15.6.2010 | 12:44
Klukkustundin sem skipti sköpum.
Ég hef hitt fólk í morgun sem hefur innt mig eftir nánari skýringum á myndinni sem er á innsíðu Morgunblaðsins af nýja vatninu, sem er í gíg Tindfjallajökuls. Ég skal gera það hér og myndin kemur seinna því ég get ekki sett hana á bloggsíðuna fyrr en ég kemur suður seinna í dag. -
Nú er ég kominn suður og set þrjár myndir inn, allar teknar úr suðri
Á þeim sést vatnið í forgrunni og öskuþröskuldur, sem talað er um blasir við á strönd vatnsins hinum megin með rjúkandi gufur.
Á efstu myndinn sést vel sprunginn jökullinn, þakinn ösku, okkar megin við vatnið.
Á næstefstu mynd er horft til norðaustur og eru Þórsmörk og Mýrdalsjökull í baksýn.
Á neðstu myndinni, þeirri sem kom í Morgunblaðinu í morgun má sjá handan öskuþröskuldsins, hinum megin vatnsins, móta fyrir skarði í svartan vegg, sem sýnist vera hamraveggur en er í raun Gígjökull, sem hraun úr gígnum rauf skarð í á leið sinni niður til norðurs.
Þetta skarð og farveg sinn gat hraunið ekki myndað nema bræða allan jökulinn ofan af sér og fyrir vikið er liggur stórkostleg ísgjá niður eftir öllum jöklinum.
Ég birti myndir af henni hér á síðunni á sínum tíma en nú hefur hún breyst talsvert og askan setur alveg nýjan svip á allt.
Margir halda að svona myndir náist fyrir tilviljun eða hundaheppni en oftast er það ekki svo.
Eyjafjallajökull er 1666 metra hár og til að sjá allan gígin varð að vera bjart yfir tindinum og gígskálin ekki full af gufum eins og verið hefur fram til þessa.
Kvöldið og nóttina fyrir myndatökuna fylgdist ég með veðurspám, veðurathugunum og myndum í vefmyndavélum mila.is.
Af þeim mátti ráða að hugsast gat, að þegar sólar nyti um hádegi gæti rofað til á tindinum og að loftið þar yrði tiltölulega þurrt og hlýtt í sæmilega miklum vindi þegar byrjaði að hvessa af suðri á undan vaxandi suðaustanvindi með vætu.
Þarna var möguleiki á að einhverja stund, hálftíma til tvo tíma, yrðu þessi skilyrði.
Ég fór því austur snemma um morguninn og beið átekta.
Um klukkan hálf ellefu hreinsaðist skýjahulan skyndileg af jöklinum þegar sunnanvindurinn fór að blása.
Af því að ég var staddur aðeins um 12-15 mínútna flugs fjarlægð, gat ég farið í loftið þegar í stað og nýtt mér færið. Ef ég hefði fylgst með vefmyndavél í Reykjavík hefði þetta ekki verið hægt, - það sem skipti sköpum var að ég var þannig staðsettur að jökullinn blasti við mér í návígi.
Hálftíma eftir að ég lenti voru tindurinn og fjallið byrjuð að hyljastskýjum. Þessi klukkstund sem þarna var um að ræða, skipti sköpum.
En á undan henni höfðu verið farnar margar ferðir austur án þess að svona skilyrði sköpuðust.
Ég þekki vel til margra ljósmyndara og kvikmyndatökumanna, sem hafa lagt alúð í starf sitt, og kannski rétt að víkja að verkum þeirra og annarra listamanna. Ég hef í gegnum árin fylgst með því óhemju mikla starfi og kostnaði, sem liggur á bak við flest verk þeirra.
Ragnar Axelsson, RAX, hefur lýst hluta af þessu í skemmtilegum pistlum í Helgarblaði Morgunblaðsins með greinum undir fyrirsögninni "Sagan á bak við myndina." Er þar þó ekki sögð nema lítil brot af því sem liggur á baki myndarinnar ef allt er til talið.
Um daginn var athyglisverð umræða um verk listamanna á ýmsum sviðum og töldu margir litla eða enga ástæða til þess að þeir nytu tekna eða launa fyrir verk sín, svo sem fyrir tónlistarsköpun.
Þar mátti sjá á prenti í bloggi ummæli eins og: "Það getur hver sem er skotist út og náð svona myndum. " Eða: "Það getur hver sem er skotist út í bílskúr og glamrað eitthvað á gítar og sett á disk."
Svona röksemdir voru notaðar til þess að rökstyðja að það væri engin ástæða fyrir því að til þess að borga þessum mönnum.
Þegar ég hef lent í rökræðum við fólk um þetta hefur svar mitt verið stundum orðið þetta: Ef það er svona lítilfjöregt mál að búa til myndverk eða tónlist, af hverju gerið þið bara ekki þetta sjálf, "skjótist út til að smella mynd" eða "skjótist út í bílskúr og glamrið á gítar?"
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.