Langvinnt og í raun óvinnandi stríð fyrir Rússa framundan í Úkraínu?

Hrokafullar eru yfirlýsingar Vladimís Pútíns í aðdraganda Úkraínustríðsins, sem lýstu einstakri andúð hans og fyrirlitningu á því landi og íbúum þess, svo sem að þetta væri ekki ríki né, heldur ætti þetta landsvæði að vera hluti af Rússlandi og fólkið hluti af rússnesku þjóðinni.

Ummælin sýna, að forneskjuleg grimmd einsýns einræðisherra er grundvöllur fyrir þeim hernaði, sem hefur í raun staðið í átta ár undir formerkjum landvinningastefnu, sem er sveipuð inn í gamalkunna aðferð einvalda fyrri alda, að finna sér utanaðkomandi ógn til að fylkja þjóð sinni gegn. 

Í ritskoðuðu fjölmiðlaumhverfi Rússlands er hægt að gera jafnvel venjulega alþýðu í borg eins og Bútsja að "grófum og kaldlyndum" morðóðum útsendurum stjórnvalda í Kænugarði. 

Þegar Sovétmenn komu sér upp leppstjórn í Afganistan, sem múslimskir heimamenn steyptu af stóli 1979, sýndist ráðamönnum í Moskvu það auðveld lausn, að senda her sinn inn í landið og þvinga landsmenn með hervaldi risaveldisins til að lúta nýrri leppstjórn. 

Niðurstaðan leiddi í ljós stórfellt vanmat á getu Rauða hersins til að framkvæma þetta verkefni, og - það sem athyglisvert er, voru þetta atriði sem hafa reynst þau svipuð og nú hafa sett strik í reikninginn í Úkraínu. 

Herbúnaður Rússa hentaði ekki aðstæðum í Afganistan með öllu sínu fjallendi, flutningaleiðir voru ónothæfar, samskipti í ólestri, almenningur var andvígur hinum erlenda her, skæruliðar gerðu usla og stríðið dróst á langinn með allt of miklum kostnaði og fórnum.

Á endanum dró þetta gersamlega mislukkaða stríð safann úr almennri getu Sovétríkjanna til að halda sér sjálfum við.   

Afganistan og Úkraína eru álika stór lönd, ríflega 600 þúsund ferkílómetrar hvort og íbúarnir eru á svipuðu róli, 35 milljónir í Afganistan og 45 milljónir í Úkraínu. 

Hrjóstrugt fjallalandslag Afganistan á sér samsvörun í stórum og þykkum skógum Úkraínu hvað það snertir, að í slíku umhverfi hafa staðkunnugir heimamenn mikið forskot á erlenda aðkomuhermenn hvað varðar launsátur og það að velja sér hentugan vettvang átaka, sem er oft undirstaða allra bardaga. 

Úkraína bætist nú í hóp landa, þar sem stórveldi hafa átt í miklum vandræðum í styrjöldum sínum, og jafnvel orðið að gefast upp í lokin þegar ljóst er, að jafnvel þótt stríðið sýnist unnið og búið að fara með hervaldi um allt landið, er hernámsþjóðin engu nær um raunveruleg yfirráð. 

Má þar nefna Víetnam á 20. öld og Spán á tímum Napóleums, en á Spáni gekk hvorki neitt né rak á sama tíma sem keisarinn fór í hverja sigurförina af annarri un Evrópu. 

Úkraínustriðið gæti orðið svipaður myllusteinn um háls Rússlands og draga þar mátt úr þjóðinni. 

Sumir benda á það að Rússar gætu fengið stuðning Kínverja, en alls óvíst er að Kínverjar hafi áhuga á að taka að sér hrörnandi fjarlægt veldi sem hálfgerðan ómaga í sinni umsjá. 

Slík endalok yrði þar að auki háðuleg fyrir stórveldisdraumamanninn Pútín. 

 


mbl.is Sakar Úkraínu um „ögranir“ í Bútsja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Mér fannst Egill Helgason eiga ansi gott viðtal við Ukrainumann rithöfund.Hann skilur vandamálið.Hann sagiði bbeint út að það yrði að drepa Pútín áður en nokkur von væri um samninga.

Maður sem talaði af kunnugleika

Halldór Jónsson, 6.4.2022 kl. 21:30

2 Smámynd: Hörður Þormar

Ég tek undir með Joe Biden, þessi maður verður að víkja!

Hörður Þormar, 6.4.2022 kl. 21:43

3 identicon

Sæll

Svo undarlegt sem það er, þá er nokkur hópur manna hér á landi sem hefur komið Pútín til varnar og gerir jafnvel enn. Pútín er týpískur fasisti. Rök hans um rétt Stór-Rússlands til yfirráða er gamalkunnur. Fram að innrásinni heyrðust rök hans endurróma úr ólíklegustu áttum verð ég að segja. 

Aðdáendur Stalíns áttu sér margir hverjir málsvörn; þeir voru blekktir. Brynjólfur, Halldór og Kristinn E. vissu hvað klukkan sló. - Nú geta menn ekki borið slíku við.

Það er ekki annað hægt en að nefna nafn eins verjenda glæpaverka Pútíns. Það er Páll Vilhjálmsson. Mér blöskra skrif hans og hirðarinnar sem tekur undir með honum. Að mínu mati á orðið "nytsamir sakleysingjar" ekki við um þá. Páll veit nefnilega betur. - Og hvað er hægt að segja um vígðan mann sem kennir varnarsamstarfi Vesturlanda um? Mér kemur ýmislegt í hug sem ekki er í letur færandi.

Einar S. Hálfdánarson (IP-tala skráð) 6.4.2022 kl. 22:22

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Tek undir með Einari. Hryðjuverkasamtökin rússneska herinn verður að stöðva. Á kalastríðsárunum hugsuðu margir með hryllingi til þess ef hryðjuverkamenn kæmust yfir kjarnorkuvopn. Nú vitum við að það gerðist fyrir 70 árum síðan.

Theódór Norðkvist, 6.4.2022 kl. 23:23

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Og ég sem hélt að Pútín væri maður

Halldór Jónsson, 7.4.2022 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband