Öfgar í veðrinu aukast.

Eitt af því sem sagt var að fylgja myndi hnattrænni hlýnun var það að fellibyljir, ofsaveður og öfgafull fyrirbrigði í veðurfari myndu færast í vöxt. 

Það er athyglisvert að á sama tíma og mestu kuldar í áratugi geysa nú í Evrópu er veðurfar hjá okkur og á syðsta hluta Grænlands hlýjara en í meðalári mánuð eftir mánuð.

Eitt af því sem réði úrslitum í Síðari heimsstyrjöldinni, sem háð var á hlýindaskeiðinu 1920-65, var að í Rússlandi komu mestu vetrarhörkur í áratugi í desember 1941 þegar orrustan um Mosvku stóð sem hæst.

Þær bitnuðu meira á Þjóðverjum en Rússum og þess vegna stöðvaðist þýska sóknin aðeins 15 kílómetra frá miðborg Moskvu.  


mbl.is Heitasta nótt í 108 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í bull-mynd Al Gore, var sagt frá aukningu fellibylja og sýndar dramtískar myndir af þeim. Fellibyljum hefur ekkert fjölgað og sl. tvö ár hafa þeir reyndar verið óvenju fáir í karabíska hafinu.

Al gore sýndi tjónaskýrslur tryggingafélaga, máli sínu til sönnunar. Þær upplýsingar eru villandi vegna þess að þéttbýli hefur aukist á fellibyljasvæðunum og í raun hefur tjónið minnkað miðað við höfðatölu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.1.2010 kl. 10:58

2 identicon

Ég verð að þessu sinni að taka undir það sem Gunnar segir um fellibyljina. Það eru engar tölur sem benda til þess að fellibyljir séu aukið vandamál né að tjónið af þeim sé að verða meira.

Læt Hér að gamni fylgja slóð á skýrslu sem unnin var af 6 virtum fræðimönnum á þessu sviði og þar sést svart á hvítu að eyðilegging í Bandaríkjunum af völdum fellibylja hefur ekki aukist á síðustu áratugum. Í töflu 4b í skýrslunni sést raunar að á árunum 1905 til 2005 varð áberandi mesta tjónið á árunum 1926-1955 eða 49.9 % af heildartjóni aldarinnar. Í þessari töflu er búið að taka tillit til breytinga á þéttleika byggðar, almennrar velferðar, verðbólgu og annars sem hefur áhrif á heildarkostnað vegna tjóna af völdum fellibylja.

Vil svona í lokin segja að þó svo að ekkert bendi til að fellibyljir séu orðnir tíðari eða tjón af þeim meira þá breytir það í engu skoðun minni á því að hlýnun jarðarinnar er stærsta vandamál samtímans, mun stærra og alvarlegra en tímabundin efnahagskreppa sem nú geysar.

Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 11:50

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Athugasemdir ykkar varðandi fellibyljina eru réttmætar. Samanburður á milli ólíkra tímaskeiða varðandi tjón er líka skekkt af auknum mannfjölda.

Í ljós kom eftir snjóflóðið á Súðavík að í jarðabók frá upphafi átjándu aldar var flóðahætta talinn galli á jörðinni vegna þess að kindum var þá hætt.

Þá var engin byggð á snjóflóðasvæðinu þar né öðrum snjófóðasvæðum vestra nema á Norðureyri við Súgandafjörð.

Hins vegar eiga menn ekki að loka eyrum og augum á tækniöld fyrir hugsanlegum afleiðingum gjörða mannsins, ef þær kynnu að reynast afdrifaríkar.

Ómar Ragnarsson, 12.1.2010 kl. 12:26

4 identicon

Sæll Ómar, ég er alveg sammála þér með að við megum undir engum kringumstæðum loka eyrum og augum fyrir afleiðingum gjörða okkar og við verðum að muna að láta náttúruna njóta vafans ef við höldum eða teljum líkur á að gjörðir okkar hafi neikvæð áhrif á náttúruna.

Sem dæmi um vandamál sem fylgir gríðarlegri aukningu á fólksfjölda er aukin tíðni flóða í ám og fljótum. Stóran hluta þessara aukningar má rekja til alls þess bundna yfirborðs, þ.e. malbiks og þaka, sem fleyta úrkomunni hratt og örugglega frá þeim stað sem hún fellur og út í vatnsföllin. Þetta ferli tók áður fyrr mun lengri tíma þannig að landið virkaði sem einhverskonar "buffer" á vatnsrennslið, núna steypist þetta niður og næstum samstundis út í vatnsföllin. Þetta veldur svo því að úrkomumagn sem fellur í dag getur valdið mun meiri skaða en sama úrkomumagn hefði valdið fyrir t.d. 50 eða 100 árum. Þarna höfum við ekki verið á verði og gleymt að hanna frárennsliskerfi okkar með tilliti til náttúrunnar.

Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband