10.11.2010 | 22:12
Eitt af þessu gamla, sem hefur breyst.
Fyrir hálfri öld var hér malarvegakerfi, 97% útflutningsins fiskur og ekki nóg rafmagn fyrir okkur sjálf. Þá var eðlilegt að hér risi stjóriðja og að næstu áratugi yrði virkjað hæfilega í vatnsafli þar sem vitað var fyrirfram hvað hver virkjun afkastaði. Ég var fylgismaður þessa.
Nú eru aðstæður gerbreyttar, við framleiðum fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf og allt annað gildir um jarðvarmavirkjanir en vatnsafl varðandi vitneskju um afl og endingu.
Samt hamast áltrúarmenn sem aldrei fyrr, rétt eins og ekkert hafi breyst.
Fyrir 50 árum var flugvöllurinn í miðju borgar og ýmsum virtist þá sem hægt væri að anna allri fólksfjölgun með því að byggja þar. Þá var ég á báðum áttum um það hvort færa ætti flugstarfsemina annað.
Þungamiðja byggðarinnar er ekki lengur í Þingholtunjm heldur eru stærstu krossgötur landsins við Elliðaár, þungamiðja byggðar á höfuðborgarsvæðinu rétt hjá krossgötunum, iinnst í Fossvoginum, og flugvöllurinn kominn þrjá kílómetra út fyrir þá miðju verslunar og þjónustu sem var í kvosinni fyrir 50 árum en er nú komin austur í Bústaðahverfi.
Stærstu krossgötur landsins draga óhjákvæmilega að sér miðju verslunar og þjónustu eins og alls staðar í veröldinni. Flestar borgir hafa einmitt risið í kringum slíkar krossgötur.
Þótt aðstæður og forsendur hafi gerbreyst á 50 árum láta menn eins og ekkert hafi breyst.
Þeir halda því fram að hægt sé að flytja þessa þungamiðju út á nesið frá krossgötunum með því að leggja flugvöllinn niður.
Þeir halda því fram að það sé flugvellinum að kenna að byggð sé utan við Elliðaárdal og Fossvogsdal.
Utan þessarar línu búa nú hátt á annað hundrað þúsund manns og augljóst að sá fjöldi hefði aldrei getað komist fyrir í Vatnsmýrinni. Hvaðan á allt þetta fólk að koma, sem á að eiga heima í Vatnsmýrinni? Og hvað mun það kosta að byggja upp samgöngumannvirki, sem anna þeirri umferð til að frá þessari byggð sem mundi bætast við?
Ég efast um að í kommúnistaríkjunum hafi menn ætlað sér að standa fyrir þvinguðum flutningum fólks af þessu tagi.
Því er haldið fram að byggð í Vatnsmýri muni fækka slysum um 40% , af því að umferð muni minnka um 40% eftir að búið er að flytja fólkið í Vatnsmýrina. Ein forsendan er sú að allir sem þarna muni eiga heima muni vinna á svæðinu sjálfu og ganga eða hjóla í vinnuna.
Sem betur fer er enn atvinnufrelsi hér á landi og ekki hægt að setja svona fram.
Því er haldið fram að það sé gott fyrir samgöngur að innanlandsflugið sé flutt til Keflavíkur.
Gætum nú að. Ég hélt að það væri keppikefli í samgöngum að hafa leiðir sem greiðastar og stystar.
Síðan hvenær getur það orðið samgöngubót að lengja leiðina fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur um 160 kílómetra?
Þeir segja að flugvöllurinn taki svo gríðarmikið pláss á svæðinu vestan Elliðaáa.
Flugvöllurinn tekur nú 7% af þessu svæði og hægt væri að minnka það niður í 5% svo að hann taki minna rými en Reykjavíkurhöfn.
Af hverju þá ekki að flytja hafnarstarfsemina til Njarðvíkur og byggja íbúðabyggð í staðinn? Það er þó styttra að sigla frá útlöndum til Njarðvíkur en til Reykjavíkur.
Miklabrautin tekur upp 3% af svæðinu vestan Elliðaáa. Hvers vegna er ekki krafa um að leggja hana niður og byggja þar íbúðabyggð í staðinn úr því að hún tekur svæði á við hálfan flugvöll?
Núverandi samgönguráðherra er Reykvíkingur en sér samt í hendi sér að hin gamla hugmynd um að leggja flugvöllinn niður er gegn yfirgnæfandi vilja þjóðarinnar og að flutningur flugstarfseminnar er hrikaleg afturför í samgöngum.
Ég segi því: Áfram, Ömmi frændi!
Samgöngumiðstöðin rís ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Skrifstofustjóra borgarstjórnar og ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins var falið að kanna hvort þörf væri á að bæta aðstöðu fyrir flugfarþega". Gullmoli í boði pólitíkusa. Þegar Hvumpinn vann á afgreiðslu innanlandsflugs Flugleiða fyrir nærri 30 árum var honum sagt að ef kviknaði í byggingunni á næturvakt skyldi hann fara gangandi uppá slökkvistöð að láta vita. Og ekki hefur byggingin skánað á þessum árum. Eymdarlegt. Hinsvegar er eðlilegast að Flugfélag Íslands/ Icelandair Group byggi sjálft á þessum stað. Pólitíkin á þar hvergi nærri að koma.
Hvumpinn, 10.11.2010 kl. 22:19
Af hverju geta sveitastjórnarfólk og eftirlitsmenn ekki ekið eins og annað fólk eða notað síma og tölvur?
Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.11.2010 kl. 22:37
Ég les alltaf pistlana þín og þykja þeir góðir. Ekki þessi þó. Segir það sig ekki sjálft að ef við höfum ca. 20-30 þús. manna byggð á flugvallarsvæðinu þá minnkar umferðin úr fjallahéruðunum í útjöðrum borgarinnar sem því nemur. Við erum með Háskólann, Landspítalann og megnið af stjórnsýslunni í og við miðborgina. Þú talar líkt og fólki hafi staðið til boða að byggja á þessu svæði. Það varð að skipuleggja hverfi borgarinnar og það var ekki annað í boði en að fara upp í fjöllin með íbúðahverfin.
Ég reikna með að læknar og starfsfólk spítalans og Háskólans osfrv. muni standa í biðröðum eftir að geta flutt í flugvallarhverfin. Hvaða framtíð er í því að eyða hvað, einni viku á ári í bíl í og úr vinnu. Þar verður reiðhjólið loks viðurkennt á Íslandi. Nei þín sýn þýðir amerískt gatnakerfi og mengun.
Villi (IP-tala skráð) 10.11.2010 kl. 22:38
Mér er kunnugt um að sonur minn, Ragnar, sem er byggingarfræðingur, hafi verið fenginn á sínum tíma til þess að hanna ódýra og hagkvæma uppbyggingu austan við núverandi afgreiðslu.
Hins vegar væri betra að hafa þessa miðstöð við austanverðan völlinn vegna þess að það styttir leiðina til hans.
Höfuðborgarsvæðið nær í raun út að þeim mörkum þar sem það tekur innan við klukkustund að komast til Reykjavíkur. Akranes, Borgarnes, Bifröst, Hveragerði, Selfoss, Hella, Hvolsvöllur og Suðurnes falla undir þetta og sömuleiðis Akureyri og Egilsstaðir.
Þessir staðir eru í raun orðnir að úthverfum Reykjavíkur.
Að lengja leiðina til Akureyrar og Egilsstaða um 80 kílómetra jafngildir því að henda 20 þúsund manns út af höfuðborgarsvæðinu.
Ómar Ragnarsson, 10.11.2010 kl. 22:42
Flottur Ómar, gleymum heldur ekki að þetta landsvæði getur hvenær sem er, farið á
kaf í sjó, sjá Básendaflóðið 1800.
Aðalsteinn Agnarsson, 10.11.2010 kl. 22:54
Reykjavíkurflugvöllur þjónar ekki eingöngu Reykjavík og flugvöllur á Hólmsheiði yrði miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.
Þorsteinn Briem, 10.11.2010 kl. 22:55
Hvað verður þá um eina af mikilvægustu forsendum fyrir staðarvali nýs sjúkrahúss við Hringbraut þegar að samgöngumiðstöð verður ekki að veruleika? Eftirfarandi er tekið að heimasíðu verkefnavefs nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut úr greinargerð forsvarsmanna verkefnisins frá 19.nóvember 2009.
Bestu tengslin við almenningssamgöngur
Önnur mikilvæg forsenda fyrir staðarvalinu við Hringbraut var að þar væri hægt að tryggja gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs, sem og góðar almenningssamgöngur.
Fjöldi starfsmanna í fullu starfi hjá Landspítala er um 4.500, fjöldi heimsókna á göngudeildir spítalans er um 2.400 að meðaltali hvern virkan dag og þá er ótalinn fjöldi heimsóknargesta. Fyrir allt þetta fólk er staðsetning spítalans mikilvæg, ekki síst með tilliti til almenningssamgangna.
Endurteknar úttektir umferðarsérfræðinga benda eindregið til þess að uppbygging við Hringbraut sé besti kosturinn. Þéttbýl hverfi borgarinnar liggja að lóð spítalans við Hringbraut, fjórðungur starfsfólks er búsettur innan 14 mínútna göngufæris við spítalann og helmingur þess innan 14 mínútna hjólafæris. Sjö strætisvagnaleiðir liggja framhjá spítalalóðinni og hún er sá staður innan höfuðborgarsvæðisins sem er langbest tengdur almenningssamgöngum. Þá verður fyrirhuguð samgöngumiðstöð, sem þjóna á innanlandsflugi og fólksflutningabílum, byggð á næsta leiti við spítalann sem þjónar vel hagsmunum fólks utan af landi sem þarfnast þjónustu hans. Tenging spítalans við þéttbýlið við Faxaflóa verður jafnframt enn betri ef hlutverk samgöngumiðstöðvar verður eins og ætlað var í upphafi - að þar verði miðstöð strætisvagna auk annars.
Jakob Ólafsson (IP-tala skráð) 10.11.2010 kl. 22:59
Það er búið að reisa "fjallahverfin" og ekki aftur snúið með það. Það má þétta byggð mjög víða og breyta henni. Til dæmis býr einn maður í Skeifuhverfinu, sem er jafn viðáttumikið og Smáíbúðahverfið þar sem búa 1300 manns.
Gísli Marteinn Baldursson hefur bent á möguleika þess að byggja íbúðabyggð ofan á húsin í Skeifunni og ýmsa aðra skemmtilega möguleika.
Á svæði, sem nú liggur alveg miðsvæðis, Ártúnshöfða, er malarnám.
Samgöngur eru æðakerfi byggðarinnar og þær þurfa sitt rými.
Samgöngur eru raunar forsenda borgarinnar, annars væri hér engin borg.
Það er kominn tími til að flug fái sess til jafns við samgöngur á sjó og landi.
Yfir 50% af svæðinu vestan Elliðaáa er helgað landsamgöngum og um 7% fer í höfnina.
Af hverju má flugið ekki fá 5%? (Ef óskað er, get ég útlistað hugmyndir mínar um breytingu á flugvellinum sem minnkar hann um 30%)
Ómar Ragnarsson, 10.11.2010 kl. 23:01
Hvort sem flugvöllurinn fer eða ekki, er alveg ljóst að hann verður þar sem hann er í mörg ár í viðbót. Persónulega finnst mér hann eiga að vera þar sem hann er um langa framtíð, en það er annað mál. Hvers vegna ekki er bætt úr aðstöðu á vellinum strax, skil ég ekki og hef ekki skilið lengi. Sú aðstaða sem fólki er boðin uppá í dag er ekkert annað en reginhneyksli og til háborinnar skammar fyrir Reykjavíkinga. Að koma með millilandaflugi frá Færeyjum og Grænlandi er kvöl og pína, bæði fyrir farþega, tollara og allt starfsfólk. Innanlandsflugfarþegum er einnig sýnd vanvirðing með þessari einni ömurlegustu flugstöð á jörðinni. Í dag er hægt að reisa alls kyns húsnæði sem auðveldlega má taka niður síðar með lítilli fyrirhöfn, ef á þarf að halda. Til fjandans með "hátæknisjúkrahúsið" og væri nær að setja eins og 150-200 milljónir í þokkalega góða aðstöðu fyrir þá farþega sem fara um Reykjavíkurflugvöll.
Halldór Egill Guðnason, 11.11.2010 kl. 03:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.