Náttúrutalent.

Guðmundur Lárusson var einstakur íþróttamaður á sinni tíð. Hann var fæddur hlaupari eins og sést á því að þegar hann keppti fyrst á frjálsíþróttamóti í Reykjavík stakk hann harðsnúna spretthlaupara af og hljóp 100 metrana á 11,5 sekúndum á strigaskóm !  

Hann kom frá Eyrarbakka og sló næst í gegní  Vestmannaeyjum þar sem tímaverðirnir trúðu vart klukkum sínum, - 11,1 !

Frá Vestmannaeyjum komu snjallir menn eins og Torfi Bryngeirsson og síðar Árni Johnsen en Torfi lýsti síðar vel því hugarfari sem Eyjapeyjarnir höfðu þegar hann sagði á leiðinni til Brussel til að verða þar Evrópumeistari: "Strákurinn frá Búastöðum er sko enginn lopi!"

Guðmundur var í fremstu röð hér á landi í 100, 200, 400 og síðast 800 metra hlaupum.

Það var unun að horfa á hann hlaupa því að hann virtist ekkert hafa fyrir því heldur tifaði að því er virtist áreynslulaust allan hringinn í 400 metra hlaupinu.

Guðmundur var hársbreidd frá verðlaunasæti í 400 metra hlaupinu á EM í Brussel því að hann leit til hliðar þegar markið nálgaðist til að fylgjast með keppinaut sínum, Svíanum Wolfbrandt, og kastaði sér síðan áfram yfir marklínuna, en áttaði sig ekki á því að línurnar og hliðstólparnir sem hann hélt að væru endamarkið höfðu verið sett þarna fyrir aðra hlaupagrein fyrr um daginn og hafði gleymst að má línurnar út og taka hliðstólpana í burtu.

Við þetta missti Guðmundur Svíann fram úr því að 10 metrar voru í hið raunverulega endamark. 

Hann setti hið langlífa Íslandsmet, 48,0, í undanúrslitahlaupinu en hljóp á 48,1 í úrslitunum og hefði líklega náð 47,9 ef síðustu 20 metrar hlaupsins hefðu heppnast betur.

Guðmundur hélt lengi tryggð við æskuna í frjálsíþróttunum og var tímavörður á mótum um árabil.

Hann var einstaklega geðþekkur maður og ljúfur og að honum er sjónarsviptir.  


mbl.is Andlát: Guðmundur Lárusson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Egilsson

Fallega mælt hjá þér Ómar og tek undir það sem þú segir þarna. Þótt ég hafi ekki haft tækifæri á að kynnast honum, eins og þú gerðir, þá spjallaði ég nóg við hann til að sjá hvaða mann hann hafði að geyma.

Jónas Egilsson, 19.1.2010 kl. 15:05

2 identicon

Tek undir með þér Ómar. Þetta rifjar upp hvað manni þótti svakalega  gaman á Melavellinum, á þessu árum. Allar hlaupastjörnurnar!

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 15:44

3 identicon

Ómar!

Þakka þér fyrir góð orð um föður minn, Guðmund Lárusson. Sjálfur hafði hann aldrei nein orð um feril sinn eða afrek. En ég er viss um að honum hefði líkað vel umfjöllun þín. Beztu kveðjur og lifðu heill. Hannes Freyr

Hannes Freyr Guðmundsson (IP-tala skráð) 21.1.2010 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband