"Hesturinn ber ekki það, sem ég ber."

Sala á upprunavottorðum grænnar orku er dæmigerður íslenskur brandari. Minnir á klassíska íslensk þjóðsögu af karlinum, sem setti poka á bak sér sitjandi uppi á hestinum, í stað þess að reiða hann fyrir framan sig. 

Þegar hann var beðinn um útskýringu á þessu háttalagi svaraði hann: "Hesturinn ber ekki það, sem ég ber." 

Salan á upprunavottorðum um græna orku, sem seld er umhverfissóðum í Evrópu er lýsandi fyrir skammgræðgishugsunina sem er svo ráðandi hér á landi. 

Til þess að græða tiltölulega litla fjárhæð með þessari rugluðu sölu, er landinu komið í bókhaldi grænnar orku í Evrópu í ruslflokk og kaupandanum komið í þá stöðu að geta stært sig af því að framleiðsluvara hans sé græn, þegar hún er það alls ekki. 


mbl.is Kom forsætisráðherra á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafn óvænt og Ólympíusilfrið.

Vilhjálmur Einarsson var hinn rólegasti að slaka á eftir hádegisverð hinn 7. ágúst 1960, þegar hringt var í hann og hann spurður, hvað hefði komið fyrir hann. 

Það var ekki furða, því að stutt var í það að þrístökkið hæfist á frjálsíþróttamóti á Laugardalsvellinum og Vilhjálmur orðinn of seinn á vettvang; hafði lagt á minnið tímasetningu, sem var einni klukkustund of sein.  

Hann flýtti sér að sjálfsögðu á völlinn, en var svo seinn fyrir, að hann hafði of lítinn tíma til að hita upp og varð að sleppa fyrsta stökkinu. 

Síðan tók hann til við að stökkva og stökkserían varð sú langbesta, sem hann náð á ferlinum fram að því, með jöfnun á gildandi heimsmeti, 16,70 metrar. 

Heimsmethafinn Jósef Schmidt var að vísu kominn með heimsmetstökk, 17,03 metra í safn sitt, en það átti eftir að fylgja því eftir og fá það samþykkt sem löglegt heimsmet. 

16,70 stökkið þennan ágústdag kom næstum því jafn óvænt og silfurstökkið í Melbourne 1956, en var aldeilis stórkostlegt afrek, sem gaf talsvert fleiri stig þá en gildandi heimsmet í 100 metra hlaupi. 

Á þessum árum voru ekki komnar í gagnið þær tartan-brautir sem síðar komu, né heldur mun betri keppnisskór og framfarir í þjálfun og tækni. 

Met Vilhjálms og annarra á þessum árum er því erfitt að bera beint saman við met nútímans, en eru fyrir bragðið enn stórkostlegri en ella.  

Á Ólympíuleikunum í Róm munaði örfáum sentimetrum að Vilhjálmur kæmist aftur á verðlaunapall, en þar stökk hann lengra en á leikunum í Melbourne, þriðji besti árangurs hans á ferlinum, en var óheppinn með aðstæður, sem mótuðust af misvindi, og bitnuðu á honum af völdum keppinautar, sem teygði tímann í undirbúningi stökkva sinna svo mikið, að með eindæmum var. 

Þá höfðu ekki verið sett þau tímamörk í reglurnar, sem síðar komu til að koma í veg fyrir slíkt. 


mbl.is Afrek sem allar milljónaþjóðir yrðu stoltar af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því verr gefast kærulausra ráð sem fleiri koma þétt saman.

Fornt máltæki hljóðar þannig, að "því verr gefast heimskra manna ráð, sem fleiri koma saman". Víðir Reynisson segir: "Fólk er allt of þétt saman." 

Þar gildir hin einfalda staðreynd, að það þarf ekki nema einn með smit til þess að það breiðist út og dreif sér. 

Miðað við fréttirnar núna mætti umorða gamla máltækið svona:  "Því verr gefast kærulausra ráð sem fleiri koma þétt saman. 


mbl.is „Fólk er allt of þétt saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kári: "Ógnvekjandi". "Háski um páska" í haust? "Verum öll hraust að hausti! "

Kári Stefánsson sagði í gær, að staðan í COVID-19 málinu væri "ógnvekjandi." Sóttvarnalæknir kvartar undan kæruleysi yngra fólksins; les "skyldudjammið"; í fjölbreyttri merkingu, sem ástandið er þrungið af. 

Línur talnanna, sem segja mest, líkjast nú óþyrmilega svipuðum línum í upphafi 1.bylgju faraldursins. 

Við erum stödd í jaðri vítahrings þar sem tölur um fjðlgandi smit og sóttkví hafa svipuð áhrif á straum erlendra ferðamanna til landsins og hertar reglur, og valið stendur að því leyti til á milli þessara kosta eða blöndu af þeim. 

Það er til mikils að vinna að komast hjá svipuðu ástandi og var í vor. 

Þá söng Bjarni Atlason á facebook lagið "Gegn háska um páska." Nú væri tilefni til að syngja sama lag, þar sem í stað línunnar "andæfum háska´um páska" væri sungið "Verum öll hraust að hausti." 

 

:,: Verum öll hraust að hausti :,: 

 

Þegar að hættu´að höndum ber 

í hatrammri sótt og elli

æðrulaust samt við ætlum hér

ógnina´að leggja´að velli. 

 

Hret að hausti hafa fyrr

herjað og barið þungt á dyr. 

Um aldir þó stóðu menn óbeygðir

andspænis miklum felli

en unnu svo bug á hrelli. 

 

Í takti við göngum, öll sem eitt

við illskeyttan vanda´að stríða.

Við þurfum ekki´að óttast neitt

nema óttann sjálfan og kvíða. 

 

Að hausti, sem helgist von og trú

halda við skulum, ég og þú. 

Í einhug til sigurs allir nú

ætla Víði´að hlýða

og horf til betri tíða. 

 

Að hausti, sem helgist von og trú

halda við skulum, ég og þú, 

með bjartsýni heitum hér og nú

að horfa til betri tíða, 

og skynsemi´og hugdirfð hlýða. 

 

Örkum gegn fumi´og flaustri

og finnum lausn, hraust að hausti! 


mbl.is 31 brot á sóttvarnareglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. ágúst 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband