5000 megavatta vindorkugarða eins og skot!

Í útvarpsviðtali við Hafstein Helgason fyrir nokkrum dögum sagði hann að drífa þyrfti í því að vindorkubæða Ísland og byrja strax á 5000 megavatta afli, en til samanburðar er afl allra íslenskra vatnsafls- og gufuaflsvirkjana landsins nú um 2200 megavött og aflið, sem íslensk heimili og fyrirtæki nota, um 400 megavött. 

Verði drifið í þessari vindorkugarðabyltingu verður niðurstaðan sú hið fyrsta, að við framleiðum um það bil 15 sinnum meiri raforku en við þurfum til íslenskra heimila og fyrirtækja. Eftir sem áður þó væntanlega ævinlega sagt, að þetta sé gert til að auka afhendingaröryggi fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. 

Áhugi Norðmanna á vindorkugörðum á landi hefur minnkað, og sækja þeir nú frekar út á sjóinn. 

Því veldur verri reynsla af vindorkugörðunum  uppi á landi, svo sem vegna fugladráps, hávaða og sjónmengunar. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra upplýsti í dag að skoðaður væri sá möguleiki að hafa risa vindorkugarð eða garða úti á hafi hér við land, til dæmis við suðausturland. 

Hin allt að 200 metra háu möstur myndu að vísu keppa um athygli og útsýni við einstæða jöklasýn á þessum slóðum inn til landsins, en slíkir smámunir nunu varla vefjast fyrir mönnum þar frekar en fyrirhugaðir vindorkugarðar við Búðardal, á Laxárdalsheiði og við Garpsdal í Dalasýslu.  

Vindorkan er greinilega á leiðinni ef marka má það, að meðal kaupenda jarðanna undir þær vestra eru jafnvel ráðherrar, fyrrverandi og núverandi. 


mbl.is Metnaðarfullar hugmyndir um vindorkugarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðið "túristagos" var fyrst notað 1970 og hefur dugað vel.

Snemmsumars 1970 hófst gos í svonefndum Skjólkvíum utan í Heklu, sem þótti koma mjög óvænt, því að Hekla átti sér langa sögu um stórgos, sem komu á allt að aldar fresti, en 1970 voru aðeins 27 ár liðin frá síðasta Heklugosi, sem var stórgos af gömlu gerðinni. 

Öskufall í upphafi gossins barst til norðvesturs yfir Þjórsárdal, en olli einna mestum búsifjum fjær, norður í Húnavanssýslu, þar sem eitrað loft frá Heklu olli veikindum í kvikfénaði. 

En að flestu öðru leyti voru áhrif gossins 1970 að mestu leyti jákvæð, einkum fyrir ferðaþjónustuna. 

Í umræðum um gosið var farið að nota orðið "túristagos" um það fyrirbæri, að þarna var afar aðgengilegt gos með möguleika fyrir venjulega bíla til ferðalaga að gosstöðvunum. 

Uppgangur í ferðaþjónustunni ásamt fleiri atriðum urðu til góðra áhrifa á þjóðarhag um sinn. 

Síðan 1970 hafa komið gos sem kalla má túristagos, og gosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum, sem ollu miklu tjóni af mörgu tagi, bæði hér á landi og um allan heim, urðu hreinlega til þess að nafn Íslands varð alþekkt um allan heim og skópu fordæmalaust góðæri hér á landi fyrir sagkir margfaldrar ferðaþjónustu fram að covid. 

Eldgosið í Geldingadölum hefur komið eins og hvalreki sem túristagos en þakka má fyrir, enn  sem komið er, að aukin eldvirkni og hugsanlega eldvirknisaldir á Reykjanesskaga hafa enn ekki valdið þeim miklu búsifjum, sem slíkt gæti valdið, ef það gerðist á óhagstæðari stað. 


mbl.is Eldgosið naut gríðarlegrar athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. nóvember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband