3.9.2010 | 18:28
Líka fyrir norðan og austan.
Heitt í Japan? Líka á Fróni!
Á leið okkar hjóna niður Öxnadal og Þelamörk núna áðan brá svo við að svo virtist sem miðstöðin í bílnum væri biluð, því að enda þótt opnað væri fyrir fullan blástur í gegnum loftristarnar sem eiga að blása köldu lofti í andlit manni, kom bara heitt loft út um þær.
Þær voru þó rétt stilltar fyrir blástur utan frá inn í bílinn en ekki stilltar fyrir hringiðu innan í honum.
Allt í einu rann upp fyrir okkur ljós: Það var bara svo heitt úti að ekkert kalt loft var að fá, - hitinn 23 stig.
Þetta minnti á skondið atvik þegar við vorum á leið til Los Angeles til skemmtunar Íslendingafélagsins þar 1968 og á þeim tíma var boðið upp á það að ef maður stansaði á fimm stöðum í Bandaríkjaferð fengist helmings afsláttur af fargjöldum.
Íslendingafélagið borgaði flugkostnaðinn frá Íslandi og til baka og því gátum við farið bæði fyrir sama verð og einn ferðamaður.
Við ákváðum að dvelja eina nótt í Las Vegas. Á þeim tíma var hræðilega dýrt að koma til þeirrar borgar, gagnstætt því sem nú er þegar þessu hefur verið snúið við.
Var dvölin þennan eina sólarhring í Vegas jafn dýr og á öllum hinum fjórum stöðunum til samans.
Þegar við vorum lent í Las Vegas lá leiðin fyrst í gegnum flugstöðina og ekkert óvenjulegt bar við.
Við settumst beint út í leigubíl og þegar hann ók af stað hrópuðum við upp: "Þetta er óbærilegur hiti, í guðanna bænum opnum gluggana!"
Við gerðum það en þá tók ekki betra við því að 44 stiga heitt loftið, 7 stigum heitari en líkamshiti okkar, sem var utandyra, gusaðist framan í okkur og við flýttum okkur að loka gluggunum aftur!
Við njótum nú einstakrar haustblíðu með hásumarhita hér nyrðra á ferð okkar upp á Sauðárflugvöll sem tengist gerð kvikmyndar um hann og fleiru, sem þarf að sinna hér nyrðra og eystra vegna gerðar þeirrar myndar og fleiri.
Enn gríðarlega heitt í Japan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll já hér er einmuna blíða þarf að fara langt aftur til að fá sambærilega daga eins og nú eru hjá okkur í september.
Sigurður Haraldsson, 4.9.2010 kl. 00:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.