Stríðin í Afganistan og Víetnam tóku áratugi. Hvað um Úkraínu?

Þegar Fyrri heimsstyrjöldin skall á ríkti mikil bjartsýni hjá stríðsþjóðunum. Fólk fagnaði marserandi hermönnunum og bjóst við að stríðinu yrði lokið eftir örfáa mánuði. 

Þjóðverjar treystu á sóknaráætlun Von Schlieffen sem fólst í því að sækja fram með ofurefli liðs á hægri væng sóknarhersins í gegnum Belgíu og þaðan vestur og suður fyrir París, en láta lágmarks lið halda stöðu á vinstri vængnum og þannig umkringja franska herinn. 

Þegar til kastanna kom fór yfirstjórn þýska hersins á taugum og þorði ekki annað en að styrkja vinstri vænginn. 

Sagt er að aíðustu orð von Schlieffen fyrir adlátið hefðu verið: "Ekki veikja hægri vænginn."

Ýmsir síðari tíma hernaðarsérfræðingar hafa bent á, að það hefði orðið ofviða fyrir hægri vænginn að komast nógu hratt og langt til að læsa sig utan um innilokaða Frakka. 

Hvað um það, styrjöldin stóð í fjögur ár og varð ávísun á aðra stærri 1939-1945 og jafnvel þá þriðju núna. 

Rússar voru sigurvissir þegar þeir réðust inn í Afganistan 1979, en urðu að lúta niðurlægjandi ósigri sjö árum síðar. 

2001 réðust Bandaríkjamenn inn í Afganistan og töldu lítið mál að vinna sigur. 

Tuttugu árum síðar urðu þeir að flýja landið á niðurlægjandi hátt, ekki ósvipað því þegar þeir flýðu frá Saigon í Vietnam eftir að Frakkar höfðu beðið algeran ósigur 1954. 

Nú beinast allra augu að stríðinu, sem háð hefur verið í Úkraínu í tæpt ár. 

Fylgjendur beggja aðila eru sigurvissir og bjartsýnir. En þar gildir, að ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. 

Þrátt fyrir 14 punkta Vilsons Bandaríkjaforseta í lok Fyrri heimsstyrjöldinni um að láta atkvæðagreiðslur þjóða og þjóðarbrota ráða landamærum, létu sigurvegararnir öryggishagsmuni sína ráða mestu. 

Fjórar og hálf milljón þýskumælandi Súdetaþjóðverja urðu til dæmis að sætta sig við að lenda innan landamæra nýstofnaðrar Tékkóslóvakíu til þess hið nýja ríki fengi náttúrugerðan verndarvegg fjalla sem öryggisvörn gagnvart Þjóðverjum. 

Allt tal um að einhverjar framfarir í valdapólitík landa séu möguleikar í Úkraínu eru augljóslega andvana fæddar.  

Bæði Rússar og NATO lönd horfa á landakortið eins og skákmenn á skákborðið og hernaðarbandalög eru gegnsýrð af öryggishagsmunum í stíl forneskjulegrar nýlendustefnu. 

Eins og er, er stóra hættan fólgin í því að atburðarásin fari úr böndunum, hvað sem líður bjartsýni stríðsþjóðanna. 

Það gæti kallað fram örvæntingarfullar aðgerðir með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og stigmögnun. 

Stríðið gæti líka dregist miklu meira á langinn en nokkurn órar fyrir. 

 


mbl.is Selenskí: Rússar eiga ekki möguleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband