Hraunið og jökullinn, - einstæð orrusta.

Ég er nú staddur austur í sveitum og get ekki komið ljósmyndum inn á bloggið mitt.

Lenti við Hótel Rangá, sem er eina hótelið, sem ég veit um á Íslandi þar sem hægt er að aka flugvél nánast í hlað og þar tókst Friðriki Pálssyni og hans fólki að senda myndir til Morgunblaðsins af Gígjökli og hraunstraumnum, sem hefur átt í skæðri orrustu við hann að undanförnu. 

Þessum myndum náði ég þegar einna léttast var af skýjum á jöklinum í dag, en í kvöld hreinsaði hann allt af sér og var ógnarlegur að sjá í kvöldsólinni og mistrinu spúandi þessum öskustrók upp í heiðloftið.

Myndirnar sýna að engin leið er fyrir hraun að renna um íshelli niður í gegnum skriðjökul vegna þess hve bræðslumark hrauns er hátt og tiltölulega litla kælingu þarf til að að storkni og hætti að renna.

Þetta kom vel í ljós í gosinu í Heimaey þar sem Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor sýndi fram á að það sem sýndust bara vera vatnssprænur andspænis hraunflykkinu, sem valt fram, kældi massann nógu mikið til að hægja á honum og stöðva svo að hann færi ekki út í höfnina. 

Neðsti hluti Gígjökuls er alveg óhaggaður og jafnvel þótt hraun hefði haldið áfram að renna hefði það tekið meira en nokkra daga fyrir hraunið að komast niður á aurkeiluna þar sem áður var Jökulsárlónið.

Og það hefði ekki tekist fyrr en að hraunið hefði alveg brætt jökulinn ofan af sér eins og hann hefur gert langleiðina þarna niður eftir.

Átök íss og elds gerast vart sérstæðari og flottari en þarna.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Þarna getur nú skipt máli hversu mikil framleiðslan er af hrauni og hversu seigfljótandi það er, nafni. Hraunin á Fimmvörðuhálsi, Eyjafjallajökli og úr Eldfelli eiga það sameiginlegt að vera seigfljótandi apalhraun. Værum við hins vegar með þunnfljótandi hraun líkt og það sem rann i Skaftáreldum, þá gætu þau myndar skorpu á móti kælifleti við jökulinn og svo rynni hraunið bara brosandi undir skorpunni og gæti hæglega brætt sér leið undir jökulinn. Eða það ímynda ég mér alla vega....

Ómar Bjarki Smárason, 9.5.2010 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband