Hæfileikaríkt skyldfólk leynist víða.

Frændgarður Hildar Guðnadóttur er stútfullur af hæfileikaríku fólki og ekki síst skemmtilegu og hressilegu fólki.

Nafnið Guðni hefur yfir sér vissan ljóma, því að amma Hildar var Margrét Guðnadóttir, fyrsta konan sem varð prófessor við Háskóla Íslands og stórmerk læknavísindakona. 

Óskyldur, en á svipuðum aldri og Margrét, var Bjarni, sem var landsliðsmaður í knattspyrnu um hríð og síðar Alþingismaður, sem kom hressilega við sögu þegar Vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar sprakk 1974. 

Urðu ummæli hans um Hannibal Valdimarsson að kljúfa rekavið vestur í Selárdal í Arnarfirði landsfleyg. 

Síðuhafi man enn eftir því, hvernig Bjarni var burðarás Víkingsliðsins á árunum upp úr 1950, og þegar skrifað var í lýsingum af leikjum liðsins: "Víkingsliðið var lélegt, nema Bjarni og Reynir."

Bergur Guðnason, var meistarflokksmaður Vals bæði í handbolta og fótbolta og alveg einstaklega flinkur og laginn við að skora. Hann og Guðjón Jónsson í Fram skoruðu mörg mörk sín svo lymskulega, að það var varla að menn tæku eftir því. 

Hann var upp á sitt besta í handboltanum á áttunda áratugnum þegar hið ógleymanlega lið Vals, "Mulningsvélin", varð til og blómstraði.  

Afar skemmtilegur og líflegur skólabróðir og vinur i M.R. 

Sonur Bergs er Guðni Bergsson, fyrrum atvinnuknattspyrnumaður og núverandi forseti KSÍ. 

Gaman væri ef einhverjir, sem eru flinkari að fara um Íslendingabók bætti við fleirum í umfjöllun um skyldfólk og frændgarða.  


mbl.is Þúsundir könnuðu hvort Hildur væri frænka þeirra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...fúndur ogh fúndur ogh fúndur ogh fúndur; égh ekki skilja það..."

Ofangreind orð eru hluti af setningu sem útlendur starfsmaður á stórum vinnustað mælti fyrir m0rgum árum, þegar rætt var um starf hans á Íslandi og hvernig honum líkaði það. 

Lýsing hans getur átt víða við, ef marka má tengda frétt á mbl.is um gagnsemi og tilgang funda á vinnustöðum eða annars staðar, sem getur verið jafn misjafn og fundirnir eru margir. 

Pólverjinn hafði verið undra fljótur að geta gert sig skiljanlegan á vinnustaðnum, hafði kynnst aðstæðum á fleiri vinnustöðum og lýsti reynslu sinni nokkurn veginn svona: 

"Íslendingar duglegir ogh vinna mikið, en égh ekki skilja alltaf hvernig eyða tímanum. Ekki vinna heldur alltaf fúndur ogh fúndur ogh fúndur ogh fúndur." 

Eitt af lögmálum Parkinsons fyrir sextíu árum fjallaði um svonefnd smámunalögmál, sem í stuttu máli byggist á því að mesta og ákafasta umræðan í þjóðfélaginu fer oft fram um undralega einföld og lítilsverð mál. 

Á undan Parkinson hafði reyndar Halldór Laxness lýst þrasgirni Íslendinga eftirminnilega í svipuðum dúr. 

Parkinson tók sem dæmi fundi, þar sem smámunalögmálið virkar oft, svo sem í stjórn afar tæknivædds stórfyrirtækis eins og kjarnorkuvers þar sem lang mikilvægasta ákvörðunin snertir kaup á tæknivæddum vélbúnaði upp á hundruð milljarða króna, sem valdamikill stjórnandi og hópurinn í kringum hann hefur mikinn áhuga á að kaupa. 

Til þess að tryggja framgang þess máls, raðar fundarboðandi málefnum fundarins þannig, að fyrst verði rætt um ákvarðanir um smámál, sem allir hafa vit á og hafa markað sér ákveðnar skoðanir. 

Ákvörðunin um vélbúnaðinn verður síðast á dagskránni. 

Dæmið gengur upp. Miklar deilur verða um smámálin eins og fyrirkomulag í nýbyggingu við innganginn í höfuðstöðvar kjarnorkuversins, hvort eigi að vera teppi hér eða þar, litaval og aöstaða fyrir starfsfólk. 

Umræðurnar og skoðanaskiptin verða heit og langdreginn, þannig að stóra, stóra ákvörðunin um vélbúnaðinn feiknadýra, sem fundarmenn hafa upp til hópa ekki vit á, rennur í gegn hjá fundarmönnum, sem búnir eru að eyða öllu þreki sínu í einföld en tiltölulega ódýr málefni. 

Síðuhafi var rétt fyrir tvítugt í samvinnubyggingarfélagi, sem stóð fyrir byggimgu háhýsisins að Austurbrún 2 í Reykjavík. 

Á þeim árum var nokkur verðbólga, og var lang mikilvægasta ákvörðun flestra funda í félaginu sú, að ákveða hækkkun á framlögum félagsmanna til smíðar hússins. 

Óánægja kraumaði undir í því máli, en stjórnin var snjöll í að raða fyrst á dagskrá hvers fundar atriðum, sem allir höfðu vit á og gátu rifist um, svo sem litaval í sameiginlegri eign á neðstu og efstu hæð. 

Flestir væntanlegir eigendur eyddu sem mestum frítíma sínum á kvöldin og um helgar til að vinna við bygginguna til þess að borga byggingarkostnað og félagsgjöld og eitt sinn, þegar mikil hækkun félagsgjalda var á dagskrá á fundi, var smalað á þann fund til þess að andæfa fyrirætlununum stjórnarinnar. 

En á fundinum var uppröðunin á dagskránni þannig, að loksins þegar búið var að eyða öllu kvöldinu í mikil álitamál um lítilsverð atriði og komið var að stóru ákvörðuninni um mikla hækkun útgjalda, var stjórnin komin í meirihluta vegna þess hve margir örþreyttir fundarmenn höfðu gefist upp og farið af fundinum. 

Þess má geta, að vafalaust gerði verðbólgan stjórninni erfitt fyrir, en einnig olli það óánægju, hve stór hluti hagnaðarins af hinni frábærlega einföldu byggingaraðferð rann til þeirra sem högnuðust á uppmælingarkerfinu.  

 


mbl.is Eru fundir martröð eða uppspretta góðra hugmynda?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Undan Afríkuströndum" segir ekki neitt.

Ef dregin er sem beinust lína eftir strönd Afríku líkt og gert var varðandi 4 mílna landhelgi Íslands 1952, þvert fyrir flóa og firði, verður hringleiðin varla styttri en 20 þúsund kílómetrar. 

Þessvegna segir það ekki neitt, þótt það sé sagt tvisvar í tengdri frétt á mbl.is, að eyjan Fuerteventuri sé "undan Afríkuströndum."

Ónákvæmni af þessu tagi er því miður allt of algeng hjá íslenskum fjölmiðlum. Minnst tvívegis hefur til dæmis verið fullyrt í frétt að Sandskeið væri á Hellisheiði þegar hið rétta er, að þegar ekið er austur fyrir fjall, byrjar Hellisheiði ekki fyrr en 15 kílómetrum eftir að Sandskeiðinu sleppir. 

Og einn blaðamaður talaði um Sandskeið í kvenkyni, svona rétt eins og að þar væri sandi mokað með skeið úr sandi. 

Og þá er stutt í að ýjað sé að því að það sé korgur í kaffinu í Litlu kaffistofunni, sem oftar en einu sinni hefur verið sögð vera á Sandskeiði. 

Hið furðulega við að staðsetja Fuerteventura "undan Afríkuströndum" er, að þessi eyja er í eyjaklasa, sem heitir Kanaríeyjar, en hingað til hefur engum dottið í hug að segja annað en að Tenerife og Gran Canaria tilheyri Kanaríeyjum.  


mbl.is Tvíaflsrás í Land Cruiser
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband