Eins konar risa Dyrhólaey í skýjunum.

Í ljósaskiptunum um klukkan hálf átta í kvöld tók risastór skýjabakki lengst vestur á Faxaflóa á því að búa til risaklakk, sem tók á sig mynd eins konar Dyrhólaeyjar úr skýjum með risastóru gati, sem þó náði ekki niður í sjó.

Erfitt var að átta sig á hæð þessa fyrirbæris, en kannski hægt að giska á 3000 metra hæð, tvo Snæfellsjökla hið minnsta.  Skýjagat. 1.

Myndirnar tvær voru teknar af fyrirbærinu, sem hvarf síðan á um það bil stundarfjórðungi.

Án þess að við því yrði spornað blasti verslun Bonus við Spöngina svo vel við á neðri myndinni, að halda mætti að þetta hefði komið svona fram sem auglýsing fyrir verslunina. 

En sú var auðvitað alls ekki hugsunin. Skýjagat 2.


Veiran breiðist hraðast út í fjölmiðlum. Kostir og ókostir.

Ef gerð væri könnun á því rými í fréttum fjölmiðla sem COVID-19 veiran fær, sýnist hröð fjölgun þessara frétta á hinum fjölbreytilegustu sviðum vera afar hröð og breiðast um allar tegundir frétta, fundi, mannfagnaði, hvers kyns samkomur og samgöngur og guð má vita hvað. 

Vonandi veitir sem best upplýsingaflæði þjóðfélaginu þekkingu til að bregðast sem skynsamlegast og af mestri yfirvegun við þessu ágenga viðfangsefni, og komi í veg fyrir það að tjónið af völdum veirunnar verði mun meira en hægt er að komast hjá með skaplegustum hætti. 

25 prósent samdráttur í flugi Lufthansa og 80 prósent minni bílasala í því landi þar sem flestir bílar eru framleiddir eru dæmi um þau ógrynni tilefna, sem komið hafa fram um málið. 

Í tengslum við það komast meira að segja skítugir bæklingar í sætisvösum Icelandair.

Viðbrögð Bandaríkjaforseta þess eðlis að einbeita afli "stórkostlegasta ríkis heims" í að búa til hindranir og múra á samgöngum við önnur ríki og reisa nokkurs konar mexíkóskan sóttvarnarmúr umhverfis Bandaríkin eru í samræmi við hina þekktu trú hans á múra og aðskilnað lands hans gagnvart öðrum löndum. 

Nú berast fréttir af því að útbreiðsla veirunnar innan lands sé að verða hraðari en áður og ef hún fer úr böndunum verður það varla til að varpa ljóma á einangrunarhugsun hans.  


mbl.is Ragnar gagnrýnir Icelandair fyrir óþrifnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi verður snjóflóðið í vetur til þess að öryggi verði tryggt.

"Fátt er svo með öllu illt, að ei boði gott. Snjóflóðið á Flateyri í vetur var mikið áfall og varpaði skugga yfir framtíðarhorfur á staðnum. 

Það voru slæmu fréttirnar. 

En góðu fréttirnar eru, að án þessa snjóflóðs hefði verið lifað áfram við falskt öryggi. 

Það var heppni að ekki varð manntjón, og nú skapsast grundvöllur fyrir að markvissar rannsókir á grundvelli nýrra gagna, sem liggja nú fyrir en hefðu ekki gert það ef ekkert snjóflóð hefði fallið.

Á slíkum rannsóknum verður vonandi hægt að byggja nægilegar endurbætur með nýjum kröfum og úrlausnum, sem nái fram viðbúnaði sem tryggi öryggi fólksins og atvinnulífsins til frambúðar.


mbl.is Langmikilvægast að endurmeta snjóflóðavarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. mars 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband