"Kommar" í 6 "vinstri stjórnum" hafa "stutt NATO".

Stundum er sagt að "þögn sé sama og samþykki". Ef fallist er á það er það ekki nýtt að þeir, sem eru yst á vinstri kantinum í íslenskum stjórnmálum "styðji" NATO. Lítum á 54 ára sögu málsins:

 Stjórn Hermanns Jónassonar 1956-58, sem alltaf var kölluð "Vinstri stjórnin", samanber slagorð Sjálfstæðismanna, "aldrei aftur vinstri stjórn!", ætlaði í upphafi að láta varnarliðið fara.

Í mars 1956 samþykkti Alþingi tillögu þessa efnis og þáverandi stjórn sprakk í kjölfarið. Hermann Jónasson sagði fyrir kosningarnar 1956: "Það er betra að vanta brauð..." (...en hafa her í landi) 

Stjórnin heyktist á því. Og aldrei kom til þess að ganga úr NATO, jafnvel ekki þegar NATO-þjóðin Bretar fóru í fyrsta þorskastríðið við okkur 1958.

Stjórn Ólafs Jóhannessonar 1971-74 var líka kölluð "vinstri stjórn" og ætlaði í upphafi að láta varnarliðið fara í áföngum, en heyktist á því eftir undirskrifasöfnunina "Varið land". Aldrei kom til álita hjá þeirri stjórn að ganga úr NATO jafnvel þótt Þorskastríð væri háð við NATO-þjóðina Breta. 

Stjórn Ólafs Jóhannessonar 1978-79 var kölluð og skilgreind sem "vinstri stjórn" en varnarliðið og veran í NATO voru ekki einu sinni til umræðu. Og þögn er sama og samþykki, ekki satt?,

Björn Bjarnason og helstu ráðamenn Sjálfstæðisflokksins skilgreindu stjórn Gunnars Thoroddsens 1980-83 sem "vinstri stjórn" sem nokkrir undanvillingar í flokknum hefðu hjálpað Framsóknarmönnum og Allaböllum til að mynda.

Allaballarnir sögðu ekki múkk um NATO í þeirri stjórn. 

 Stjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991 var skilgreind sem "vinstri stjórn" en um hana gilti hið sama og um stjórn Ólafs Jóhannessonar. 

Stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er því sjötta "vinstri stjórnin" á Íslandi sem gömlu "kommarnir" í Alþýðubandalaginu og síðar í VG "styðja" með því að gera það ekki að úrslitaatriði í stjórnarsamstarfi að Ísland segi sig úr NATO. 

Átti einhver von á því að 54 ára gömul gróin hefð yrði rofin?  Ekki ég. Og ég get ekki ímyndað mér að Björn Bjarnason hafi átt von á því. 


mbl.is Vinstri stjórnin styður NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband