Hæfileikaríkt skyldfólk leynist víða.

Frændgarður Hildar Guðnadóttur er stútfullur af hæfileikaríku fólki og ekki síst skemmtilegu og hressilegu fólki.

Nafnið Guðni hefur yfir sér vissan ljóma, því að amma Hildar var Margrét Guðnadóttir, fyrsta konan sem varð prófessor við Háskóla Íslands og stórmerk læknavísindakona. 

Óskyldur, en á svipuðum aldri og Margrét, var Bjarni, sem var landsliðsmaður í knattspyrnu um hríð og síðar Alþingismaður, sem kom hressilega við sögu þegar Vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar sprakk 1974. 

Urðu ummæli hans um Hannibal Valdimarsson að kljúfa rekavið vestur í Selárdal í Arnarfirði landsfleyg. 

Síðuhafi man enn eftir því, hvernig Bjarni var burðarás Víkingsliðsins á árunum upp úr 1950, og þegar skrifað var í lýsingum af leikjum liðsins: "Víkingsliðið var lélegt, nema Bjarni og Reynir."

Bergur Guðnason, var meistarflokksmaður Vals bæði í handbolta og fótbolta og alveg einstaklega flinkur og laginn við að skora. Hann og Guðjón Jónsson í Fram skoruðu mörg mörk sín svo lymskulega, að það var varla að menn tæku eftir því. 

Hann var upp á sitt besta í handboltanum á áttunda áratugnum þegar hið ógleymanlega lið Vals, "Mulningsvélin", varð til og blómstraði.  

Afar skemmtilegur og líflegur skólabróðir og vinur i M.R. 

Sonur Bergs er Guðni Bergsson, fyrrum atvinnuknattspyrnumaður og núverandi forseti KSÍ. 

Gaman væri ef einhverjir, sem eru flinkari að fara um Íslendingabók bætti við fleirum í umfjöllun um skyldfólk og frændgarða.  


mbl.is Þúsundir könnuðu hvort Hildur væri frænka þeirra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var langafi Hildar Guðni Jónsson prófessor?

Ingibjörg Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 11.2.2020 kl. 23:32

2 identicon

Þetta er vitleysa hjá þér Ómar minn! Margrét og þeir bræður voru ekkert skyld, svo vitað sé.
Annars er nokkuð sérstakt að það kemur hvergi fram hver faðir barna hennar tveggja er, sem bæði eru Franzbörn (Guðni Franzson er faðir Hildar).

Hvaða Franz ætli það hafi verið?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 12.2.2020 kl. 02:06

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Franz bar skoskt eftirnafn og varð seinna prófessor í BNA. Bjarni Guðna var á engan hátt skyldur Möggu Guðna, en hann var af sama stúdentsárgangi held ég, en ekki í stærðfræðideild MR líkt og Margrét og hún móðir mín sem voru miklar vinkonur í menntaskóla. Ég var einmitt að ræða við móður mína 90 ára um daginn þegar ég var á Íslandi og var að skoða stúdentsmyndir sem ég hef aldrei séð áður. Svo þeir sem þroskuðust til fótanna eins og Bjarni Guðna þroskuðust ekki eins vel til höfuðsins eins hún amma hennar Hildar. Þannig er það bara oft, Ómar.

FORNLEIFUR, 12.2.2020 kl. 11:07

4 identicon

Skýzt þótt skýr sé. Eins og þegar bent á eru þau Margrét Guðnadóttir prófessor og Bjarni Guðnason og Bergur ekkert skyld umfram aðra Íslendinga. 

Föðurafi Hildar var skozkur eins og bent hefur verið á og hét Franz Donaldson, skozkur. Upplýsingar er m.a. að finna í Læknatali.

Jakob R.

Jakob R. Möller (IP-tala skráð) 12.2.2020 kl. 12:14

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kærar þakkir fyrir leiðréttinguna á misskilningnum um Margréti Guðnadóttur og Bjarna Guðnason.  Ósk mín í lok pistilsins um að "einhver flinkari en ég í Íslendingabók" legðu orð í belg var greinilega ekki að ástæðulausu og biðst ég afsökunar á skekkjunum, sem leiðréttar eru í athugasemdunum. 

Þar nota ég nú til að færa til betri vegar það er missagt var í fræðum þessum, því að skylt er að hafa það er sannara reynist. 

Ómar Ragnarsson, 12.2.2020 kl. 13:18

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Ekkert að afsaka. Við erum öll undan sama fólkinu hvort sem er.

FORNLEIFUR, 17.2.2020 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband