6.4.2022 | 18:48
Langvinnt og í raun óvinnandi stríð fyrir Rússa framundan í Úkraínu?
Hrokafullar eru yfirlýsingar Vladimís Pútíns í aðdraganda Úkraínustríðsins, sem lýstu einstakri andúð hans og fyrirlitningu á því landi og íbúum þess, svo sem að þetta væri ekki ríki né, heldur ætti þetta landsvæði að vera hluti af Rússlandi og fólkið hluti af rússnesku þjóðinni.
Ummælin sýna, að forneskjuleg grimmd einsýns einræðisherra er grundvöllur fyrir þeim hernaði, sem hefur í raun staðið í átta ár undir formerkjum landvinningastefnu, sem er sveipuð inn í gamalkunna aðferð einvalda fyrri alda, að finna sér utanaðkomandi ógn til að fylkja þjóð sinni gegn.
Í ritskoðuðu fjölmiðlaumhverfi Rússlands er hægt að gera jafnvel venjulega alþýðu í borg eins og Bútsja að "grófum og kaldlyndum" morðóðum útsendurum stjórnvalda í Kænugarði.
Þegar Sovétmenn komu sér upp leppstjórn í Afganistan, sem múslimskir heimamenn steyptu af stóli 1979, sýndist ráðamönnum í Moskvu það auðveld lausn, að senda her sinn inn í landið og þvinga landsmenn með hervaldi risaveldisins til að lúta nýrri leppstjórn.
Niðurstaðan leiddi í ljós stórfellt vanmat á getu Rauða hersins til að framkvæma þetta verkefni, og - það sem athyglisvert er, voru þetta atriði sem hafa reynst þau svipuð og nú hafa sett strik í reikninginn í Úkraínu.
Herbúnaður Rússa hentaði ekki aðstæðum í Afganistan með öllu sínu fjallendi, flutningaleiðir voru ónothæfar, samskipti í ólestri, almenningur var andvígur hinum erlenda her, skæruliðar gerðu usla og stríðið dróst á langinn með allt of miklum kostnaði og fórnum.
Á endanum dró þetta gersamlega mislukkaða stríð safann úr almennri getu Sovétríkjanna til að halda sér sjálfum við.
Afganistan og Úkraína eru álika stór lönd, ríflega 600 þúsund ferkílómetrar hvort og íbúarnir eru á svipuðu róli, 35 milljónir í Afganistan og 45 milljónir í Úkraínu.
Hrjóstrugt fjallalandslag Afganistan á sér samsvörun í stórum og þykkum skógum Úkraínu hvað það snertir, að í slíku umhverfi hafa staðkunnugir heimamenn mikið forskot á erlenda aðkomuhermenn hvað varðar launsátur og það að velja sér hentugan vettvang átaka, sem er oft undirstaða allra bardaga.
Úkraína bætist nú í hóp landa, þar sem stórveldi hafa átt í miklum vandræðum í styrjöldum sínum, og jafnvel orðið að gefast upp í lokin þegar ljóst er, að jafnvel þótt stríðið sýnist unnið og búið að fara með hervaldi um allt landið, er hernámsþjóðin engu nær um raunveruleg yfirráð.
Má þar nefna Víetnam á 20. öld og Spán á tímum Napóleums, en á Spáni gekk hvorki neitt né rak á sama tíma sem keisarinn fór í hverja sigurförina af annarri un Evrópu.
Úkraínustriðið gæti orðið svipaður myllusteinn um háls Rússlands og draga þar mátt úr þjóðinni.
Sumir benda á það að Rússar gætu fengið stuðning Kínverja, en alls óvíst er að Kínverjar hafi áhuga á að taka að sér hrörnandi fjarlægt veldi sem hálfgerðan ómaga í sinni umsjá.
Slík endalok yrði þar að auki háðuleg fyrir stórveldisdraumamanninn Pútín.
![]() |
Sakar Úkraínu um ögranir í Bútsja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 7.4.2022 kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Eyjabakkadeilan og Kárahnjúkadeilan í framhaldinu fyrir tuttugu árum vorsu svo stór mál, að Hellisheiðarvirkjun smaug í gegn og leit furðu vel út á pappírnum, 300 megavött af "endurnýjanlegri og hreinni orku."
En í raun var þetta mesta rányrkja á einum stað í Íslandssögunni, og tuttugu árum síðar þegar orkan dvínar á að fara aftur af stað til að leita í örvæntingu að fleiri möguleikum til að halda áfram með ósjálfbærnina, ekki bara á svæðum, sem heyra undir Reykjavík, heldur var flutt sjónvarpsviðtal fyrr í vetur við sveitarstjóra Ölfushrepps sem hrópaði hástöfum á 1000 megavött á sínu svæði, og var þessi tala sett tvöföld yfir allan sjónvarpsskjáinn til að auka áhrifamátt kröfunnar.
Áður hefur margoft verið lýst hér á síðunni þeirri niðurstöðu helstu sérfræðinga okkar á sviði nýtingar gufuafls, að til þess að slík orka geti talist endurnýjanleg þarf að byrja orkuvinnsluna varlega og auka hana ekki nema fullvíst sé það teljist ekki "ágeng orkuöflun" eins og þetta fyrirbæri hefur verið kallað.
Líkast til hefði Hellisheiðarvirkjun ekki staðist þá kröfu nema hún hefði verið innan við 100 megavött, þótt upphaflega væri talað um meira, en Þeystaréykjavírkjun er höfð 90 megavött að sögn forstjórans, til þess að vera nálægt því að standast þessa kröfu um sjálfbærni.
Krafa sveitarstjóra Ölfushrepps um 1000 megavött sýnir tryllta og gersamlega ábyrgðarlausa sýn á málið eins og það lítur út í dag.
Eini vísindamaðurinn, sem heyrst hefur að hafi reynt að rannsaka sjálfbærni Hellisheiðar-Nesjafvallasvæðins, var Bragi Árnason, sem giskaði á að eftir 50 ára notkunartíma liðu um það bil 100 ár þar til það hefði jafnað sig nóg til þess að byrja að nýta það að nýju.
Sé það rétt, verður staðan við lok Hellisheiðarvirkjunar miklu erfiðari heldur en hún var fyrir hana, því að orkunni, sem var tekin í gagnið, var sóað.
Svipað hefur verið að gerast undanfarin ár á ysta hluta Reykjanesskagans.
Og örvæntingarviðbrögð eru þegar byrjuð að koma í ljós hjá þeim, sem eru haldnir þeim óslökkvandi orkuþorsta, sem hrjáir ráðamenn þjóðarinnar um þessar mundir.
![]() |
Upphafið að því að virkjanamál séu endurskoðuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)