Aftur 1951?

Þegar Ísland gekk í NATO 30. mars 1949 var það gert á þeim forsendum að ekki yrði herlið á Íslandi, heldur yrði treyst á þá yfirlýsingu að árás á eitt NATO-ríki jafngilti árás á þau öll.

Að baki lá einnig það mat að flotar Bandaríkjamanna og Breta hefðu yfirburði yfir Sovétflotann á Norður-Atlantshafi og Bandaríkjamenn væru einnig með þjónustuaðstöðu á Keflavikurflugvelli í samræmi við Keflavíkursamninginn frá 1947. 

En Kóreustríðið sem hófst sumarið 1950 jók mjög ótta manna við allsherjar stríð milli Vesturveldanna og Kommúnistaríkjanna, einkum eftir að Kínverjar drógust inn í stríðið í árslok 1950. 

Þegar þar að auki kom fram ákafi Douglas McArthurs yfirhershöfðinga á að gera innrás í Kína og beita kjarnorkuvopnum var ljóst að hættan á heimsstyrjöld var veruleg. 

Bandaríkjamenn gáfu út þá yfirlýsingu að ekki væri útilokað að þeir beittu kjarnorkuvopnum sem neyðarúrræði og drógu þessa yfirlýsingu aldrei til baka. 

1949 höfðu Sovétmenn sprengt fyrstu kjarnorkusprengju sína og því var hætta á kjarnorkustyrjöld. 

Það á eftir að rannsaka hvenær Bandaríkjamenn hófu að þrýsta af alvöru á íslensk stjórnvöld um að senda herlið til Íslands en kannski hófst það um þetta leyti þegar stríðshættan var mest. 

Hafi þessi ætlan farið á flot þá hefði þurft eitthvað mikið til að draga hana til baka. 

Að minnsta kosti virðist sú ákvörðun Trumans Bandaríkjaforseta að reka McArtur ekki hafa verið nóg til þess að talið væri nægilega friðvænlegt í heiminum til að draga úr viðbúnaði. 

Einnig kemur til greina að Bandaríkjamenn hafi aldrei verið sáttir við herleysi Íslands og beðið eftir að bitastæð ástæða yrði til að koma hér upp herstöð. 

Kóreustríðið stóð í tvö ár eftir þetta þrátt fyrir umleitanir til friðarsamninga og ollu því djúpstæð tortryggni og vantraust sem ríkti á milli stríðsaðila.

Þetta smitaði út frá sér og því var mjög ótryggt ástand í heimsmálum á þessum tíma, svo ótryggt, að  þingmenn þriggja af fjórum þingflokkum á Íslandi, töldu rétt að samþykkja á laun að gera varnarsamning við Bandaríkin áður en herlið kæmi hingað. 

Í rökstuðningi ríkisstjórnarinnar fyrir þessu sagði að þegar stríðshætta ríkti væri líiklegra að hugsanlegur óvinur réðist frekar á garðinn þar sem hann væri lægstur en þar sem hann væri hæstur. 

Þegar litið er yfir samskipti Íslands og Bandaríkjanna síðan 1945 sést glögglega að bandarískir öryggis- og hernaðarhagsmunir réðu í raun ferðinni í öllum meginatriðum allan þennan tíma, allt frá beiðni um þrjár herstöðvar til 99 ára 1945 til brottfarar varnarliðsins 2006.

Nú er spurningin sú, að komi það upp að setja verði upp gagneldflaugavarnarkerfi, verði sagt svipað og 1951 að árás hugsanlegs óvinar sé líklegri þar sem garðurinn sé lægstur en þar sem hann er hæstur. 

Þetta er að sjálfsögðu háð hernaðartæknilegum atriðum eins og þeim hvort hægt sé að mynda varnarskjöld yfir Íslandi með notkun gagneldflaugakerfa í öðrum löndum. 

Spurningin er einnig hvort hugsanlegur óvinur telji það nokkurn akk fyrir sig að ráðast eingöngu á litla og fámenna eyju norður í höfum og uppskera allsherjarstríð í staðinn. 

Þótt Kalda stríðinu sé lokið verður seint friðvænlegt í heiminum. Nýjar aðstæður geta skapast sem hafa áhrif á stöðu einstakra þjóða. 

Áríðandi er að við Íslendingar fylgjumst vel með og öflum okkur þekkingar sem nýtast megi til að spila sem best úr okkar spilum sem herlaus þjóð sem vill viðhalda friði og öryggi. 

 


mbl.is Skotpallar á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband