Rússajeppinn magnaður !

dsc00085_1042429.jpgRússajeppinn sem sló í gegn á Íslandi fyrir rúmri hálfri öld var að mínum dómi best hannaði jeppi síns tíma. Vélin í honum var hins vegar ein sú lélegasta sem þekkst hefur, kraftlaus, eyðslufrek og endingarlítil. Og öxlarnir áttu til að brotna ef settar voru of kraftmiklar vélar í hann.

Fjaðrirnar á Rússanum voru þær mýkstu og bestu sem framleiddar hafa verið. Hann var besti torfærubíllinn á sínum tíma. Öllu þessu hef ég kynnst í akstri 44 ára gamals Rússajeppa, sem ég hef notað við kvikmyndagerð norðan Mývatns.  476476b.jpg

Sigfús Sigurðsson hefur hlotið viðurnefnið Rússajeppinn í handboltanum og á margt sameiginlegt með gamla rússneska jeppanum.

Hann er frá náttúrunnar hendi einhver best "hannaði" varnarmaður handboltans. Einstök blanda af kröftum, afli, stærð og snerpu auk þess sem leikgleðin baráttuandinn, útsjónarsemin baráttuandinn eru ævilega fyrir hendi sem og sá hæfileiki að "lesa leikinn". 

En á leikferli sínum hefur Sigfús orðið að glíma við erfiðleika, sem hann hefur ekki verið að flíka. 

Átökin hafa reynt á hné og ýmsa vöðva og sinar  og meiðsli verið erfið og tíð. Rétt eins og vélin og öxlarnir í Rússajeppanum hefðu mátt vera sterkari hafa verið veikir hlekkir í líkamsbyggingu Sigfúsar. 

Rétt eins og það gladdi mig í fyrrasumar að Rússajeppinn minn við Mývatn heillaði svo þýskt sjónvarpsfólk að það lét hann leika áberandi hlutverk í heimildarmynd, gleður það mig nú að Sigfús Sigurðsson fái tækifæri til að spila úr sínum spilum og heilla aðdáendur handboltaíþróttarinnar. 

Áfram Sigfús! 


mbl.is Sigfús kom, sá og sigraði Minden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rússinn var betur heppnaður sem torfærubíll frá verksmiðjunar hendi en Willýsinn.  Nú verður einhver brjálaður :))

Helgi Schiöth (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 14:49

2 identicon

E-rs staðar las ég, að þessi bíll hefði verið á teikniborðinu hjá Opelverksmiðjunum, þegar Rússar hirtu þær og fóru með heim. Líklega svipað og með fyrsta Mosvítinn sem hingað kom, sem var Opel módel 38 eða þar um bil.

Vigfús Magnússon (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 17:08

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta hef ég hvergi séð og hef þó leitað allra þeirra fanga um GAZ-jeppann, sem hægt hefur verið að finna.

Rússarnir gerðu fyrst eftir stríðið jeppa sem var mjög svipaður Willys-jeppanum og með vélina fyrir aftan framöxul og frekar lágt undir millikassann. 

Það voru liðin nokkur ár frá stríðinu þegar þeir hönnuðu GAZ-69 og stórbættu og gerbyltu hönnuninni. 

Willys jeppinn hafði þann ókost að 15 sentimetrar fyrir aftan hjólskálar framhjólanna nýttust ekki vegna þess hvað vélin var aftarlega. 

Rússarnir færðu vélina upp yfir framöxulinn og fremsti partur fótrýmisins að framan nær 10 sm fram fyrir afturbrún hjólskálarinnar að framan.  

Með þessu græddust 25 sm fyrir aukið farþegarými auk þess sem bíllinn varð framþyngri, en það er kostur á jeppa, sem festist oftast þegar hann fer upp brekku. 

Auk þess settu þeir fjaðrirnar ofan á hásingarnar og hæð undir millikassa var 13 sentimetru hærri en á Willys. 

Bíllin var 20 sm breiðari en Willys og stöðugleikinn því ekki minni. Samt var hann aðeins 1550 kíló. 

Það var ekki fyrr en næstum 20 árum síðar sem Bronkóinn kom fram með svipaða hönnun og eitt bandarískt jeppablað valdi Bronkóinn sem bestu jeppahönnun allra tíma miðað við þann tíma sem hún kom fram. 

Rússinn var betur hannaður, því að farþegarými Bronkósins var heldur aftar en á Rússanum og drifkúlurnar stærri. En kanarnir vissu greinilega ekkert um Rússann. 

Ómar Ragnarsson, 15.11.2010 kl. 23:11

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

GAZ 69 kom fyrst á sjónarsviðið 1953, níu árum eftir stríð. Moskvitsinn var hins vegar Opel Kadett fyrirstríðsbíll, því að Rússarnir tóku verksmiðjurnar og fluttu austur.

Stalín heimtaði að hann yrði með fjórar dyr og fékk sitt fram en það voru alltaf vandræði með styrkleikann og dyrnar af þessum sökum. 

Ómar Ragnarsson, 15.11.2010 kl. 23:15

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið, fernar dyr, ekki fjórar.

Ómar Ragnarsson, 15.11.2010 kl. 23:16

6 Smámynd: Gunnar Waage

haha frábær lesning, ef ég man rétt þá voru þessar vélar oft að bræða úr sér en menn höfðu líka gaman að því að leika sér á rússajeppum, kannski skýrir eytthvað:).Vinur minn Eyþór Gunnarsson og bræður hans áttu 3 rússajeppa minnir mig og náðu þannig að að halda einum gangfærum:). Þeir keyrðu þetta líka eins og óðir menn og mesta fúttið hjá þeim var þegar brotnaði öxull eða eitthvað álíka haha.

Gunnar Waage, 16.11.2010 kl. 04:30

7 identicon

Fúsi er flottur og falleg sál.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 10:50

8 identicon

Hvernig vél er í þessum græna? Félagi minn átti einn svona og var með í honum gamla 283 chevrolet vél, það var víst alveg mögnuð blanda.

Já og Sigfús er magnaður!

Karl (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 14:21

9 Smámynd: Gunnar Waage

Fúsi er frábær.

Gunnar Waage, 16.11.2010 kl. 14:57

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sá græni ætti auðvitað að vera með Volguvél, sem enn er framleidd í Rússíá og er núna komin upp í 105-128 hestöfl.  En í hann var sett það næstbesta, jafngömul Bronkóvél, sem er 85 hestöfl og hæfilega mikið kraftmeiri en Rússavélin án þess að hætta sé á að hún brjóti öxlana.

Ómar Ragnarsson, 16.11.2010 kl. 21:06

11 identicon

Einhver sagði að Rússarnir væru  fínir bílar...sko þegar búið er að skipta um vél og gírkassa,fjarlægja eina legu úr drifunum  (litlu leguna á enda "pinnjónsins") og svo byggja yfir þá.

manni (IP-tala skráð) 17.11.2010 kl. 12:55

12 Smámynd: Handoltafregnir - Allt um handbolta!

Fúsi er alveg æðislegur. Goðsögn

Handoltafregnir - Allt um handbolta!, 17.11.2010 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband