Lýðræðið er óhjákvæmilega dýrt.

Í 66 ár hefur það verið yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda að setja landinu nýja stjórnarskrá.

Oftar en einu sinni hafa verið settar á stofn nefndir stjórnmálamanna til þess að gera þetta en aldrei hefur þessum nefndum tekist ætlunarverk sitt. 

Tvisvar hefur kjördæmum verið breytt og fyrir rúmum áratug voru sett ákvæði um mannréttindi sem sárlega vantaði. 

Fróðlegt væri að skoða hve mikla fjármuni allt þetta basl hefur kostað samtals, en það gæti hlaupið á milljörðum sé allt til talið, svo sem tvennar alþingiskosningar, sem haldnar voru árið 1959 vegna breytingar á kjördæmaskipaninni.

Að ekki sé nú talað um tvennar kosningar vegna kjördæmabreytinga snemma á fjórða áratugnum og tvennar kosningar árið 1942 af sömu orsökum, ef menn skoða þetta mál 80 ár aftur í tímann. 

Mörgum kann að blæða í augum þessi kostnaður, ekki hvað síst þegar kostnaður vegna komandi stjórnlagaþings bætist nú ofan á á slæmum tíma. 

En það mætti líka reyna að finna út hve mikið það hefði kostað að gera alls ekki neitt eða reyna ekki neitt.

Til dæmis væri fróðlegt að velta fyrir sér hvernig stjórnmálaástandið væri nú ef við byggjum enn við kjördæmaskipanina frá 1931 eða frá árinu 1959.


mbl.is Hálfur milljarður í stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Jú, vissulega fylgir lýðræði nokkur kostnaður en vanhugsuðum skrefum sem þessum er alveg hægt að sleppa. Hvað grein/greinar stjórnarskrárinnar ollu hruninu?

Sjáum við aðrar þjóðir standa fyrir pólitískum réttarhöldum og fikta í grundvallarplöggum sem fæstir hafa skilning á?

Jon (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 12:54

2 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála athugasemd nafna míns hér að framan Ómar. Þá bendi ég þér líka á góða færslu Bjarna Harðarsonar fyrrum alþingismanns þar sem hann segir þann sannleika að það var ekkert í stjórnarskránni sem olli efnahagshruninu. 

Sú aðferð sem við ætlum okkur að fara er ómarkviss, dýr og mun ekki skila árangri. Ég hef margoft bent á þá leið sem Svíar fóru við endurskoðun á sinni stjórnarskrá þar sem fram fór markviss vinna og fullkomin sátt náðist um breytingar.

Helstu spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir varðandi stjórnarskrána er í fyrsta lagi jafn réttur kjósenda. Í öðru lagi ákvæði um eignarhald og/eða rétt ríkisins yfir náttúruauðlindum. Í þriðja lagi aðskilnaður framkvæmdavalds og dómsvalds varðandi skipan dómenda. Í fjórða lagi stóra spurningin um það hvort hér skuli vera þingræði eða fyrirkomulag með sama hætti og í Bandaríkjunum og Frakklandi.

Þessar spurningar urðu ekki til við bankahrunið heldur hafa þær verið í umræðunni í langan tíma og stjórnlagaþing hvorki leysir né auðveldar breytingar á stjórnarskránni.

Hitt kann að vera gott að láta fara fram almenna umræðu um stjórnarskrána eins og verið er að gera með þjóðfundunum sem undirbúning undir faglega vinnu við stjórnarskrána. En Stjórnarskrárþingið vinnur aldrei slíka vinnu heldur verður ný gagnslaus kjaftasamkoma.

Jón Magnússon, 16.10.2010 kl. 13:32

3 identicon

Jón Magnússon: Stjórnarskráin sem við höfum núna er bara svo óheyrilega gölluð. Í fyrsta lagi, hvernig dettur nútímaríki í hug að hafa sérstaka "þjóðkirkju"?

Í öðru lagi, hvernig getum við unað við stjórnarskrá sem að því er virðist, heimilar yfirvöldum að banna t.d. guðlast? Tjáningarfrelsismál eru mjög undarleg á Íslandi að þessu leyti. Árið 1984 var maður dæmdur fyrir guðlast á Íslandi samkvæmt lögum sem voru talin í samræmi við 73. gr. stjórnarskrárinnar. Lögin eru 125. gr. laga 19/1940. Mjög svipuð grein er 95. gr. laga 19/1940 sem bannar t.d. grín að Bandaríkjaforseta, svo eitt sé nefnt.

Það var beinlínis og bókstaflega bannað að gantast með George W. Bush þegar hann var við völd, og það er ennþá beinlínis og bókstaflega bannað að gantast með Barack Obama, eða þá Danakonung. Auðvitað veit þetta enginn vegna þess að þessum lögum er aldrei framfylgt, en það er full ástæða til að ætla að þau þættu í samræmi við "tjáningarfrelsis"-grein stjórnarskrárinnar, ef marka má hæstaréttarfordæmið sem gafst árið 1984 í Spegilsmálinu.

Þetta eru ekki málefni tengd hruninu. Hrunið kom vegna ótrúlegs og óþolandi tossaskapar yfirvalda. Við höfum þurft nýja stjórnarskrá núna í meira en hálfa öld, og það er loksins komin nógu mikil reiði til að láta vaða. Hvort sem það er kreppa eða ekki, þá þurfa Íslendingar að taka sig saman í andlitinu hvað varðar stjórnarskrána og stjórnskipan almennt. Þessum stanslausa tossaskap verður að linna, og það þarf að taka til í stjórnarskránni eins og alls staðar annars staðar.

Stjórnarskráin kom hruninu ekkert við eins og þú bendir réttilega á, og það er næstum því óhugsandi að nokkuð fari í þá nýju sem hefði forðað okkur frá því.

Hvenær ætti annars að gera þetta? Þegar enginn sér ástæðu til? Þú hlýtur að vita jafn vel og hver annar, að það mun aldrei gerast, og er niðurstaðan þá einfaldlega sú að halda þeirri stjórnarskrá sem við höfum. Hvað mig varðar persónulega, þá ætti það ekki að vera valmöguleiki. Það átti að vera búið að drífa þetta af fyrir meira en hálfri öld, hvort sem er í kreppu eða góðæri.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 16:26

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jón Magnússon segir enga ástæðu til að vera að hræra í stjórnarskránni en nefnir síðan ýmis atriði sem auðvitað væri búið að lagfæra ef þetta mál væri ekki í nær algeru dauðadái áratugum saman.

Stjórnarskráin olli ekki hruninu, rétt er það, heldur hugsunarhátturinn ÉG-NÚNA, skammgróðafíkinn og áhættufíkinn hugsunarháttur. 

En er það þá svo að engar umbætur má gera á neinu sviði nema sannað sé um sé að ræða mál sem olli hruninu? 

Ómar Ragnarsson, 16.10.2010 kl. 23:55

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

11.12.2009:

"Ég hef verið í þeim hópi sem hafði miklar áhyggjur af þróun mála hér á landi allt frá árinu 2003 og varaði við innan og utan Landsbankans," segir Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur.

"Lækkun bindiskyldu Seðlabankans á því ári [2003] skapaði um 800 milljarða króna útlánagetu hjá innlendum lánastofnunum. Sú útlánageta fann sér framrás meðal annars í íbúðalánum.

Hækkun lána og lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs á árinu 2004 var olía á eldinn," segir Yngvi Örn í ítarlegu viðtali í helgarblaði DV.

"Tvennar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir á árunum 2004 til 2008, sem juku innlenda fjárfestingu um 40 prósent á ári, hlutu að leiða til ofþenslu.

Tilslakanir í ríkisfjármálum, meðal annars lækkun skatta frá 2005 og miklar opinberar framkvæmdir, hlutu einnig að magna vandann."

Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur - Reyndi að vara þá við

Þorsteinn Briem, 17.10.2010 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband