Rými í þotum í langflugi er mikilvægur grunnþáttur.

Fyrir tæpri hálfri öld bauð SAS flugfélagið tveimur starfsmönnum frá hverju Norðurlandanna í sérstakt flug kringum hnöttinn af því tilefni, að SAS var að fara sína fyrstu áætlunarferð yfir norðurpólinn.

Flugið hófst í Kaupmannahöfn og var flogið með breiðþotu af gerðinni Boeing 747 þaðan og beint yfir norðurpólinn í einum áfanga til Ancorage í Alaska, miklu styttri leið en ef flogið er beint yfir Bretland og Kanada. 

Þessi fyrsti áfangi flugferðarinnar var einkar ánægjulegur og er sérstaklega minnisverð sú heppni að sjá hæsta fjall Norður-Ámeríku, Mount MC Kinley rísa baðað sól yfir umhverfið. 

Því næst var flogið til Tokyo og stansað þar í einn dag. 

Hófst þá síðari hluti hnattferðarinnar með mjóþotu af lengstu gerð á borð við Douglas DC-8 63 og millilent á Flippseyjum, Karachi í Pakistan, Bagdad og Aþenu á leiðinni til upphafsstaðarins, Kaupmannahafnar. 

Þotan var smekkfull og fullsetin og ferðinni fylgdi vaxandi þreyta. 

Í Kaupmannahöfn var því tekið á leigu svefnherbergi á Kastrup fyrir ferðina til Íslands, enda var ferðaþreytan orðin það mikil, að maður hreinlega orðinn veikur. 

Þótt þessi hnattferð væri um margt eftirminnileg, einkum dvölin í Tokyo, var munurinn á milli fyrri hluta hennar, í breiðþotunni, og síðari hlutans í mjóþotunni, sláandi. 

Þótt sætin, sem setið var í, væru ágæt, kom í í ljós að hin sálrænu áhrif af því að kúldrast eins og síld í tunnu langdvölum voru afgerandi fyrir ánægju og sæmilegri líðan. 

Í viðtengdri frétt er greint frá rándýru lúxusferðalagi Icelandair á Boeing 757 þotu, sem er með mjóan skrokk sem miðast við hönnun frá því fyrir 70 árum. 

Í stað þess að hrúga hátt í tvö hundruð manns inn í vélina, eru sætin aðeins sjö og rýmið því meira en tvöfalt meira fyrir hvern farþega. 

Allur viðurgerningur og þjónusta vegur að vísu þungt, en rýmið er þó grunnforsenda fyrir vellíðan og ánægju farþega. Sé það ekki nóg, vegur engin þjónusta þann missi upp. 


mbl.is Mjög eftirsóknarvert að vera í áhöfninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldargamall vágestur gengur aftur.

Nútímafólk á erfitt með að ímynda sér þá vá og ógn sem "hvíti dauðinn" eins og berklar voru kallaðir, hafði í för með sér fyrstu áratugi síðustu aldar. 

Það var ekki aðeins hin mikla útbreiðsla berklanna, sem gerði usla og lagði þúsundir i gröfina, heldur herjaði þessi drepsótt vægðarlaust á ungt fólk. 

Þekkt dæmi var ljóðskáldið og söngvarinn Jón frá Ljárskógum, sem þjáðist af berklum á þrítugsaldri og dó langt um aldur fram. 

Hér á landi voru reistir þrír spítalar vegna berklanna, og á vegum Sambands íslenskra berklasjúklinga, skammstafað SÍBS, var stofnað til mikils happdrættist til þess að reisa hælið að Reykjalundi. 

Um miðja öldina kom penissillínið og á síðari hluta aldarinnar tókst að fara langt með að útrýma berklunum.

En hin síðari ár hefur hvíti dauðinn látið kræla á sér á ný, vegna fyrirbæris, sem strax varð fyrirsjáanlegt fyrir 30 árum, en það eru svonefndir fjölónæmir sýklar, sem verða oftast til við stökkbreytingar eða af völdum misheppnaðrar og oft allt of mikillar notkunarsýklalufja, sem sýklarnir aðlaga sig að.  

21. öldin færist hægt og bítandi í það horf að þúsunda ára gömul barátta mannkynsins við faraldra og drepsóttir í endalausri styrjöld sýkla og manna færist inn á gamalkunnug svið. 

Það er í senn hin stóri napri veruleiki og áskorun fyrir jarðarbúa. 


mbl.is Grunur um fjölónæma berkla hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðugt en vandasamt verkefni og til mikils að vinna.

Víst er það vandasamt og dýrt verkefni að koma í veg fyrir dauðaslys í Reynisfjöru. En mannslíf eru svo dýrmæt, að áskoruninni um úrlausn verður að taka á sem öflugastan og hraðvirkastan hátt. 

Til eru fjölmargir frægir ferðamannastaðier erlendis, þar sem við svipað verkefni er að etja, og ef til vill hægt að sækja einhverjar ráðleggingar þangað. 

Prédikunarstóllinn, "Prækestolen" í nágrenni Stavanger í Noregi kemur í hugann, en ekki þarf annað en að sjá mynd af honum til að átta sig á því hvers vegna.  


mbl.is „Þetta er gríðarlega stórt og dýrt verkefni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júní 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband