31.3.2010 | 10:16
Fólk greiðir atkvæði með hjólunum.
Sagt var á sinni tíð að Austur-Þjóðverjar greiddu atkvæði með fótunum með því að flýja yfir til Vestur-Þýskalands í stórum stíl.
Í vestrænum samfélögum greiðir fólk hins vegar atkvæði "með hjólunum", þ. e. fer þangað á almenningsfarartækjum, bílum, vélhjólum og reiðhjólum sem því finnst henta sér.
Meðan þetta er svona verður miðja höfuðborgarsvæðisins stærstu krossgötur landsins við Elliðaár, - miðja verslunar og þjónustu.
Þungamiðja byggðar á höfuborgarsvæðinu er innst í Fossvogsdal og þungamiðja atvinnustarfsemi er á austurleið, komin vel austur fyrir Kringlumýrarbraut.
Þannig flutti Tryggingamiðstöðin nýlega starfsemi sína frá Ingólfstorgi inn í Síðumúla.
Frá þessari miðju er styttra í Smárann en niður í gamla miðbæinn og vegalengdin til Hafnarfjarðar er ekkert tiltökumál.
Við hjónin, Helga og ég, eigum sjö börn og myndum helst óska þess að þau ættu heima sem næst okkur í Háaleitishverfinu. Eitt barnanna er fatlað og á heima í 105 Reykjavík.
Einu þeirra hugnast best að eiga heima í 101 Reykjavík.
En fimm þeirra eiga öll heima austan Elliðaáa og meirihluta afkomenda okkar býr nú í Mosfellsbæ.
Þetta er barnafólk og líkar betur að búa nálægt jaðri byggðar þar sem stutt er í ósnortin svæði en inni í borginni.
Frá Mosfellsbæ eru 10 kílómetrar að krossgötunum við Elliðaár, en frá Vesturbænum í Reykjavík eru 6-7 kílómetrar þangað.
Það er að sönnu mikilvægt að þétta byggð og stytta vegalengdir. Þó eru takmörk fyrir því hvað hægt er að komast langt í því efni því að fólkið kýs með hjólunum.
Ég tel að fljótlegasta og einfaldasta leiðin til að minnka eldsneytiskostnað og útblástur sé að búa til hvata til meiri sparnaðar með auknum almenningssamgöngum og raunhæfari skattlagningu á bíla en nú er. Þetta tvennt sparar mikið rými í gatnakerfinu.
Eins og nú er borga bílaeigendur ekkert fyrir malbikið og samgöngumannvirkin sem þeir nota. Þetta er á skjön við það sanngirnismál að þeir borgi sem nota.
Lengd bílanna skiptir miklu máli í því sambandi varðandi umferðartafir. Tölurnar eru nefnilega ótrúlega stórar.
Dæmi: Um Miklubrautina eina fara 100 þúsund bílar á dag. Ef meðallengd bílanna minnkaði úr ca 4,50 m niður í 4 metra, sem er lengd á meðalstórum smábíl, (Skoda Fabia, VW Polo, Opel Corsa) myndu 50 kílómetrar af malbiki verða auðir á hverjum degi sem bílarnir þekja nú.
Japanir hafa um áratuga skeið ívilnað þeim sem nota litla bíla með stærðargjaldi á stærri bíla og það hefur svínvirkað.
Þaðan er
Fólk greiðir atkvæði með fótunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar. Þú kemur upp að aðalatriðinu en ferð svo út í það sem skiptir minna máli. Það er umhverfisvænt hjá ykkur Helgu að eiga heima inni í "sjálfri" Reykjavík. Við hjónin völdum okkur íbúð í þrígang rétt við vinnustað. Hvort bíll okkar er 4 eða 6 m skiptir ekki höfuðmáli. Það sem skiptir máli er hin daglega vegalengd og eins ef nauðsynlegt er að skreppa landshluta á milli oft á ári. Þegar Steingrímur lenti í bílveltunni um árið áttum við sömu gerð af bíl. Það fer ekki milli mála hvor er umhverfisvænni. Hann að þeytast þetta horna milli á landinu oft á ári. Það var verið að kynna þá stefnu (man ekki hver var að því) að taka öll gjöld af bílum um eldsneytið til þess að minnka eldsneytiseyðslu. Virðist mjög skynsamlegt.
Skúli Víkingsson, 31.3.2010 kl. 11:01
Gott að minnast á þetta, Ómar. Það er nefnilega ekki mjög langt siðan fólk var hvatt til þess að kaupa stóra skúffu- jeppar með einhverjum skattafslætti. Og svo voru það stóru og "hagstæðu" bílalánin. Það er gott að spýta í lófana og gera betur þegar maður vaknar við vondan draum.
Úrsúla Jünemann, 31.3.2010 kl. 11:05
Fólk verslar í Fjarðarkaupum og hinum nýja Kosti Sullenbergers í Kópavogi meðal annars af pólitískum ástæðum en ekki vegna þess að yfirleitt eru hjól undir bílum eða fólkið búi endilega nálægt þessum verslunum. Rétt eins og sumir vildu frekar versla í kaupfélaginu en hjá kaupmanninum á horninu, óháð vöruverðinu í þessum verslunum.
Ferðakostnaður mun skipta hér tiltölulega litlu máli í framtíðinni, því nú kostar 70 krónur að aka rafbíl á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Rafbílar verða eftir nokkur ár algengir hérlendis, sem mun lækka töluvert kostnað við flutning vara frá Reykjavík út á landsbyggðina og þar með vöruverðið þar. Hins vegar er Bónus nú þegar með sama vöruverð á öllu landinu.
Og hér verða hugsanlega framleiddir rafbílar á næstunni í samvinnu við Indverja. Akureyri væri trúlega besti staðurinn fyrir slíka bílaverksmiðju. Þar og á Sauðárkróki verða að öllum líkindum framleiddar koltrefjar sem notaðar eru í bíla og flugvélar en þær eru léttari og sterkari en ál.
Indverjar og Kínverjar eru um 40% mannkyns og framleiða nú þegar töluvert af bílum.
Kostnaður við flutning vara og fólks mun því skipta mun minna máli hér eftir nokkur ár en nú. Rafbílar menga heldur ekki andrúmsloftið eins og hefðbundnir bensínbílar og skapa ekki hávaða, sem skiptir miklu máli í þéttbýli.
Sá tími sem fer í að komast í og úr vinnu skiptir fólk hins vegar miklu máli og hagkvæmast er að búa sem næst sínum skóla eða vinnustað, auk þess sem mikil umferð kostar mikið og dýrt viðhald gatna og vega.
Það hefur engan tilgang að hugsa eins og veröldin muni ekki breytast mikið, einnig á hverjum áratug fyrir sig. Hvernig litu farsímar og fartölvur út fyrir 15 árum? Ör þróun á rafhlöðunum í þeim hefur vegna síaukinnar eftirspurnar gert rafbíla hagkvæma og mun gera þá enn hagkvæmari.
Þorsteinn Briem, 31.3.2010 kl. 11:48
Það er einmitt vegna hinna nýju og mengunarminni samgöngukosta, Steini, sem ég tel að "hjólin" muni enn um sinn verða notuð þegar fólk vill velja sjálft lífshætti sína, hvað sem líður hugsjónum okkar sem viljum stuðla að hagkvæmari og umhverfisvænni kostum.
Ómar Ragnarsson, 31.3.2010 kl. 12:19
Flestir Seltirningar sækja vinnu, skóla og mestalla þjónustu til Reykjavíkur. Á Seltjarnarnesi er lítið pláss fyrir atvinnu- og þjónustustarfsemi og Bónus opnaði því nýja verslun í Örfirisey í Reykjavík í stað verslunar fyrirtækisins sem rifin var á Nesinu.
Best er að búa sem næst sínum skóla eða vinnustað og það tekur tíma fyrir fólk að fara með börn sín og sækja þau í leikskóla eða skóla. Það væri til að mynda óhagkvæmt og mjög tímafrekt að búa í Garðabæ, stunda vinnu í Reykjavík og hafa börnin í leikskóla í Kópavogi.
Þar af leiðandi þarf að vera mikil og fjölbreytt atvinnustarfsemi þar sem fólk býr. Hins vegar er ekki pláss fyrir slíka starfsemi á Seltjarnarnesi og mjög óskynsamlegt var að reisa sérstök íbúðarhverfi með lítilli atvinnustarfsemi, til dæmis í Breiðholtinu, þannig að fólk þurfi að sækja þaðan vinnu í til að mynda Kópavogi.
Þeir sem búa í Vesturbæ og Miðbæ Reykjavíkur búa annað hvort við sjóinn eða mjög nálægt honum. Seltjarnarnesið er meira en eingöngu sjálft bæjarfélagið Seltjarnarnes og það tekur einungis um 20 mínútur að ganga þvert yfir nesið frá Ægissíðu að Gömlu höfninni í Reykjavík.
Nemendur í Hagaskóla í Vesturbæ Reykjavíkur fá hæstu meðaleinkunnirnar á landinu. Ekki vegna þess að þeir séu svo gáfaðir frá fæðingu, heldur vegna þess að foreldrar þeirra eru með bestu menntunina og einnig hæstu tekjurnar. Dýrasta íbúðarhúsnæðið í Reykjavík er í Vesturbænum en það ódýrasta í Breiðholtinu. Samt búa Breiðhyltingar svo nálægt náttúrunni að sumir þeirra hafa breyst í álfa, eins og dæmin sanna.
Í póstnúmerum 101, 107 og 105 (Hlíðum og Túnum) í Reykjavík eru alls um 40 þúsund íbúar og í póstnúmerum 101 og 105 eru samtals um 1.300 fyrirtæki. Fólk sem býr í þessum þremur póstnúmerum, þriðjungur Reykvíkinga, getur stundað þar sína vinnu og háskólanám. Þar eru einnig þrír menntaskólar og fjöldinn allur af leikskólum og grunnskólum.
Og í engu öðru póstnúmeri á landinu eru skapaðar meiri gjaldeyristekjur en í 101 Reykjavík.
Gáfaðasta og ríkasta fólkið í Reykjavík býr hins vegar ekki við umferðarmestu gatnamótin, enda er þar lítið pláss fyrir íbúðarhúsnæði og fjölbreytta atvinnustarfsemi.
Þorsteinn Briem, 31.3.2010 kl. 14:02
Uppi á Ártúnshöfða er mikið rými sem er ekki skynsamlega nýtt að öllu leyti þegar þess er gætt hve nálægt það er krossgötunum miklu. Þar væri hægt að endurskipuleggja stærstan hlutann.
Það er líka ekki hægt að gefa sér þær forsendur nema að hluta til að fólk vinni alltaf sem næst heimili sínu þótt það vilji það. Oft er það atvinnutækifærið, sem hentar, í talsverðri fjarlægð.
Þess vegna er mikilvægt að byggð sé blönduð sem víðast og sú stefna á vaxandi fylgi að fagna.
Gísli Marteinn Baldursson hefur bent á að í Skeifunni býr aðeins einn maður en 1300 manns búa á jaftnstóru svæði sunnan við Miklubraut.
Vel má hugsa sér að byggja íbúðabyggð ofan á þjónustuhúsnæðið í Skeifunni. En slíkt húsnæði er hins vegar ekki við smekk eða hentuleika allra.
Ómar Ragnarsson, 31.3.2010 kl. 14:51
Þeir sem vinna í Miðbæ og Vesturbæ Reykjavíkur geta einnig búið þar en að sjálfsögðu geta þeir búið annars staðar ef þeir vilja.
Bæjarfélagið Seltjarnarnes er hins vegar einungis framlenging af Vesturbæ Reykjavíkur.
Skeifan er nú ekki beint aðlaðandi eins og hún er nú en sjálfsagt væri hægt að breyta henni ef fólk vildi búa þar. Og þar sem nú er einungis einn íbúi í Skeifunni er trúlega auðvelt að bæta meðaltalsgáfnafarið þar, án þess að ég hafi kannað það mál.
Nú þegar er mjög mikil atvinnustarfsemi í Reykjavík og mun meira vit væri í að langflestir sæktu atvinnu í sínu bæjarfélagi á höfuðborgarsvæðinu en að þeir sæki hana langan veg til Reykjavíkur. Þannig skapa þeir einnig tekjur í sínu bæjarfélagi.
Þar af leiðandi þarf hvert bæjarfélag fyrir sig að skapa fjölbreytta atvinnustarfsemi fyrir sína íbúa, einnig bæjarfélög á landsbyggðinni.
Í miðbæ Reykjavíkur og næsta nágrenni starfa og stunda nám trúlega um 40 þúsund manns, þar af um 20 þúsund í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, og um fimm þúsund á Landspítalanum. Það er því einfaldlega engin þörf á að byggja upp aðra eins starfsemi annars staðar í Reykjavík, enda eiga nágrannasveitarfélög Reykjavíkur að byggja upp eigin atvinnustarfsemi.
Og ekki er hægt að flytja gömlu höfnina í Reykjavík á einhvern annan stað.
Hins vegar þjóna ýmsar stofnanir í miðbæ Reykjavíkur öllu landinu en ekki eingöngu Reykjavík og því eðlilegt að fleiri en Reykvíkingar starfi þar.
Á svæðinu frá Gömlu höfninni að Nauthólsvík eru nú til að mynda Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Landspítalinn, Hótel Loftleiðir, Íslensk erfðagreining, Norræna húsið, Þjóðminjasafnið, Umferðarmiðstöðin, Ráðhúsið, Alþingi, Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn í Reykjavík, Stjórnarráðið, Seðlabankinn, Sjóminjasafnið í Reykjavík, Borgarbókasafnið, Kolaportið, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands og nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.
Þar að auki er í Kvosinni fjöldinn allur af veitingastöðum, skemmtistöðum, krám, verslunum og bönkum.
Útlendingur sem kaupir kaffibolla á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur greiðir til að mynda hluta af ræktun kaffisins erlendis, flutning þess til Íslands, rekstur kaffihússins og þar með laun þjónsins, ítem skatta þeirra beggja, malbikun gatna í Reykjavík og háskólamenntun Raufarhafnarbúa.
Til landsins kemur nú árlega rúmlega hálf milljón erlendra ferðamanna, um 1.500 manns á dag að meðaltali, og þeir fara langflestir í Kvosina vegna þess að hún er miðbærinn í Reykjavík en ekki til að mynda Kringlan.
Í Kvosinni, á Laugaveginum, sem er mesta verslunargata landsins, og Skólavörðustíg dvelja erlendir ferðamenn á hótelum, fara á veitingahús, krár, skemmtistaði, í bókabúðir, plötubúðir, tískuverslanir, Rammagerðina í Hafnarstræti og fleiri slíkar verslanir til að kaupa ullarvörur og minjagripi, skartgripi og alls kyns handverk.
Margar af þessum vörum eru hannaðar og framleiddar hérlendis, til að mynda fatnaður, bækur, diskar með tónlist og listmunir. Og í veitingahúsunum er selt íslenskt sjávarfang og landbúnaðarafurðir, sem eru þá í reynd orðnar útflutningsvara.
Allar þessar vörur og þjónusta er seld fyrir marga milljarða króna á hverju ári, sem skilar bæði borgarsjóði og ríkissjóði miklum skatttekjum.
Þar að auki fara erlendir ferðamenn í hvalaskoðunarferðir frá gömlu höfninni í Reykjavík. Þar er langmestum botnfiskafla landað hérlendis og jafnvel öllum heiminum, um 87 þúsund tonnum árið 2008, um tvisvar sinnum meira en í Grindavík og Vestmannaeyjum, fimm sinnum meira en á Akureyri og fjórum sinnum meira en í Hafnarfirði.
Við gömlu höfnina og á Grandagarði eru til dæmis fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækin Grandi og Fiskkaup, Lýsi og CCP sem selur útlendingum áskrift að Netleiknum EVE Online fyrir um 600 milljónir króna á mánuði sem myndi duga til að greiða öllum verkamönnum í öllum álverunum hérlendis laun og launatengd gjöld.
Menntaskólinn í Reykjavík mun því vinna Gettu betur-keppnina næstu áratugina.
Þannig er það nú í pottinn búið.
Þorsteinn Briem, 31.3.2010 kl. 16:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.