Skúffurnar í þjóðarbókhaldinu.

Hér um árið kom það stundum upp í sambandi við fé, sem eytt var vegna dagskrárgerðar, að stundum væri hægt að hagræða útkomunni með því að skrifa útgjöld á önnur verkefni en þau fóru raunverulega í. 

Var slíkt nefnt "skúffubókhald" með því að nota líkingamál. 

Svipað væri kannski hægt að segja um þau útgjöld, sem fylgja myndu því að koma á fót almennri "lýðgrundaðri" skimun. 

Ef slík skimun, sem tryggir að sjúkdómar uppgötvist, sem annars hefðu fengið að dafna í friði og valda dauðsföllum eða alvarlegum veikindum, yrði tekin upp, væri hægt að lýsa því þannig, að upphæðin, liklega einhverjir tugir milljarða, væru teknar úr sérstakri skúffu í skúffubókhaldi. 

Upphæðin, sem sparaðist í þjóðarbókhaldinu í formi mannslifa eða afleiðingra alvarlegra veikinda, yrði hins vegar ekki bókuð, enda erfitt að finna nákvæma krónutölu. 

Svona "skúffubókhald" án þess að báðar hliðar væru bókaðar, væri hins vegar rangt í sjálfu sér. 

En finna má mýmörg dæmi um það á mörgum sviðum þjóðlífsins að oft er tjón vegna nísku mun hærri upphæð, en hinir nísku ætluðu að spara eða ætluðu sér að spara. 


mbl.is Fleiri deyi úr krabbameini í ristli og endaþarmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Suga lömb ærnar?

Sérkennileg er sú notkun sagnarinnar að sjúga þegar í staðinn er talað um að "suga" og meira að segja ítrekað í sumum fréttum.

Að vísu er nafnorðið suga hluti af nafnorðum eins og blóðsuga og ryksuga, en aldrei heyrist samt talað um að blóðsugur séu að suga menn.  

Og ekki heldur talað um að brjótsmylkingar eða mjaltavélar séu að suga. 

 


mbl.is Ryksuga landnámsrústir og forverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta gos í Öskju hálfgerður "ræfill." Þar á undan stórgos. Skjálftahrina 2007.

Síðasta Öskjugos var 1961 en var ekki stórt, þótt hraun rynni úr gíg efst í Öskjuopi og niður opið til austurs. 

Öskjugosið þar á undan, 1875, var hins vegar gríðarlegt öskugos, sem lagði þykka ösku yfir norðausturhálendið og olli því að fjöldi bújarða fóru í eyði og flæmdi gosið þúsundir manna úr landi til Vesturheims. 

Fróðlegt verður að athuga fjóra möguleika, ef kvika er að þrýstir landi upp nú.

1. Risið stöðvast og ekkert gos verður. 

2. Risið stendur nógu lengi til að það gjósi, en gosið verður lítið, allt niður í "ræfil". 

3. Risið verður það mikið og langvinnt að gos verður stórt, en kannski á öðrum nálægum stað. 

2007 til 2009 var skjálftahrina við Upptyppinga auðaustan við Öskju, og færðust skjálftarnir til norðurs allt yfir í Álftadalsdyngju norðaustan við Fagradal. Síðan fjaraði virknin út.

Upphaflega var virknin á óvenju miklu dýpi.  

Um tíma var haft á orði að gos í Álftadalsdyngju þyrfti ekki að verða slæmt ef það yrði svo langvinnt og rólegt dyngjugos að það yrði "túristagos". 

Ef einhver hefði sagt 2008 að gos með slíku yfirbragði dyngjugoss af miklu dýpi myndi hefjast á Reykjanesskaga 13 árum síðar hefði slík fjarstæða vakið hlátur.  


mbl.is Landris við Öskju í fyrsta sinn í áratugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. september 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband