16.7.2010 | 22:54
Brautryðjandinn á sviði hjólhýsa.
Á ferð um landið eins og ég fór í dag með Andra Frey Viðarssyni var mikil umferð bíla með tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi í eftirdragi.
Okkur finnst þetta sjálfsögð sjón en hún var það ekki þegar Hallbjörn Hjartarson á Skagaströnd hóf að flytja frönsk hjólhýsi inn til landsins fyrir um 40 árum.
Í viðtali, sem við Andri tókum við hann í dag og flutt verður í "Prinsinum", þætti Andra á morgun, sagðist hann alls hafa flutt inn 45 hjólhýsi.
Miðað við allar auglýsingarnar sem hann birti til að kynna þessa nýjung er ekki líklegt að hann hafi grætt mikið á þessu.
En Hallbjörn hefur aldrei farið troðnar slóðir og um hann má segja að "fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá."
Árum og áratugum saman mætti hann litlum skilningi á þeim möguleikum sem frumlegt framtak hans varðandi Kántríbæ gáfu.
Í viðtalinu á morgun förum við yfir það mál og kynnum okkur hagi og hug þessa sérstæða manns og brautryðjanda, sem hefur mestallt sitt líf þurft að hafa vindinn í fangið.
Ökumaður jeppans handtekinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar! hvað er svóna sérstakt við kallinn hann Hallbjörn?? hann kunni aldrei að syngja eða semja almennileg lög, hann er aðeins stórskrýtinn maður sem troðið hefur sér inn í fjölmiðla vegna þess hve "sérstakur" hann er!!! fólk hefur í gegn um tíðina alltaf gert grín að honum eins og þú vel veist!
Það getur vel verið að hann hafi verið með fyrstu mönnum til að flytja inn hjólhýsii og er það vel.
Guðmundur Júlíusson, 16.7.2010 kl. 23:17
Ómar ... það er hafin söfnun handa þér. Sérð hana hér. Gætirðu sent mér reikningsnúmerið þitt og afmælisdag? Svo geturðu bara strokað þessa athugasemd út.
E-mail: hvurgrefillinn@gmail.com
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 23:36
"Ómar og Andri á flandri" er ferskur og flottur dagskrárliður, sem ég reyni að missa aldrei af. Það er sjálfsagt að láta þess getið um leið og mig langar til að svara Guðmundi.
Hallbjörn er sérstakur. Hann er alveg ljómandi góður lagahöfundur. Hefur samið marga alveg ágæta og grípandi og klassíska (ódauðlega) kántrýslagara. Að vísu er hans kántrýstíll ekki alveg mín bjórdós. Ég er meira fyrir alt-kántrý (Gram Parson, Wilco, The Byrds, Neil Young...).
Hallbjörn er alveg þokkalegur söngvari. Fer vel með þau lög sem hann syngur. Það er ekki neikvætt að vera skrýtinn (með eða án ý eða í eða vera sérstakur) út af fyrir sig. Hallbjörn kom Skagaströnd á kortið.
Ég tel mig muna eftir Hallbirni flytja inn vasaútvörp sem á þeim tíma var nýlunda. Gott ef þau voru ekki japönsk.
Til gamans: Fyrir margt löngu stóð til að danska kántrýskotna rokksveitin DAD héldi hljómleika hérlendis (Andri Freyr tók útvarpsviðtal við söngvarann um daginn). Ég hannaði auglýsingaplakat fyrir hljómleikana. Um svipað leyti sló DAD í gegn í Bandaríkjunum. Aflýsti þá hljómleikunum á Íslandi til hamra heitt járnið í Bandaríkjunum. Ég var búinn að eyða tíma í að hanna plakatið í kántrý-stíl. Til að henda þeirri vinnu ekki með öllu heimfærði ég uppsetninguna yfir á Kántrýbæ. Og sendi Hallbirni. Bauð honum að nota hana ef honum sýndist svo. Sem og hann þáði og hefur notað síðan. DAD notaði einnig á plötuumslag eitthvað af þeim pælingum sem ég var með varðandi auglýsingaplakatið. Á næstu plötu á eftir var nafnið Jens á þakkarlista. Ég ákvað að taka það til mín (þó einhver af upptökuliði plötunnar væri nafni minn).
Jens Guð, 16.7.2010 kl. 23:41
Heyrðu annars ... kominn með það.
Í þessu hefur mig lengi langað að taka þátt í.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 23:43
Annars er Hallbjörn Hjatarson sómamaður, ég kynntist honum ágætlega þegar ég var að dreifa plötum hans og selja ... og Guðmundur ... plötur Hallbjarnar flestar eru unun á að hlýða, sérstaklega þessi sem hann gerði erlendis með Magga Kjartans, Villa Guðjóns og þeim. Vissulega er margt broslegt í tónlist og textum Hallbjarnar en það gerir músíkina bara viðkunnanlegri.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 23:47
Hallbjörn H er góður karl, og fáir í vafa um það svo ég viti, en að ætla að spyrna hann við gott kántrý er því miður skot í myrkrki! hann er langt frá því að vera tónlistamaður í verki, ekki fremur en Eiríkur Fjalar er það!
Guðmundur Júlíusson (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 23:49
Guðmundur, kántrý spannar breiðara svið en dæmigerða sykursúpan frá höfuðborg Tenessee, Nashville. Það er fráleitt að flokka Hallbjörn með Eiríki Fjalar. Hallbjörn er fínn fyrir sinn hatt. Ekki síst þegar snillingurinn Villi Guðjóns hefur hönd í bagga. Það er "dáldið" gaman að Villi Guðjóns hafi núna afgreitt einkennislag "Ómar og Andri á flandri" því fyrir næstum fjórum áratugum fóstraði hann okkur Viðar Júlí, trommusnilling og pabba Andra Freys, í þungarokkshljómsveitinni Frostmarki.
Jens Guð, 17.7.2010 kl. 00:09
Sem fyrrverandi klassískur tónlistargagnrýnandi með laumulegan áhuga á kántrýmúsik tek ég undir allt hrós um Hallbjörn!
Sigurður Þór Guðjónsson, 17.7.2010 kl. 00:20
Sigurður, ég er líka töluvert fyrir klassíska músík. En hef ekki sama áhuga um að fjalla um hana og poppið. Hallbjörn er alveg fínn í sinni kántrý-deild. Og ef út í það er farið þá er hann í betri deildinni þegar íslensk kántrý-músík er vegin og metin.
Jens Guð, 17.7.2010 kl. 00:27
Athyglisvert þetta með hjólhýsin hans Hallbjarnar.
En Hallbjörn Hjartarson er sennilega sá sem hefur kynnt kántrý tónlist meira en nokkur annar í þessu landi !
Skagarströnd væri sennilega varla til í munnum landans án þess að nafn Hallbjarnar kæmi ekki við sögu !
Það er svo með alla sem syngja þeir mega eiga von á því að ,,einhver Guðmundur Júlíusson" reyni að skjóta hann niður !
JR (IP-tala skráð) 17.7.2010 kl. 02:39
Hallbjörn var á sínum sokkabandsárum of leiðitamur og trúgjarn. Það fannst mér a.m.k. Um sönginn og lagasmíðarnar veit ég ekkert. Ég man eftir að hann kom einhverju sinni ríðandi á knattspyrnuleik. Það var of langt gengið. Líka gerði Friðrik Þór Friðriksson eiginlega grín að honum í kvikmyndinni um hann.
Sæmundur Bjarnason, 17.7.2010 kl. 07:39
Sæll Ómar,
ef ég hef reiknað rétt eru nú 54 ár frá árinu 1946. Þá fluttist ég með foreldrum mínum þangað sem síðar reis það hverfi sem ég á enn heima í. Þá stóð undir húsveggnum hjá okkur tveir furðugripir: Þúfnabani, sem síðar var hafður á landbúnaðarsýningu í Reykjavík og svo fluttur þaðan upp að Hvanneyri þar sem hann stendur enn -- og hjólhús, sem mér var þá kennt að kalla Karavan. Það átti fínt fólk í Reykjavík, sem ég kann því miður ekki að nefna, en kom svo snemmsumars og hengdi sitt hjólhús aftan í bíl því nú átti að fara í ferðalag. -- Svo hjólhús (hvers vegna -hýsi?) voru komin hér allnokkrum árum áður en Hallbjörn fór að flytja þau inn. Og ég man enn hvað þessi Karavan var rosalega flottur að innan. Að utan þótti mér hann heldur þúfulegur og ekki beint fallegur.
Sigurður Hreiðar, 17.7.2010 kl. 11:29
Það er rétt að koma því að að Hallbjörn flutti inn fellihýsi, sem þá voru alger nýung hér á landi þótt einhver hjólhýsi hafi rekið á fjörur landsmanna fyrir þann tíma.
Mig minnir að fellihýsin hafi heitið Casita.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 17.7.2010 kl. 12:46
Svonefndur naivismi er viðurkennd tegund listar. Dæmi um slíkt er til dæmis Stefán í Möðrudal og batiklistamaðurinn Óskar Magnússon sem reisti kassafjalahús í Blesugróf sem ýmsir arkitektar telja hafa verið snilldarbyggingu.
Húsið var rifið til að rýma fyrir Breiðholtsbraut, síðar Reykjanesbraut.
Ég sakna þess þegar ég kem nú í Kántríbæ að netakúlurnar og netin skuli ekki vera enn þar inni í bland við húsmuni úr villta vestrinu.
Aldeilis óborganleg hugmynd Hallbjarnar að tengja þannig saman hið innsta eðli þess að vera kúreki í villta vestrinu eða sjómaður á Íslandi.
Ómar Ragnarsson, 17.7.2010 kl. 14:33
Hallbjörn er ekkert mjög merkilegur. Hann er samt ekki ómerkilegur.
Staðreyndin er sú að hann er skrýtin skrúfa, notalega barnalegur og broslegur í bland, alltaf kurteis og vel til hafður. Mjög vel máli farinn, sem er auðheyrt þegar hann tjáir sig í viðtöum.
Hann hefur komið frá sér nokkrum lögum sem hafa fengið hreint ágæta spilun í útvarpi og ég veit ekki til annars en að hann hafi nú langoftast átt greiða leið að fjölmiðlum sem persóna.
Ég þakka honum samt ekki það að kántrítónlist hafi borist til landsins. Held að Kenny Rog, Dolly Part. og Tammy Wynett og Patsy cline hafi náð eyrum okkar án hjálpar hans.
Að hafa vindinn í fangið gæti átt skírskotun til þess að sveitarstjórn hafi ekki kært sig mikið um uppátæki Hallbjörns í gegnum tíðina. En er það ekki þannig hjá velflestum þegar kemur að samskiptum okkar borgaranna við hið opinbera? Það gengur seint og illa að fá afgreiðslu..
En er það ekki fulllangt gengið að stilla honum upp á þann hátt sem Ómar gerir? Hallbjörn á bara sinn stað, og margt hefur gengið vel hjá honum, hvað er þetta.
Hvað vitum við nema hann hafi aldrei verið með nægilega vel útfærðar hugmyndir eða áætlanir þegar kom að því að fá hreppinn með sér í hin eða þessi verkefnin? Og ekki einu sinni farið eftir ráðleggingum sérfræðinga ef og þegar þau voru boðin? Hvað vitum við nema hann hafi verið með kröfur sem ekki var hægt að afgreiða eins og brauð og mjólk yfir búðarborð?
Honum hefur auðnast margt. Þjóðin þekkir Hallbjörn og hverjum er ekki hlýtt til kallsins?
Held að hann hafi mjög litla ástæðu til annars en vera fyllilega sáttur. Og já, hamingju með afmæiið Ómar.
Örlygur S. (IP-tala skráð) 18.7.2010 kl. 11:39
Ég á eitt svona 33 ára gamalt Casita felli-hjólhýsi sem Hallbjörn flutti inn á sínum tíma. Þessi hús eru algjör snild, það er með hörðum hliðum sem er hægt að fella þannig að það er hægt að ferðast með það í roki og engin dúkur sem er að berjast um í roki.
Gísli Eianrsson (IP-tala skráð) 18.7.2010 kl. 22:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.