30.3.2010 | 03:56
Magnaðar breytingar á gígnum.
Ég var að koma úr ferð að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi og grauta í afrakstrinum.
Um leið og byrjaði að lægja klukkan fimm í gær var lagt upp frá Sólheimahjáleigu.
Myndirnar sem eiga að fylgja þessum pistli verða nokkurn veginn í réttri tímaröð.
Það tekur tíma að færa þær inn á síðuna og því koma þær hægt og bítandi.
Raunar er einhver óvenjuleg tregða núna og sendi ég því pistilinn út en set myndirnar inn síðar, - verð að fara að halla mér.
Ég fór í þetta sinn einn á einhverjum ódýrasta jöklajeppa landsins, litlum Geo Tracker (Suzuki Vitara, stuttur) blæjubíl, sem er svo léttur (1220 kíló) að á 35 tommu dekkjum hefur hann sama flot á snjónum eða jafnvel betra en stóru drekarnir, sem ég var í samfloti með.
Undi sér best fljótandi á snjóþekjunni utan við djúpu hjólförin eftir stóru jeppana.
Í leiðangrinum voru þrír góðir Moggamenn, Ragnar Axelsson, Pétur Blöndal og Árni Johnsen.
Á leiðinni var útsýnið stórkostlegt þegar komið var vestur af Goðabungu með gosstöðvarnar framundan í vestri og Goðaland, Þórsmörk, Almenninga, krýnd af Tindfjallajökli.
Ekki var útsýnið síðara yfir hinn hrikalega krika í vestanverðum Mýrdalsjökli með Emstrur í norðri.
Ekki brugðust jarðeldasýningar nýja hraunfossins, sem fellur niður í Hraunagil og gígsins, sem hefur breyst alveg ótrúlega mikið síðan ég sá hann síðast á föstudaginn var.
Þá sneri op hans í suður og hraunáin féll í austur, en nú er hann búinn að hlaða svo miklu hrauni upp að straumar renna nú í norður og norðvestur.
Væntanlega munu myndir RAX prýða Morgunblaðið í fyrramálið og næstu daga, en sjálfur náði ég góðum kvikmyndum og ljósmyndum af hraunfossinum og gjósandi gígnum í ljósaskiptunum.
Margt var um manninn á gosstöðvunum og nú er gósentíð hjá ferðaþjónustufólkinu.
Ferð með jeppa eða stórum fjallabíl á gosstöðvarnar getur kostað frá 15 þúsund krónum og allt upp í 40-50 þúsund krónur á mann fyrir útlendingana, sem eru tilbúnir að borga mikið fyrir upplifun, sem þeim býðst ekki nema einu sinni á ævinni.
Gosórói er aftur að vaxa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flottar myndir Ómar. Súkkan klikkar ekki. Stórlega vanmetnir bílar ad mínu mati.
Jóhann (IP-tala skráð) 30.3.2010 kl. 07:13
Gullfallegar myndir af þessum frægu umrótum. Nú bjargast sennilega afkoma landsins, þá menn geta farið að græða af alvöru, með útlendingana streymandi á staðinn í skoðunarferðir. - Glæsileiki Íslands er óumdeilanlegur og nú fara Amerikanarnir sennilega að öfundast, þar sem " Yellostone Park " getur ekki lengur skartað því sem við höfum í dag, þótt þeir rembist og jafnvel noti okkar fagra nafn, "Geysir", um þeirra goshver, þótt lítill sé, í samanburði við okkar eina og sanna Geysir.
Nú geta menn talað um annað, en bansett "Icesave" bullið og kannski ná sér á strik og með sameiningu, komist á flot, aftur.
-- Gos á okkar góða landi,
gerir mönnum stirð um vik.!
Ofar okkar ólgu standi,
eimyrja og "penge"-svik.
B.B.Sv.
Björn B.Sveinsson (IP-tala skráð) 30.3.2010 kl. 13:54
Hættur er Ómar á hækjum,
í hraunsins baðar sig lækjum,
en túristar koma á tækjum,
á tólunum Johnsen við sækjum.
Þorsteinn Briem, 30.3.2010 kl. 14:04
"Gamli Tryggur" (Old Faithful) er ekki lítill í samanburði við Geysi og miklu öflugri en Strokkur. 200 hverir gjósa í Yellowstone og svæðið "Mammoth Hot Spring" á enga hliðstæðu á Íslandi.
En þar með er það upp talið sem Yellowstone hefur fram yfir hinn eldvirka hluta Íslands.
Meira að segja Torfajökulssvæðið eitt er merkilegra og magnaðra en Yellowstone svo af ber að mínum dómi.
Bandaríkjamenn munu þó að lokum geta státað af því að eiga sitt Yellowstone ósnortið með aðstoð okkar Íslendinga sem stefnum ótrauðir að því að virkja allt sem virkjanlegt er.
Ómar Ragnarsson, 30.3.2010 kl. 22:12
frábærar myndir Ómar
ég og vinkona mín frá http://www.couchsurfing.org
langar að fara upp að hrauni en ég er á óbreyttum cherookee og það er vonlaust fyrir mig að fara þar upp
en ef þú ert að fara þarna næstu daga langarokkur að fjljóta með og munum deila með þér kosnaði
þú getrur náð sambandi við mig í síma 6617963 eða magoo@internet.is
maggi (IP-tala skráð) 31.3.2010 kl. 00:04
Flottar myndir takk.
Sigurður Haraldsson, 31.3.2010 kl. 01:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.