30.4.2010 | 09:35
Einstætt og verðmætt gos.
Ég veit ekki hvort við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því í öllu svartagallsrausinu yfir gosinu í Eyjafjallajökli hve merkilegt þetta gos er og hve mikils virði það getur orðið fyrir landið í framtíðinni.
Ekkert íslenskt eldgos hefur orðið jafn mikið fréttaefni eða haft meiri áhrif erlendis, allt síðan í Móðuharðindunum 1783.
Eldgosið verður undir jökli, en slíkt samspil elds og íss á sér enga hliðstæðu í heiminum.
Frá gosinu kemur jökulhlaup sem leiðir hugann að hundrað sinnum stærri hamfarahlaupum, sem verða á Íslandi í stærstu eldgosunum undir jöklum.
Hraunið rennur nú í íshellid undir Gígjökli og komist það alla leið út undir bert loft undir jökulsporðinn hefur slíkt ekki gerst áður í veröldinni.
Á undan þessu gos varð "túristagos" í utanverðri eldstöðinni sem skóp mestu hraunfossa, sem vitað er um að hafi runnið og tekist hefur að ná myndum af.
Að öllu samanlögðu á þetta eldgos og eldgosalandið Ísland engan keppinaut í heiminum sem ferðamannaland er bjóði upp á sköpun og eyðingu almættisins sem hvergi annars staðar er hægt að upplifa, "The Greatest Show on Earth".
Gosið þetta, þótt lítið sé, hefur komið Íslandi og eðli landsins á betur á kortið erlendis en nokkur annar viðburður, sem hér hefur gerst.
Hvernig væri nú að hætta að gráta yfir tímabundnum erfiðleikum og snúa sér að því að nýta sér þá nýju og einstæðu möguleika sem þetta gos hefur fært okkur upp í hendurnar?
50 tonn af hrauni á sekúndu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er sammála þér Ómar.
Þó að eitthvað dregst tímabundið úr ferðamennsku vegna gossins,á hún eftir að aukast meira,en úr dregst.
Eldgos geta verið hagkvæm á margan hátt.T.D.eldgosið í Heimaey gerði höfnina þar miklu betri,en hún var.
Ingvi Rúnar Einarsson, 30.4.2010 kl. 10:11
Sammála þessu, ótrúleg skammsýni að horfa eingöngu á þá erfiðleika sem nú steðja að í stað þess að horfa á heildarmyndina. Sem er auðvitað sú að þetta gos hefur verið meiri kynning á landinu til framtíðar heldur en nokkur auglýsingaherferð.
Nú er bara að notfæra sér kynninguna. Hversu margir hefðu ekki áhuga á að koma til landsins og sjá eldgos? Þótt ekki væri nema fjallið með fræga nafnið úr fjarlægð.
Ingimar Eydal, 30.4.2010 kl. 11:34
Tek undir allt það sem hér hefir verið ritað að framan.
Þessi bæði gos eiga eftir að verða ferðaþjónustu á Íslandi til mikils framdráttar.
Á dögunum hafði eg samband við ferðaskrifstofuna sem eg hef samið við að fara sem leiðsögumaður nokkurra hópa. Mér var sagt að fyrstu vikurnar rigndi inn fyrirspurnum og nokkrir ákváðu að afbóka ferð. Síðan hefur þeim stöðugt fjölgað sem hafa spurst fyrir um möguleika að komast í ferð. Þannig eru það fleiri sem bætast við en þeir sem hætta við. Mun nú svo komið að fullbókað er í allar ferðir.
Hvernig verður þetta á næsta ári? Sennilega mun gistimöguleiki verða flöskuhálsinn sem oft áður. Við verðum því að fjölga og stækka gististaði. Ætli þetta sé nú ekki ólíkt skemmtilegra að starfa við ferðaþjónustu en í álbræðslum þar sem mengun, sterk segulsvið, hiti og hávaði einkenna starfsumhverfið?
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 30.4.2010 kl. 12:12
Eldgosið í Eyjafjallajökli er besta auglýsing sem íslensk ferðaþjónusta gat fengið.
Ferðaþjónustan hér vonast hins vegar til að þar hætti að gjósa sem fyrst, enda þótt hægt yrði að sýna erlendum ferðamönnum eldgosið og þeir komi hingað aðallega til að sjá og njóta eldvirkra svæða, sem þekja þriðjung alls landsins.
Eldgosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli, sem komu úr sömu gosrásinni undir jöklinum, hafa nú staðið í samtals 40 daga, 18 dögum lengur en stóra Kötlugosið árið 1918.
Síðasta eldgosið í Eyjafjallajökli hófst í desember 1821 og stóð með hléum fram á árið 1823.
Áætlað er að eldgosið í Eyjafjallajökli hafi daglega losað um 15 þúsund tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið en flugvélafloti Evrópu losi rúmlega 344 þúsund tonn á dag.
Hins vegar flýgur innan við 1% af flotanum með farþega sem hér dvelja og því losa flugvélar sem flytja þá til og frá landinu væntanlega um 3 þúsund tonn af koltvísýringi á dag.
Þjóðgarður norðan Vatnajökuls - Áhrif á ferðaþjónustu, sjá bls. 5
Slæmt fyrir flugfélögin en jákvætt fyrir Jörðina
Gjóska er mjög góð fyrir jarðveginn, að sögn íslenskra eldfjallafræðinga, en Katla og Hekla dreifa gjósku með nokkuð reglulegu millibili yfir Suðurlandsundirlendið, eitt frjósamasta landbúnaðarhérað landsins.
Og evrópska eldfjallalandið Ítalía, eitt besta landbúnaðarland heims, er byggt á gjósku úr Vesúvíusi og Etnu, líkt og sjálft rómverska heimsveldið á sínum tíma.
Þorsteinn Briem, 30.4.2010 kl. 12:28
Sammála.
Vissulega er samdráttur rétt á meðan ekki er hægt að fljúga, en þessi samdráttur er ekki bara hér, heldur um alla Evrópu.
Nú vilja ferðaþjónustuaðilar að mokað sé í greinina úr opinberum sjóðum sem aldrei fyrr í formi auglýsinga og markaðsátaks. Ég set spurningamerki við slíkan fjáraustur.
Ég held að landið okkar (eldgosin) og fréttir af því sjái að mestu sjálft um landkynninguna og auglýsingarnar. Ferðamenn kunna flestir að gúggla hvað sé í boði hérna og þar eiga ferðaþjónustuaðilarnir að bera sjálfir ábyrgð á kynningarmálum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.4.2010 kl. 13:14
Guðjón Sigþór, athyglisverð samlíking hjá þér um ferðaþjónustuna og vinnu í álveri.
Allir í ferðaþjónustuna! Engin í slorvinnu, álbræðslu eða aðra óþrifalega vinnu.
Við gætum kannski haldið þessum fjórðungi af um 1500 störfum sem skapast vegna álversins á Reyðarfirði, sem eru þrifaleg og þægileg innivinna fyrir hina háskólamenntuðu. En burt með óþrifnaðinn og hávaðann!
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.4.2010 kl. 13:23
Gott dæmi um fyrirmyndar markaðssetningu vegna eldgosanna á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli
Þorsteinn Briem, 30.4.2010 kl. 15:09
Sumar tölur, sem hægt er að nefna varðandi gosið, gefa aðra mynd en stórfyrirsagnirnar að undanförnu. Gróft reiknað hefur askan fallið á um 1% af Íslandi svo að um hafi munað, en það samsvarar því að aska hefði fallið á 0,001% Bandaríkjanna, eða einn tíu þúsundusta hluta BN.
Ómar Ragnarsson, 30.4.2010 kl. 20:28
Frábært innlegg hjá þér Ómar. Verst hve alltof margir eru skamsýnir og og virðast ófærir um að hugsa til lengri tíma. Við eigum að gera út á þetta gos og hella okkur út í allsherjar markaðssetningu hvað það varðar.
Stefán Arngrímsson (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 21:52
Peningahyggja kom þjóðinni í vandræði. Enn virðist hún þó vera það eina sem máli skiptir, jafnvel hvað eldgos varðar. Ef hægt er að græða á þeim eru þau góð en ef ekki eru þau vond!
Sigurður Þór Guðjónsson, 30.4.2010 kl. 23:00
Auglýsingin sem Ísland heur fengið út af gosinu er milljarða virði. Fyrsta frétt í öllu ljósvakamiðlum í vestur og norður Evrópu í rúmlega viku. Síðasta frétt í flestum þeirra líka með stórbrotnu myndefni. Forsíðufrétt í flestum dagblöðum í heiminum dag eftir dag með stórbrotnum myndum. Vissulega dregur eitthvað tímabundið úr komum ferðamanna og bókunum, en "fallega" gosið á Fimmvörðuhálsi dró aftur að sér mikinn hóp ferðamanna. Ég spái því að við eigum eftir að drukkna í ferðamönnum um leið og menn læra að fljúga í kringum öskuna og ferðamenn átta sig á því hvað gosið er bundið við lítið landsvæði.
Mér sýnist á myndum úr vefmyndavélum, sem stórfenglegar gjár séu að opnast í íshellu jökulsins, magnaðir hellar og fleira sem við sem uppi erum höfum aldrei orðið vitni að. Ef okkur tekst ekki að gera mat úr þessu, þá er það okkur að kenna, ekki Eyjafjallajökli.
Marinó G. Njálsson, 30.4.2010 kl. 23:33
Ég get tekið undir með þér, Sigurður Þór Guðjónsson um skaðsemi skefjalausrar og alltumfaðmandi peningahyggju nútímans sem víkur burt gildum, sem eru meira virði.
Íslensku handritin eru gott dæmi um verðmæti sem stjórnlaus peningahyggja mæti lítils.
Því miður er það svo að engin leið virðist til að berjast fyrir varðveislu hins dýrmætasta, sem Ísland á, einstæðrar náttúru, heldur en að vera sífellt að berjast á þeim orrustuvelli sem peningaöflin velja.
Takmarkalaus græðgi metur unaðsstundirnar einskis þótt megavattstundirnar séu metnar þeim mun dýrmætari.
En úr því að svo er að það virðist borin von að komast út af þessum peningavígvelli, er bara allt í lagi að taka líka þann slag undir hinu bandaríska herópi: "Let´s beat them at their own game!"
Ómar Ragnarsson, 30.4.2010 kl. 23:57
Íslenskur sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta lifa á náttúrunni.
Íslensk orka fæst einnig úr náttúrunni hér, heitu og köldu vatni og jarðgufu, og aðrir njóta hennar með okkur, rétt eins og við njótum þess sem framleitt er erlendis með erlendri orku.
Íslensk fiskimið eru eitt af stærstu matarforðabúrum heimsins og við látum að sjálfsögðu aðra njóta þeirra með okkur með því að selja þeim fisk, sem við veiðum með fiskiskipum sem flest eru smíðuð erlendis.
Íslenskir og erlendir ferðamenn njóta hér náttúrunnar og snæða íslenskt sjávarfang og landbúnaðarafurðir sem þeir kaupa í verslunum og veitingahúsum.
Og enginn nýtur náttúrunnar án matar, jafnvel þótt hann fari fótgangandi langar vegalengdir í óbyggðum.
Við lifum því ekkert síður á náttúrunni en Ingólfur Arnarson eða Bjartur í Sumarhúsum og það á við um allar atvinnugreinar.
Og peningar voru fundnir upp löngu fyrir daga Ingólfs Arnarsonar.
Allt er komið úr náttúrunni, allt fer þangað aftur og það er sjálfsagt og eðlilegt að erlendir ferðamenn njóti hér náttúrunnar með okkur, rétt eins og við Íslendingar njótum erlendrar náttúru í stórum stíl um allan heim.
Þorsteinn Briem, 1.5.2010 kl. 01:14
Tek undir með Ómari og Monty Python;
"Always look at the bright side of life"
Neikvæðnin sem fylgir fréttasýkinni er orðin ansi lúin og tími til kominn að horfa raunsætt á málin. Draga andann djúpt, telja upp að tíu, virða fyrir sér hlutina og hvað gosið og landið er fallegt.
Ólafur Þórðarson, 1.5.2010 kl. 02:09
Ágætu bloggarar. Ég ætla láta ykkur alveg um að mæra ferðaþjónustuna í samband við eldgos eða hvað sem er. Hinsvegar langar mig að segja ykkur smá sögu. Þegar verið var að leita að fólkinu sem úti varð þegar Fimmvörðuhálsgosið var þá fóru menn sem heima eiga austan við Mýrdalsjökul í þá leit. Þeir komust á bíl næstum inn að Öldufelli þar skildu þeir bílinn eftir og fóru á snjósleðum norðan við jökul vestur að þeim stað þar sem maðurinn fannst látinn.Þegar tveir af þessum mönnum sem ég þekki persónulega mjög vel komu að bílnum sínum aftur þá var afturrúða í bílnum brotin og allar rúður í annari hlið bílsins mattar og málningin á allri þeirri hlið ónýt.
Nú ætla ég ekkert að tala um skaða sem getur orðir á björgunartækjum hann má alltaf bæta. En hafið þið velt fyrir ykkur hver líðan björgunarsveitarmanna er í svona veðri. Eigum við ekki öll að óska þess að þetta ágæta fólk sem fer út í næstum hvaða veður sem er með það eitt í huga að bjarga mannslífum,komi heilt heim úr hverri ferð. Mér fynnst að þessum þætti ferðaþjónustunnar þurfi menn að muna eftir þegar þeir tala um ágæti hennar.
Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 10:30
Ekki vil ég nú mæra ferðaþjónustuna meira en aðrar atvinnugreinar. Ég hef starfað hér til dæmis við landbúnað, sjávarútveg og iðnað en aldrei ferðaþjónustu.
Enginn má ofnýta náttúruna og það á við um allar atvinnugreinar.
Allir geta farið sér að voða og komist í lífshættu í öllum atvinnugreinum. Menn hafa farist hér við fiskveiðar og smalamennsku, slasast á dráttarvélum, í fiskvinnslu og byggingariðnaði og komist í lífshættu í orkuvinnslu, nú síðast í Hellisheiðarvirkjun.
Það er sjálfboðastarf að vera í björgunarsveit og innifalið í því starfi er að vera hvenær sem er tilbúinn að leggja sig í hættu við að bjarga öðrum á sjó og landi.
Fjöldinn allur af sjálfboðaliðum hefur starfað í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum hérlendis
Þegar ég var barn gekk ég á hverjum vetri marga kílómetra í Skíðadalnum, norðlenskum afdal, einn í stórhríð og 20 stiga frosti með fatnað og skólabækur yfir ísilagða á til að komast í heimavistarskólann á Húsabakka í Svarfaðardal.
Og þetta þótti engum merkilegt. Nú er skólum hins vegar lokað í Vestmannaeyjum komist börnin ekki alla leið á bílum í skólann, nokkrar húslengdir.
Þorsteinn Briem, 1.5.2010 kl. 11:50
Kort af friðlýstum svæðum á Íslandi
Þorsteinn Briem, 1.5.2010 kl. 20:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.