Skárri en umferðarljósin.

Þegar ekið er í gegnum nýtt hverfi suður af Ásvöllum í Hafnarfirði þar að fara, ef ég man rétt, um ein sjö hringtorg á tiltölulega stuttum kafla.

Þetta þykir manni kannski full mikið af hinu góða en á móti kemur að ekki væri skárra ef þarna væru umferðarljós á hverju horni. 

Því miður hefur ekki myndast svipuð umferðarmenning hér á landi og víða erlendis, til dæmis víða í Ameríku, þar sem umferð gengur snurðulaust á gatnamótum, þar sem eru engin umferðarljós, heldur gildir reglan "fyrstur kemur - fyrstur fær", þ. e. að ökumenn fara yfir gatnamótin í þeirri röð sem þeir koma að þeim. 

Ef slík regla yrði sett hér á landi myndi ugglaust fljótlega verða fjöldaárekstur á mörgum gatnamótum.

Umferðarljósin hafa þann stóra ókost að þau skynja ekki umferðarþunga eða það hvernig skynsamlegast er að hleypa bílum yfir gatnamót heldur stöðva og leyfa umferð í gríð og ergi, þótt jafnvel nær engin umferð sé.

Í hringtorgunum fer umferðin eftir aðstæðum og skynsamlegum ákvörðunum og hegðun bílstjóranna sjálfra og við Íslendingar virðumst ekki vera svo galnir hvað snerti akstur um hringtorg.

Einnig hægja hringtorgin á umferðarhraða þar sem hann væri annars kannski helst til mikill. 

Því virðast þau vera skásta lausnin, þótt stundum sýnist þau var nokkuð hvimleið. 


mbl.is Segja hringtorg draga úr slysahættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég skil nú ekki þá umferðarreglu; "fyrstur kemur - fyrstur fær", og ef ég, ökukennarinn, skil hann ekki þá er hætt við einhverjum misskilningi í umferðinni.

Reglan er auðvitað sú að það er varúð til hægri, þá reglu er ekki hægt að misskilja og ef allir færu eftir henni þá myndi slysum fækka.

Svo er það ekki alveg rétt hjá þér að að umferðarljós skynji ekki umferðarþunga. Sumstaðar er niðurgrafinn skynjari í götunni sem minnkar biðina.

Hringtorg hafa sannað sig og eru mjög góð lausn, en sjálfsagt er hægt að hafa þau óþarflega mörg.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2010 kl. 09:58

2 Smámynd: Einar Steinsson

Annar kostur við hringtorg er sá að óhöpp í hringtorgum verða yfirleitt með þeim hætti að alvarleg slys eru sjaldgæf. Bæði er hraðinn lítill og hornið milli ökutækjanna þannig að höggið verður ekki mikið.

Einar Steinsson, 16.4.2010 kl. 10:31

3 identicon

Jú, það er nefnilega hægt að misskilja hægri réttinn... enda gerist það reglulega.  Ekki það að skilgreiningin sé ekki skýr, þá ruglast fólk hreinlega á hægri og vinstri.  Svo einfalt er það.  Fyrstur kemur fyrstur fær, er erfitt að misskilja ... svona álíka einfalt og að standa í röð.

Freyr (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 11:02

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Að sjálfsögðu fer fyrsti bíll yfir ef nægilega lang er í næsta, en þetta getur aldrei orðið "regla".

Sá sem ruglast á hægri og vinstri, stenst ekki þær kröfur sem gerðar eru til ökumanna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2010 kl. 11:54

5 Smámynd: Sævar Helgason

Já Hafnfirðingar hafa verið framalega í að hagnýta gildi hringtorga.

Virkni þeirra er margvísleg. Þau eru mjög þægileg hraðahindrum og skara langt fram úr þessum upphækkuðu þverbitum sem víða eyðileggja alla umferð. Þau  vinna að mjög lipurri umferð. Og umfram allt hafa þau dregið stórlega úr slysum. Sjálfur kynntist ég þessum hringtorgum fyrst í Englandi fyrir um tveim áratugum og heillaðist af margvirkni þeirra. 

Nokkuð var um gerð hringtorga í Reykjavík um og upp úr 1950 en með tilkomu umferðaljósa hætti gerð þeirra og þróun.. en það er nú breytt- hringtorg sækja á.

Sævar Helgason, 16.4.2010 kl. 12:39

6 identicon

Helmingur ökumanna á Íslandi stenst ekki þessar kröfur.  Meira að segja stend ég ökukennara reglulega af því að druslast eftir vinstri akrein með nemendur við stýrið, haldandi niðri umferðarhraða og það helst á háannatíma.  Ég hitti reglulega fólk á bílprófsaldri sem segir þetta vera marklaust nám en það stemmir svo sannarlega við það þegar ég tók bílpróf á sínum tíma.  Prófdómarinn blaðraði um laxveiði allan tímann og lét mig koma við í búð og sjoppu á leiðinni (í eigin erindagjörðum).  Ég var ekki látinn bakka í stæði, taka af stað í brekku, prófaður á hægri rétti og hvað þá á þekkingu á umferðarmerkjum.  Var meira að segja næstum búinn að taka hurðina úr bílnum þegar ég  ætlaði að skipta um akrein á leið í verslunina.  Skipti minnstu því prófdómarinn var að fara í gegnum kvittanir þegar þetta gerðist.

Það vær því einfaldara að segja að það myndi stórfækka umferðarslysum ef menn uppfyltu yfir höfuð þær kröfur sem "gerðar eru til ökumanna".

Freyr (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 13:02

7 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Hringtorg og umferðarljós. Ég veit það eitt að umferðarljósamenningin í Reykjavík er hræðileg og hentug og óvönduð. Það er t.d. skrýtið að keyra austur Hringbraut og inn á Bústaðaveg. Þá keryrir aðalumferðarþunginn ca 300 m af ljósunum við vesurenda Hlíðarenda til að stoppa á gatnamótunum við Slökkviliðsstöðina. Svona er þetta víðar um borgina. Oft eru ekki nemar sem gera það að verkum að maður bíður e.t.v. heillengi á rauðu ljósi og eftir engri umferð. Þetta veldur aukinni mengun og útgjöldum hjá bifreiðaeigendum sem auðveldlega mætti komast hjá ef verkfræðingar hjá umferðarljósadeild Reykjavíkurborgar væru metnaðarfullir.

Guðmundur St Ragnarsson, 16.4.2010 kl. 13:33

8 identicon

Ég hef keyrt talsvert í Ameríku og þar sem eru gatnamót með stopp skiltum á öllum gatnamótunum  er reglan, fyrstur kemur fyrstur fer og ég verð að segja það að þar á bæ gengur þetta alveg eins og vel smurt tannhjól þar sem allir virðast virða regluna. En áður en maður kemur að þeim er aðvörun sem á  stendur 4Way stop.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 13:41

9 identicon

Og ... í framhaldi af því sem Rafn segir hér fyrir ofan ... þá er það almenna reglan við rauð umferðarljós, a.m.k. í New York, að ökumaður má beygja til hægri á þeim NEMA það sé hreint og beint bannað. Þá er skilti með "No right turn on red".

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 14:51

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvernig haldið þið að verði dæmt ef það verður slys á svona gatnamótum?

Ég er hræddur um að það yrði hlegið að ykkur ef þið haldið því fram að þið hafið átt réttinn af því þið komuð fyrstir að gatnamótunum.

Hins vegar get ég alveg tekið undir það að umferðarmenningin í USA er að mörgu leyti til fyrirmyndar, ólíkt því sem hér tíðkast. En ef skoðaðar eru skýrslur um slysatíðni, þá er tíðni dauðaslysa og annarra umferðarslysa mun hærri í Bandaríkjunum en á Íslandi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2010 kl. 16:35

11 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Umferðarmenningin í USA leiðir af sér um það bil tvisvar sinnum fleiri banaslys en umferðarmenningin á Íslandi. Svo nei takk við USA.

Hringtorg eru í eðli sínu nákvæmlega það sem Ómar kallar eftir: „gatnamót þar sem fyrstur kemur fyrstur fær“ Nema hvað þau eru öruggari.

Sem dæmi má nefna hringtorgið sem er á Nóatúni neðan við Laugarveginn. Alvarleg slys hurfu með tilkomu þess á þeim gatnamótum.

Hægri beygja á rauðu ljósi hefur gengið í gegnum rækilega skoðun, sameiginlega á Norðurlöndunum og niðurstaðan er ótvíræð, NEI takk! Banaslysum fjölgar ef slíkt verður tekið upp. Það sýna tölur frá nokkrum borgum í Kanada og USA.

Birgir Þór Bragason, 16.4.2010 kl. 22:36

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nei Birgir, þeir sem eru í hringtorginu eiga forgang. Þú keyrir ekki beint inn í hringtorg þó þú sért á undan einhverjum sem er að keyra þar, (nema það sé óhætt þegar tekið er tillit til fjarlægðar og hraða þess sem er í hringtorginu).

Þar er ekkert "fyrstur kemur - fyrstur fær", frekar en annars staðar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2010 kl. 23:33

13 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Gunnar ef ég kem að hringtorgi sem er tómt (kem fyrstur) þá ek ég beint inn. Ég kom fyrstur og sá næsti sem kemur verður að gefa mér forgang. Fyrstur kemur fyrstur fær! :) Þú getur neitað og neitað :) þetta er samt svona :)

Birgir Þór Bragason, 17.4.2010 kl. 08:24

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það þarf varla að ræða þetta ef hringtorgið er tómt

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.4.2010 kl. 10:30

15 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Gunnar þú skrifaðir: „ Nei Birgir, þeir sem eru í hringtorginu eiga forgang.“

Kom ekki einhver þeirra fyrstur? Þegar hringtorg eru mjög lítil eins og það torg sem ég minntist á hér áður þá virkar þetta nákvæmlega eins og Ómar talar um „fyrstur kemur - fyrstur fær“

:)

Birgir Þór Bragason, 17.4.2010 kl. 11:33

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, hringtorgin eiga forgang. Það er hættulegt að flækja einfaldar umferðarreglur

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.4.2010 kl. 12:02

17 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Staddur á Ítalíu fyrir mörgum árum horfði ég niður á sjö akreina hringtorg með sex útgöngum, þurfti sjálfur að komast yfir á útgang nr. 6 frá mér séð. Þetta var á annatíma og bíll við bíl á torginu. Ég spurði Ítala sem hjá mér var hvernig í veröldinni ég ætti að komast þetta: „No problema,“ svaraði hann. „If there-a is an empty-a space-a you fill it-a.“

Þetta reyndist rétt. Ég gerði eins og hinir, þumlungaði mig tafarlaust í bilið ef empty space opnaðist fyrir framan mig og allt gekk þetta smurt og huggulega. Ekkert nugg, ekkert skrap, ekkert flaut og engin langatöng upp í loftið, bara þegjandi samkomulag og hliðrun. No problema.

En mér hugnast lítt hringtorg eins og á Vesturlandsveginum sem eru með vinstri sveig inn að torginu áður en hægt er að beygja til vinstri. 

Sigurður Hreiðar, 17.4.2010 kl. 15:23

18 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Já Sigurður hún er óskiljanleg sú ákvörðun að hafa hringtorgin á Vesturlandsveginu minni en Vesturlandsvegurinn sjálfan.

Birgir Þór Bragason, 17.4.2010 kl. 18:03

19 Smámynd: Tryggvi Helgason

Ég verð að segja fyrir mig að ég er á móti hringtorgunum (sem ég kalla hringormana). Mér sýnist að það sé rándýrt að gera þessi torg, ef til vill dýrara en umferðarljós. Ódýrast er auðvirað að setja "Stans"-merki á allar akstursáttir.

Við slík gatnamót stöðva allir alveg við línuna. Sá fyrsti að stöðva fer fyrstur af stað. Ef maður stöðvar fyrst á eftir bíl sem bíður við gatnamótin þá verður maður að fara fyrst að línunni og stöðva þar alveg svo að bíllinn hreyfist ekki. Þá fylgist maður með hinum bílunum til þess að sjá hvar maður er í röðinni. Þetta virðist ganga létt og eðlilega fyrir sig.

Það má "ekki" beygja til hægri á rauðu ljósi nema eftir vissum reglum. Það má ekki beygja ef gangandi maður er að fara yfir gatnamótin. Þá verður að "stöðva alveg" við fremstu línuna og sjá að það sé "engin" umferð að nálgast, Þá má taka hægri beygjuna.

Umferðarljósum er stýrt með tvennum hætti, annarsvegar "tímastýrð" og hinsvegar "umferðarstýrð" með þar til gerðum nemum sem er komið fyrir á vissum stöðum undir malbikinu. Þá er oft stillt þannig að græna ljósið er alltaf á aðalgötunni og það skiftir ekki nem bíll komi eftir hliðargötunni. Þá skiftir um stund en síðan logar græna ljósið aftur á aðalgötunni.

Það gildir svipað þar sem grænni ör er umferðarstýrt. Þá logar örin meðan bílar streyma framhjá nemanum, en nokkrum sekúndum eftir síðasta bíl þá slokknar á grænu örinni.

Tryggvi Helgason, 18.4.2010 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband