3.8.2010 | 14:16
Mesti ekkifréttatími ársins?
Síðdegis í gær var helsta fréttin á ljósvakamiðlunum íslensku að umferð væri farin að þyngjast á leið til Reykjavíkur.
Því miður heitir hugtakið "nyhed" eða "news" ekki hliðstæðu nafni á íslensku.
Það er nefnilega ekkert nýtt við það að umferð þyngist á leið til Reykjavíkur eftir hádegi á verslunarmannafrídegi.
Um það var vitað fyrir 50 árum eftir að þessi frídagur varð almennur að umferð myndi þyngjast til Reykjavíkur síðdegis hvern verslunarmannafrídag. Þess vegna er það fyrir löngu hætt að vera frétt og var það kannski aldrei.
Á hverju ári ríkir mikil ekkifréttatíð í um það bil viku um mánaðamótin júlí-júlí með tilheyrandi beinum útsendingum frá helstu mótstöðum komandi helgar.
Gríðarleg orka fer í það hjá fjölmiðlamönnum að reyna að grafa upp eitthvað bitastætt til að koma á framfæri sem "frétt".
Dag eftir dag er það sama stórfréttin hvað margir eru staddir á helstu hátíðasvæðunum og hvernig umferðin sé.
Þessu hefur maður svo sem tekið þátt í sem fréttamaður áratugum saman af því að allir verða að elta skottið á öllum í þessu efni.
Og ef einhver fjölmiðillinn er slappur í þessu kvarta líklega hlustendurnir. Eða hvað?
Nóttin tíðindalítil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Á meðan nauðganir beinbrot og uppþot, sem væru stórfréttir í siðmenntuðum heimi, eru ekki fréttir þá, já þá hafðu samúð með kollegum þínum.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 3.8.2010 kl. 15:32
Fréttin af vaxandi umferð til Reykjavíkur eftir hádegi á verslunarmannafrídaginn og megnið af öðrum "fréttum" þessara daga eru ekkifréttir af tærustu tegund.
Ómar Ragnarsson, 3.8.2010 kl. 18:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.