða svo hatrömm, að þau geta orðið lífshættuleg.
Vegna þess að þessi vaxandi fylgifiskur er fyrst núna að láta verulega að sér kveða, skortir fleiri krufningar til þess að reyna að fá betri mynd á þessum viðbótarfaraldri.
Í 60 mínútum var sýnt með myndum af krufnum líffærum hvernig vígstöðvar veiru og ónæmiskerfis gátu eyðilagt eða stórskemmt líffæri og valdið blóðtöppum og blæðingum víða um líkamann, svo sem í heila, hjarta, lifur og víðar.
Margt af fólkinu sem hefur þurft að heyja nýja og miklu verri baráttu en í upphafi smits, hefur verið óvinnufært og afar illa haldið mánuðum saman.
Á RÚV kom fram að vitað væri um 70 manns nú þegar sem þyrftu á endurhæfingu og sjúkravist að halda hér á landi af völdum þessa nýja vágests.
Áður en því er haldið fram af sumum að nú þurfi að slaka verulega á sóttvörnum og leyfa smiti að dreifast svo mikið að hjarðónæmi myndist, eins og sagt var í mars þegar "sænska leiðin" var boðuð, ættu þessir tilslökunarsinnar að líta sem snöggvast á hina eldrauðu Evrópu á korti frá í gær og athuga litinn á Svíþjóð í leiðinni.
Og jafnframt mætti giska á og birta reglulega tölu öryrkja, sjúkra, öryrkja og látinna af völdum hins skæða og lúmska fylgifisks COVID og taka þessa tölu með í reikninginn þegar fundin er skásta leiðin í viðureigninni við COVID-19 og COVID lungnabólgu, COVID heilablóðföll og COVID hjartaáföll.
Það gerir COVID-19 enn lúmskari og viðsjálli en ella hve furðu margir sleppa ævintýrlega vel frá því að fá þessa veiki, jafnvel fólk á níræðisaldri og með svonefnda undirliggjandi sjúkdóma.
En einmitt þess vegna er hún enn varhugaverðari. Enginn getur fyrirfram áætlað hvernig hann muni smitasta eða hver afleiðingar af smitinu verða.
![]() |
Brast í grát þegar hún heyrði af smiti Víðis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.11.2020 | 17:26
Nútíma álfasögur? Sem meta má til talsverðs fjár?
Álfatrúin, sem svo víða má finna merki um í íslenskri þjóðmenningu, hefur oft verið lítilsvirt sem bull og bjánaskapur, en hefur þó víða áorkað því að merkar náttúruminjar hafa hlotið varðveislu. En sögurnar hafa líka áorkað fleiru.
Gott dæmi um það eru þau listaverk og hugverk sem hafa sprottið í kringum þær, svo sem lög og jafnvel leikrit.
Lagið Kirkjuhvoll kemur í hugann, lag og ljóð sem nær hárri hæð í flutningi besta óperusöngvara þess tíma.
Þegar Arnaldur Indriðason varð frægur erlendis fyrir sögur eins og Mýrina, brá svo við að fjöldi erlendra ferðamanna taldi hverfið í Norðurmýrinni vera þess virði að skoða það sjá með eigin augum vettvang hinnar áhrifamiklu bókar.
Þar með var Mýrin orðin að atriði á borð við Gullfoss, Geysi og Þingvelli hvað varðaði tekjur Íslendinga af þjónustu og móttöku erlendra ferðamanna.
![]() |
Kalla eftir upplýsingum um Konráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.11.2020 | 13:28
Einfalt: Maður smitar mann - fólk smitar fólk.
Yfirmaður í Bandaríkjaher lýsti eðli covid-faraldursins á einfaldan hátt í sjónvarpsviðtali út frá sjónarmiði hersins: "Faraldurinn má skilgreina sem eina af þeim styrjöldum, sem herinn hefur háð og henni lýkur ekki fyrr en síðasta veiran er horfin."
Í viðtalinu var myndin í huga hans skýr: Veikin berst út á þann einfalda hátt að maður smitar mann og fólk smitar fólk.
Ef lögmáli Murphys er bætt við þá má líka orða þetta þannig, að ef það er mögulegt að veikin smitist á milli fólks, þá mun það gerast.
Þetta er meginstefið á bak við öryggisráðstafanir í flugi og samgöngum og svipað gildir um ummæli forstjóra Landsspítalans um kórónaveiruna og viðfangsefnið, sem blasir við landsmönnum um hátíðirnar.
![]() |
Alvarlegar blikur á lofti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)