Úrslitadagur í Orrustunni um Bretland fyrir réttum 80 árum.

Fyrir réttum 80 árum var komið að úrslitastund og úrslitadegi í orrustunni um Bretland. 

Fyrirfram hafði Hitler gefið það út, að 17. september yrði að ákveða af eða á, hvort af innrásinni í Bretland yrði. 

Allt var tilbúið fyrir innrásina "Aðgerð Sæljón", stórum flota skipa og innrásarpramma hafði verið safnað saman í höfnum á strönd Frakklands og Niðurlanda, og Luftwaffe, öflugasti flugher heims, var langt kominn með að klára sömu höfuðforsendu og hafði gefist svo vel í töku Danmerkur og Noregs, að ná algerum yfirráðum í lofti. 

"Orrustan um Bretland" hófst 13. ágúst og síðari fasi hennar, "Orrustan um London", hófst 7. september með fyrstu þúsund flugvéla árás lofthernaðarsögunnar. 

Göring lofaði Hitler því að knésetja RAF, Breska flugherinn, í tæka tíð, og Þjóðverja áætluðu, að aðeins 300 breskar flugvélar væru eftir og lítið mál að þurrka þær út. 

Sunnudagurinn 15. september var síðasti dagurinn til þess að vinna úrslitasigur í lofti, því að spáð var verra veðri daginn eftir. 

Niðurstaðan varð einhver harðasta viðureign Orrustunnar um Bretland þennan örlagaríka sunnudag, en þegar búið var að fara yfir niðurstöðuna daginn eftir, kom í ljós, að Bretar höfðu, og það ekki í fyrsta sinn, skotið niður fleiri þýskar flugvélar en þeir höfðu misst. 

Og ekki bara það. Bretar áttu enn 700 flugvélar eftir og RAF var enn nógu öflugur til þess að hafa betur dag eftir dag í viðureigninni við Þjóðverja. 

Þótt Supermarine Spitfire fengi allan ljómann, var hitt staðreynd að Hawker Hurricane skaut niður fleiri þýskar vélar. 

Ástæðan var ákveðin verkaskipting, Spitfire barðist við þýsku orrustuvélarnar Messerschmitt Bf 109 til þess að Hurricane fengi frið til þess að skjóta niður sprengjuflugvélarnar Heinkel He 111 og Dornier Do 17. 

Ratsjár Breta gerðu kleyft að komast hjá því að bresku vélarnar væru á sífelldu útkikki til að taka á móti þýsku vélunum og fóru ekki á loft fyrr en árásarvélarnar voru komnar. 

Þýsku vélarnar þurftu hins vegar að fljúga miklu lengri leið og skorti flugdrægni, þannig að þær fengu minna ráðrúm til að berjast. 

Þýsku sprengjuflugvélarnar voru aðeins tveggja hreyfla og of litlar. Það hefði munað miklu ef Þjóðverjar hefðu haft yfir að ráða stórum fjögurra hreyfla langfleygum vélum á borð við Lancaster vélar, sem komu síðar til sögu. 

Grundvallargallinn lá í því, að samsetning og notkun þýska flugherssins miðaðist eingöngu við það að nýta samhæfingu við landherinn og aðstoða hann. 

Hitler þekkti bara landhernað og var alltaf óöruggur með sig gagnvart sjóher og landher.  

Gróft ofmat á eigin getu blasti því við að kvöldi 15. september, breski flugherinn var algerlega óbugaður og þetta hafði verið úrslitadagurinn í fyrstu stórorrustu í hernaðarsögunni, þar sem nær eingöngu var barist í lofti. 

17. september neyddist Hitler til að gefa út tilskipun um að fresta "Aðgerð Sæljóni" í ótiltekinn tíma. 

Að vísu gerði hann þetta ekki opinberlega og loftárásir Þjóðverja á Bretland héldu áfram með hléum allt fram í maí 1941. 

Fram að þessu höfðu Þjóðverjar notið einhverrar mestu sigurgöngu sögunnar allt frá því er þeir náðu aftur Rínarlöndunum 1936. 

En Orrustan um Bretland var í raun fyrsti ósigur þeirra. 

Hin síðari ár hafa ýmsir hernaðarsagnfræðingar fært að því rök, að í raun hafi Hitler glatað möguleikanum á innrás í Bretland með því að ráðast á Noreg í apríl 1940.  

Sjóherir stríðsþjóðanna í þeim hildarleik urðu að vísu báðir fyrir talsverðu tjóni, en tjón Þjóðverja var bæði meira og þar að auki mun tilfinnanlegra vegna þess að sjóher þeirra var minni en Breta.  

Af þeim sökum hefði það alls ekki verið víst, að innrás í Bretland hefði heppnast, jafnvel þótt breski flugherinn hefði beðið ósigur. 

Í ljósi þessa var það dýrkeypt fyrir Þjóðverja að missa á þriðja þúsund flugvélar í stríðinu við Breta.  

Um þetta má skeggræða, en þess dýrlegri var sigur Breta, sem gulltryggði það, að innrás í Bretland yrði aldrei að veruleika og að úrslitin yrðu fyrsti ósigur Þjóðverja, raunar af því tagi, að það, að vinna ekki sigur, teldist jafngilda ósigri. 

Mismunandi túlkun Hitlers og Stalíns á þessu átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. 

Það hlakkaði í Stalín yfir því, að á meðan Þjóðverjar gætu ekki knésett Breta, væru Sovétríkin óhult í skjóli griðasáttmálans við Hitler frá 23. ágúst 1939.   

Stalín miðaði alla uppbyggingu Rauða hersins við það að Hitler væri ekki svo skyni skroppinn að ráðast á Sovétríkin áður en hann hann hefði fyrst losað sig við Breta. 

Hitler hlyti að sjá, að stríðið við Breta væri ekki unnið, heldur yrði hann að byrja á því að snúa ósigrinum haustið 1940 í sigur. 

Það myndi taka tíma, og árás Þjóðverja til austurs gæti því engan veginn orðið fyrr en í fyrsta lagið vorið 1942. 

Þegar hver vísbendingin af annarri benti til innrásar á Sovétríkin vorið 1941, og það voru breska leyniþjónustan og meira að segja einkabréf frá Churchill, sem vöruðu hann við, hélt Stalín að með þessu væri Churchill í eiginhagsmunaskyni að reyna egna Rússa til að lenda í stríði við Þjóðverja. Stalín forðaðist því að gera neitt, sem Þjóðverjar gætu túlkað sem ógnun við sig og var þess vegna berskjaldaður og óviðbúinn þegar Barbarossa fór í gang 22. júní 1941. 

Þetta var svipað ástand og hafði verið 1938-1939 þegar bæði Vesturveldin og síðan Rússar reyndu að beina ógn Hitlers frá sér.  

 

 


Hvað um aðvörunarorð Páls Einarssonar?

Á þeim tíma, sem ákvarðanir voru teknar um að reisa kísilverið á Bakka, beindi Páll Einarsson, einn okkar færasti jarðeðlisfræðingur á þessu sviði, þeirri aðvörun til þeirra, sem tækju þessa ákvörðun, að helsta átakalínan á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu gengi beint í gegnum þann stað, sem verið ætti að rísa á, og lagði til að verið yrði á öðrum stað. 

Því var ekki sinnt, og nú segir náttúruvársérfræðingur ekki hægt að útiloka, að stærri skjálfti en skjálftarnir í dag muni geta komið. 

Já, ekki veldur sá er varar, segir máltækið. 


mbl.is Annar öflugur skjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannvirki og hlutir, sem á sínum tíma stóðust kröfur, en ekki nú. Burt með þau?

Víkingaskipin, sem fluttu landnema Íslands hingað til lands, voru talin fullgóð á sínum tíma tl þeirra nota. Þau myndu hins vegar ekki standast kröfur Siglingamálastofnunar nú og hefðu ekki gert það þegar verið var að sigla þeim um síðustu aldamót. Ef núverandi kröfur Siglingamálastofnunar hefðu verið í gildi fyrir rúmlega 1100 árum, hefði Ísland ekki verið numið. Það stóð í stappi með endursmíði víkingaskipa sem siglt var yfir Atlantshaf um síðustu aldamót, af því að þau voru ekki talin standast styrkleikakröfur nútímans; skipin voru upphaflega hönnuð til þess að hafa innbyggða hreyfingu. Svipað átti við um flekann Kon-tiki hjá Thor Heyerdal, sem þorði ekki annað en að styrkja flekann með auka stögum. Þegar farið var af stað, kom í ljós, að stögin söguðu flekann í sundur og hann liðaðist í sundur á haföldunni. Flekinn var því látinn fara í upphaflegt form og honum siglt farsællega yfir Kyrrahaf. 

Burt með þessi gömlu og "úreltu" fley?

Fiat 500. R-10803

Fiat 500 árgerð 1972 og NSU Prinz árgerð 1958, nú í eigu síðuhafa, stóðust kröfur þeirra tíma um búnað og hönnun bíla, en eru fjarri því í dag. Engir hliðarspeglar voru eða éru á Fiatinum af því að hann var hannaður til að smjúga um mjóstu göturnar í Napoli og Róm. Engin öryggisbelti voru eða eru í þessum bílum. Þeir  fengju enga stjörnu í árekstrarprófunum NCAP núna. Á tímabili fengu þeir að vera í umferð fyrir rúmum áratug, til dæmis í akstri Fornbílaklúbbsins 17. júní og í Gleðigöngunni. 

Burt með þá?

Svipað og enn magnaðra mætti segja um elstu bílana í íslenska bílaflotanum, sem eru á ferli á tyllidögum.  NSU Prinz og Fiat 500´72

Burt með þá og gamla forsetabílinn? 

Nú kemur í ljós, að fyrsta húsið, sem hannað var sérstaklega og byggt fyrir tækjarekstrar útvarps á Íslandi 1929-1930 og stóðst allar kröfur þá, gerir það ekki í dag. 

Burt með það?

Á lóð Menntaskólans í Reykjavík stendur lítið hús, fyrsta húsið á Íslandi, sem hannað var og byggt sem íþróttahús. 

Það var gefið byggingarleyfi fyrir því á sínum tíma, en í dag er það víðsfjarri því að standast kröfur nútímans. Það er til dæmis svo lítið, að það er langt frá því að hægt sé að koma fyrir heilum vítateigum fyrir í því, heldur enda þeir úti í hliðarveggjum. Á tímabili voru uppi áform um að umturna því að innanverðu.

Burt með það? 

 

 


mbl.is Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband