15.4.2010 | 14:17
Katla miklu meira áhyggjuefni.
Nokkrar sláandi staðreyndir gera að verkum að truflanirnar erlendis af völdum gossins í Eyjafjallajökli geta sýnst smámunir miðað við það sem nágranni hennar, Katla, getur gert af sér. Ég gerði viðmælendum mínum hjá erlendri sjónvarpsstöð grein fyrir þessu nú rétt áðan og þar með því, að aðaláhyggjuefnið og viðfangsefnið gæti orðið að fást við það, að fari allt á versta veg, geti Kötlugos stöðvað allt farþegaflug í Evrópu, ekki aðeins í nokkra daga, heldur jafnvel margar vikur.
Rökin fyrir því að taka þetta til alvarlegrar athugunar eru meðal annars þessi:
1. Katla hefur oftast gosið í kjölfar gosa í Eyjafjallajökl og hefur bilið á milli gosa verið allt frá nokkrum mánuðum upp í tvö ár. Það verður því að vera viðbúið að meiri líkur en minni séu á því að Katla gjósi í kjölfarið nú, ef þessi forsaga er höfð í huga, einkum vegna þess hve langt er síðan stórt gos varð í Kötlu.
2. Katla er mun öflugra, hættulegra og varasamara eldfjall en Eyjafjallajökull. Askjan er margfalt stærri, ísinn yfir eldstöðinni miklu þykkari og margfalt meiri að efnismagni, og því verður lítið eða ekkert af kvikunni, sem upp kemur, fljótandi hraun, heldur aska.
3. Dæmi um afleiðingar þessa má sjá í mismun stærðar flóðanna, sem koma frá þessum eldstöðvum. Flóðin úr Kötlu geta verið meira en hundrað sinnum stærri en flóðin úr Eyjafjallajökli.
4. Heklugosið 1947 bar ösku til Skandinavíu og þó einkum Skotlands en þetta hafði engin áhrif á farþegaflug í Evrópu þá, því að þá var allur flugflotinn knúinn bensínhreyflum, en um þá gildir að þeir eru ekki næmari fyrir ösku en venjulegir og sams konar hreyflar í bílum. Nú eru aðstæður gerbreyttar að þessu leyti.
Talsverð aska kom upp í Heklugosinu 1970 og olli búsifjum hér á landi, en hún barst í norðvetur frá fjallinu og eitraði mest jörð í Víðidal í Húnaþingi.
Aldrei áður jafn mikil röskun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
það er mikið til í þessu Ómar, enda ert þú fróður vel um hvortveggja, flug og eldfjöll, en hef nú grun um að kannski hafi verið um vankunnáttu að ræða og heppni ráðið örlítið þarna í gamla daga líka, vegna þess að askan getur valdið ýmsum spjöllum öðrum en vélarstoppi þotu og skrúfuþotufhreyfla, sem eru auðvitað "opnir" fyrir umhverfinu, meðan "bullu" hreyflar fá sitt loft síað inn.
Þessu til áréttingar set ég hér með slóða á frétt sem var í norska Aftenposten í dag, annarsvegar um þotu að ræða Boeing 747 frá BA árið 1982 við Indónesíu og hins vegar skrúfuþotu, Lockheed Orion frá Norska flughernum, árið 1970 við Jan Mayen, báðar vélarnar urðu fyrir umtalsverðum skaða í viðbót við vélarstoppið á 747 vélinni, Orion vélin fékk ekki vélarstopp, en umtalsverða aðra skaða, öll sandblásin,mattar rúður, eyðilögð skrúfublöð omfl.
http://www.aftenposten.no/nyheter/iriks/article3607381.ece#xtor=RSS-3
Er annars sammála þér hvað varðar Kötlu, held að okkar tæknisamfélag komi til með að eiga í alvarlegu "basli" með það gos þegar það kemur.
Kristján Hilmarsson, 15.4.2010 kl. 18:15
Alltaf fróðlegt að lesa pistlana þína, Ómar. Maður batnar alltaf örlítið við að líta hérna inn.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 15.4.2010 kl. 22:26
Hvernig er það Ómar, ertu ekki að taka myndir af gosi og flóðum? Hvar eru þær?
Þetta blessaða ríkissjónvarp er við það að klúðra öllu sem hægt er að klúðra í fréttamensku. Endalaus viðtöl með myndum af andliti þessa og hins og fréttamaður patandi höndum máli sínu til áherslu - en svo til engar myndir af náttúrunni sjálfri. Svo, þá sjaldan að eitthvað er sýnt, þá er ekkert sagt, ekkert skýrt og ekkert sett í samhengi. Maður sér krapavatn renna og veit ekki meir. Hvar eru yfirlitsmyndir, hvar eru varnargarðar, hvað gæti gerst, hvað er að gerast? Myndir,myndir og aftur myndir af atburðum en ekki af fólki að tala. Þú tókst oft frábærar myndir hér áður fyrr, ert sérfræðingur í að koma eldgosum inn í sjónvarp, hvað er í gangi?
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.4.2010 kl. 23:07
Þessar myndir, sem þú talar um, Bjarni Gunnlaugur, hafa verið sýndar sumar hverjar í fréttum Sjónvarpsins þótt fólk hafi kannski ekki vitað að ég hafi tekið þær eða verið flugmaður með þeim myndatökumönnum, sem ég hef flogið með fyrir Sjónvarpið.
Dæmi um það eru fyrstu myndirnar, sem náðust í návígi við gosið á Fimmvörðuhálsi, fyrstu myndirnar sem birtust af nýja hraunfossinum í Hvannárgili og loftmyndirnar, sem voru sýndar af nýja gosinu þar og voru sýndar mest allra mynda á evrópskum sjónvarpsstöðvum.
Einnig myndir í návígi af fossinum í Hrunagili þegar hann var hvað stærstur.
Síðan hef ég sjálfur, sem sjálfstæður kvikmyndagerðarmaður, tekið talsvert af kvikmyndum og ljósmyndum af gosinu sem ekki hafa sést í sjónvarpi.
Ég tók yfirlitsmyndir af Markarfljótsaurum í gær, sem nú eru komnar til fréttastofu Sjónvarpsins og eru tiltækar þar.
Ég er búinn að fara þrjár ferðir á landi á gosstöðvarnar og likast til hátt á annan tug flugferða í því skyni að ná myndum af þessum eldgosum.
Ómar Ragnarsson, 16.4.2010 kl. 00:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.