Nikotínið er erfiðast viðfangs.

Tölurnar um reykingar alkóhólista eru sláandi og ýmislegt fleira er sérkennilegt varðandi nikótínfíknina.

Ekkert fíkniefni kemst nálægt nikótíninu í því hve erfitt er að venja sig af neyslu þess. 33% þeirra sem byrja að reykja geta með engu móti hætt og það er miklu hærri prósenttala en gildir um nokkurt annað efni. 

Nikótínið er svo erfitt, að þegar fíklar, sem reykja, koma í meðferð, er þeim ráðlagt að einbeita sér að því að hætta neyslu þess fíkniefnis sem veldur mestum daglegum vandræðum, en geyma það að fást við nikótínið.

Ég fylgdist nokkuð vel með því þegar einn besti vinur minn réðist gegn fíkniefnavanda sínum sem var orðinn mjög alvarlegur.  

Baráttan tók nokkur ár og hann hafði sigur gegn fíkniefnum, sem verst þykja viðfangs. En eitt fíkniefnið varð að lokum erfiðast og gekk verst að fást við. 

Það var nikótínið. 

Að lokum hafðist sigur í þeim slag en sjálfur sagði hann að sú barátta hefði verið lang erfiðust. 


mbl.is 79% alkóhólista reykir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Ómar, samt hefur fólk sagt mér að það sé erfiðast að léttast, einn maður sagði mér þá sögu einu sinni fyrir löngu síðan, hann hafði hætt að drekka áfengi, og hætt að reykja, og svo að endingu varð hann að taka á matarræðinu, og verst af þessu öllu var maturinn, því við þurfum jú öll að borða, og það er til nokkuð sem heitir matarfíkn.

kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 21.10.2010 kl. 10:42

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aldrei drekkur Ómar vín,
ekki reykir nikótín,
ætíð sól á skallann skín,
skortir aldrei vítamín.

Þorsteinn Briem, 21.10.2010 kl. 13:53

3 identicon

Þetta er alveg hárrétt hjá þér Ómar, en annað gleymist mjög mikið á Íslandi, sem er sú staðreynd að áfengi er með hættulegri vímuefnum af gjörvallri flórunni sem er í boði á Íslandi, löglega eða ekki.

Maríjúana, hass, svokallaðir "galdrasveppir", LSD, alsæla (MDMA & MDA), öll þessi efni eru talsverðu skaðminni heldur en áfengi, hvort heldur sem maður lítur til neytandans sjálfs eða aðstandenda hans eða samfélagsins í heild.

Hvort sem litið er til fíknar, geðveiki, hinnar sérstöku og hreint út sagt ótrúlegu heimsku sem áfengi veldur, varanlegs líkamslegs tjóns eða dauða. Sem dæmi er ógerningur að taka dauðvænlegan skammt af LSD og svo gott sem ómögulegt með maríjúana, hassi og sveppum.

Það þarf ekki að vera réttlæting fyrir lögleiðingu vægari efna, en mér þykir Íslendingar full fljótir að blekkja sjálfa sig þegar það kemur að áfenginu. Ég gat ekki annað en hlegið upphátt þegar ég stakk upp á því við frænda minn í gríni að hann léti áfengið í friði og færi frekar að reykja hass (til að spara pening, þetta var sagt í gríni), en hann sagðist ekki vilja neitt "sterkara" en áfengið, sem er auðvitað drepfyndið fyrir þá sem þekkja þessar staðreyndir, vegna þess að það er mjög erfitt að finna sterkara dóp en áfengi á Íslandi.

Það er því kaldhæðnislegt að ein hættulegustu og erfiðustu vímu- og fíkniefnin sem eru í boði séu bönnuð, þegar tiltölulega meinlaus vímuefni eins og maríjúana, hass og sveppir eru bönnuð. Ég legg stundum fram sem rök fyrir lögleiðingu kannabisefna, að ef fleiri reyktu hass myndu færri drekka, sem væri allavega úr eldinum í öskuna.

Auðvitað eru hættur við öll vímuefni, en að bera áfengi saman við nokkuð annað væri hreinlega fyndið ef það væri ekki svo sorglegt.

(Að lokum tek ég fram að ég er algerlega á móti því að banna áfengi. Þetta eru bara kaldhæðnislegar staðreyndir sem Íslendingar ættu að hafa í huga hvort sem þeir nota áfengi eða önnur vímuefni eða engin.)

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 17:31

4 Smámynd: Grefill

Hjartanlega sammála þér þarna Helgi Hrafn.

Hvað skildu þeir í raun vera margir á Íslandi sem hafa reynsluna og sjá þetta nákvæmlega eins og þú ert að útskýra? Það þætti mér gaman að vita.

Grefill, 21.10.2010 kl. 21:08

5 identicon

Öll umræða Íslendinga um vín og vínneyslu er svo þvinguð, leiðinleg og ómenningarleg að maður forðast að taka þátt í henni. En það er nú bara einu sinni þannig að í öllum siðuðum þjóðfélögum er vínið ómissandi þáttur í matargerð og þeirri menning sem fylgir góðu borðhaldi. Ómar og Helgi Hrafn þamba kannski dísætt Coca Cola með hangikjöti, lambasteik eða góðum fiskrétti. En það þætti  barbarismi hjá siðuðum þjóðum og er það líka. Með góðum mat er gott borðvín ómissandi. Period. Um þetta hafa verið skrifaðar þúsund bækur. Þeir sem kunna ekki að meta slíkt eru eins fátækir og þeir sem hafa aldrei lært að meta klassíska tónlist, heimsbókmenntir eða málverk eftir mestu snillinga mannkynsins. Ok, mín vegna. Einnig er til fólk sem hefur aldrei tekið eftir fegurð náttúrunnar. En þeir sem geispa golunni án þess njóta þessara unaðsemdar lífsins fara á mis við mikið. Þeirra mál auðvitað.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 21:28

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Haukur Kristinsson.

Rétt er það. Vín er matur.

Kókþamb Mörlandans er viðbjóður og hann hefur almennt ekki stjórn á sínum fíknsortum.

Ekkert er fegurra í mannlífinu en lautartúr við gamlan franskan kastala með bagettum, frönskum ostum og Búrgundarvínum.

Á rauðköflóttum dúknum fegurðardís og froskur í tjörn bíður eftir frönskum kossi.

Þorsteinn Briem, 21.10.2010 kl. 22:24

7 identicon

Sammála Steini Briem. Og þakkir fyrir allan þinn fróðleik og góða texta.

Kveðja, Haukur

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 22:44

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Takk sömuleiðis, Haukur minn.

Þorsteinn Briem, 21.10.2010 kl. 23:07

9 Smámynd: Grefill

Ég hef aldrei getað skilið hvernig nokkrum manni skuli þykja vín gott. Mér hefur alltaf þótt það alveg hrikalega vont þótt ég hafi þröngvað einhverju af því ofan í mig hér áður fyrr í mannalátum. En ekki get ég tekið undir lofsöngva um það og tel mig ekki hafa misst af neinu.

Grefill, 21.10.2010 kl. 23:12

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Auðþekktur er asninn á eyrunum.

Þorsteinn Briem, 21.10.2010 kl. 23:46

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Þýski bjórinn er svo góður og svo nærandi að hægt er að lifa á honum," sagði Stebbi Þorláks, menntaskólakennari á Akureyri.

Þorsteinn Briem, 22.10.2010 kl. 00:05

12 identicon

"Bier ist flüssiges Brot". Þetta vissi Stefán blessaður.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.10.2010 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband