23.2.2010 | 17:36
Rökin fyrir 30 km hámarkshraðanum.
Rökin fyrir því að hafa 30 km hámarkshraða í vissum hverfum í þéttbýli eru nokkur en liggja þó ekki öll í augum uppi.
Þótt hægt sé að aka um þessi hverfi á meira en 60 kílómetra hraða ef engin umferð er gegnir öðru máli þegar margir eru á ferð. Á 50 kílómetra hraða hreyfist bíll 14 metra á sekúndu. Ekki er hægt að reikna með hraðari viðbragðstíma ökumanns en 0,7 sekúndum og þá á eftir að færa fótinn af bensíninu yfir á bremsurnar.
Og síðan bætist sjálf hemlunarvegalengdin við.
Ef bílarnir koma á móti hver öðrum styttist vegalengdin á milli þeirra um ca 30 metra áður en bílstjórarnir geta brugðist við.
Þá verður að bæta við tímanum sem tekur að færa fæturna og síðan hemlunarvegalengdinni sjálfri.
Þegar um er að ræða það mikil þrengsli að hverjir 15 eða 30 metrarnir skipta máli liggur nauðsyn lækkaðs umferðrhraða í augum uppi.
Höfuðrökin fyrir samræmdum hámarkshraða eru þó þau að allir vegfarendur, akandi, hljólandi og gangandi, geti miðað hegðun sína við það að hraðinn á öðrum vegfarendum fari ekki langt yfir leyfileg mörk.
Merkilegur hæstaréttardómur féll um þetta fyrir mörgum áratugum, þegar ökumaður bíls, sem ók langt yfir leyfilegum hraða eftir Hringbrau, var dæmdur til að taka á sig alla sök á hörðum árekstri, þótt hinn ökumaðurinn hefði farið af Njarðargötu inn á Hringbrautina, sem var aðalbraut og hafði forgang.
Rökstuðningurinn var sá að ekki væri hægt að ætlast til þess að ökumaður bílsins, sem ók í veg fyrir bílinn á Hringbrautinni, hefði getað áttað sig á því að bíll, sem var þá langt í burtu, yrði kominn að honum á svona miklum hraða langt yfir leyfilegum mörkum. Fallist var á það að sá sem ók út á Hringbrautina segði satt um það að hann hefði raunar aldrei séð hinn bílinn á þeim forsendum að varla væri hægt að ætlast til þess að menn sæu bíla á löngu færi sem færu svona hratt.
Sem sagt: Að ökumaður sem ekur langt yfir leyfilegum hraðamörkum sé í 100% "órétti" ef eitthvað ber út af.
Auðvitað geta aðstæður verið breytilegar en ég man vel hvað þetta þótti merkilegur dómur því að fram að því hafði alltaf verið dæmt í gagnstæða átt.
Ég bý við Háaleitisbraut þar sem er nú 30 km hámarkshraði. Sjá má suma ökumenn aka þar langt yfir leyfilegum hraða þótt búið sé að þrengja götuna og gera hana hlykkjótta.
Þessi gpötukafli er ekki lengri en svo að ökumaður á óleyfilegum hraða græðir í mesta lagi örfáar sekúndur á að bruna eftir götunni og skapa með því vandræði og stórhættu með því.
Svona götur eru margar fjölfarnar svo sem Hamrahlíðin og Barónsstígurinn sem lögreglan var við mælingar á, en um þær gildir að "gróðinn" við að aka þar yfir leyfilegum mörkum er svo lítill að það er ekki hægt að réttlæta hraðakstur á þessum götum.
Hraðakstur á Barónsstíg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það má bæta við þetta að við Barónsstíg liggja Austurbæjarskóli (Grunnskóli), Tækniskólinn(Framhaldsskóli), Leikskóli á horni Barónsstígs og Njálsgötu og ekki má gleyma að Sundhöll Reykjavíkur er einnig við þennan fjölfarna veg. Þarna er mikið af gangandi vegfarendum. Ég sé krakkana oft elta bolta inn á götu frá leiksvæðunum frá Austurbæjarskóla.. Ótrúlegt hvað fólk sér eftir sekúndunum.
Baldur Már (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 17:53
Góður pistill hjá þér Ómar. Ég er sífellt að verða sannfærðari um að hverfin okkar þurfi að verða samfelld 30 km svæði. Stofnbrautirnar Hringbraut, Miklabraut og Sæbraut (og örfáar aðrar) munu áfram leyfa meiri hraða, en innan hverfanna, þar sem börn eru á ferð, eiga ökumenn ekki að aka hraðar en á 30 km/klst.
Gísli Marteinn Baldursson (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 18:20
Sem íbúi þessa svæðis fagna ég þessu framtaki lögreglunar, næstu skref hljóta að vera að borgin íhugi að takmarka hraðann á þessum vegakafla (hraðahindranir eða aðrar framkvæmdir). Einnig eru aðriri vegir þarna í kring t.d. við leiksskólann Grænuborg, þar standa oft krakkar við gangbrautina og komast oft ekki yfir götuna vegna glannalegs aksturs. Oft hef ég þurft að labba út á götuna til að stoppa umferðina þannig að börn komist yfir götuna, yfirleitt er flautað á mig, mér sendur fingurinn eða hent að mér ókvæðisorðum og meðal annars hefur komið fyrir að mér hafi verið hótað barssmíðum.
Foreldraráð Grænuborgar er búið í 2 ár að reyna að fá Borgina til að setja upp hraðahindranir, hraðaumferðaskilti sem blikkar þegar menn keyra of hratt, en lítið hefur verið um efndir að hálfu Borgarinnar þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Svo má líka benda á að einn stærsti vinnustaður landsins er við þennan vegbút og sem betur fer aka ekki allir í vinnuna og þess vegna er mikið um gangandi vegfarendur á þessum slóðum.
Tek undir með Ómari og Gísla Martein að úrbóta er þörf.
Óli
Ólafur E. Sigurjónsson (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 19:19
Fullkomlega sammála. Ég skil aftur á móti ekki rökin fyrir því að sami hámarkshraði sé leyfður á "þjóðvegum landsins" og hefur verið í ansi mörg ár. Þrátt fyrir stórbættar vegasamgöngur og betri bíla. Mögulega hefur þessi hámarkshraði alltaf verið of hár. En ég er hlyntur því að t.d Reykjanesbrautin fái nokkra km á aðrar brautir.
Valgeir , 23.2.2010 kl. 22:14
Ætti að láta það sama gilda um Bústaðaveg og Háaleitisbraut?
Háaleitisbraut var jú upphaflega hönnuð sem mjög breið umferðaræð.
En þótt Bústaðavegur sé víða með svipað yfirbragð og Háaleitisbraut er munur á eðli þessara umferðaræða.
Háaleitisbraut liggur á ská milli tveggja umferðaræða, Suðurlandsbrautar og Miklubrautar.
Ef skoðað er heildarflæðið mikli vesturhluta og austurhluta borgarinnar skiptir hún því ekki máli, því að hún er hvað það snertir aðeins tilfærsla á umferð á milli Suðurlandsbrautar og Miklubrautar eða öfugt.
Bústaðavegur er hins vegar hluti af langri umferðaræð sem liggur allt frá Miklatorgi austur á Reykjanesbraut, ein af þremur þeim helstu.
Afköst Bústaðavegar sem umferðaræðar myndu minnka mikið ef þar yrði 30 km hámarkshrað og þar með afköst gatnakerfisins til að skila umferð milli vesturhluta og austurhluta borgarinnar.
Ómar Ragnarsson, 24.2.2010 kl. 00:44
Sæll Ómar
Á þessu svæði vantar umferðarmerkingar á hvern vegakafla eins og umferðarlögin kveða á um ef 30 km hámarkshraði á að gilda. Ég er til í að fara með þér yfir svæðið og sína þér vitleysuna sem þarna er í gangi.
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 23:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.