Upplifunarferðamennska.

Við Íslendingar höfum löngum verið með ákveðnar hugmyndir varðandi ferðalög. Ein hin lífseigasta er að erlendir ferðamenn vilji hafa veður hér sem líkast því sem best gerist í heimalöndum þeirra, sólskin og hita.

Af þeim sökum eru afskrifaðir dagar með rigningu, að ekki sé nú talað um ef vindur er einhver, og veturinn er auðvitað vita vonlaus með myrkri og kulda. 

Allt miðum við þetta við eigin óskir um að veður sé hér samkeppnisfært við það besta sem gerist erlendis þegar heitast er,  þangað sem við förum á sumrin til þess að sleppa frá hinu svala íslenska sumri. 

Hið síðastnefnda hefur að vísu dalað síðan 2007 en er þó enn við líði. 

Síðan kemur allt í einu upp, að erlendir ferðamenn vilji fara í hvalaskoðunarferðir um hávetur, og þykir slíkt fréttnæmt, ekki síst, þegar láta verður eftir hinum erlendu sérvitringum og bjóða þeim upp á slíkar ferðir. 

Ég hef áður sagt hér á blogginu frá því hvernig Lapplendingar í Norður-Skandinavíu laða til sín fleiri ferðamenn á veturna en koma til Íslands allt árið með því að lofa þeim fjórum fyrirbrigðum: Myrkri, kulda, þögn og ósnortinni náttúru. 

Hingað til lands kom kona, bandarískur prófessor í ferðamálafræðum, fyrir ellefu árum og sagði að mesti vaxtarbroddurinn í alþjóðlegri ferðamennsku væri hin svonefnda upplifunarferðamennska undir kjörorðinu "get your hands dirty and feet wet", þ. e. að sækjast eftir skítugum höndum og blautum fótum. 

Skrifað var um þetta í blaðagrein að hér hefði greinilega verið á ferð klikkuð kerlingarskrukka með tómt rugl eins og von væri. Kynjafordómarnir angandi langar leiðir.

Á ferð minni um Írland 1993 fékk ég að vita að á vesturströndinni væri stærsti markhópurinn fólk frá Miðjarðarhafslöndum sem sæktist eftir því að upplifa kalt særokið frá Atlantshafinu, sem ylli því að tré væru blaðlaus þeim megin sem sneri að sjónum. 

Þetta fólk hefði nóg af sólskini og hita heima hjá sér og vildi bæta í upplifunarflóru sína. Ég greindi frá þessu á Stöð tvö þegar ég kom heim og þótti flestum þetta með ólíkindum og að ekki væri ráðlegt að gera út á suðræna "sérvitringa". 


mbl.is Boðið upp á ferðir í hvalaskoðun allt árið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Minn gamli þýskukennari úr MA, Stefán Þorláksson, var um árabil leiðsögumaður þýskra túrhesta (eins og hann nefndi þá) í hringferðum um landið á sumrum. Mér er minnisstætt er hann eitt sinn sagði mér að hann væri steinhættur að fara með hópana í Hallormsstaðarskóg, enda ekki mikil  upplifun fólgin í því fyrir Þjóðverjana. Hins vegar stoppaði hann með hópana á miðjum Hólasandi  þar sem er svartur sandur eins langt og augað eygir. Það fannst Þjóðverjunum undantekningarlítið stórkostlegt.

Magnús Már Magnússon (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband