22.11.2010 | 20:52
Framboð 9365: Dæmi um sjálfbæra þróun.
Það var gaman að koma í útvarpshúsið í gær og hitta hóp af hressum frambjóðendum til Stjórnlagaþings.
Ýmislegt bar á góma og í viðtali við einn þeirra barst talið að hugtakinu "sjálfbær þróun", en það hugtak var nefnt í tilmælum Þjóðfundarins á dögunum.
Ég hef áður nefnt að hugtakið hljóði svona: ( en orðið þróun táknar starfsemi, nýtingu, aðgerðir eða framkvæmdir) : "Sjálfbær þróun er þróun, sem ekki kemur í veg fyrir möguleika komandi kynslóða á að velja sér þróun."
Með öðrum orðum er um að ræða hvort þróunin sé afturkræf eða ekki og þetta hugtak er orðið til vegna þess að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem þetta mál snertir, er ófæddur, og það þarf því að huga að jafnrétti kynslóðanna sem mannréttindamáli hinna óbornu milljóna í komandi stjórnarskrá líkt og gert er í mörgum öðrum löndum.
Viðmælandi minn stóð í þeirri trú að þetta sjálfbærnistal væri firra því að allt frá 1850 hefðu menn aðhafst ýmsa hluti hér á landi sem snerti hagsmuni komandi kynslóða. Nefndi hann sem dæmi að Elliðavatn væri manngert vatn.
Þetta er reyndar ekki rétt, heldur er hið rétta, að Elliðavatn var hækkað og stækkað með lágri stíflu við vatnið og virkjun Elliðaánna. Árnar eru hreinar og tærar og engin setmyndun í Elliðavatni eða lóni neðar í farveginum.
Hvenær sem er getur kynlóð ákveðið að leggja Elliðaárvirkjun niður, rífa stíflurnar og færa allt í sama horf og var við landnám. Virkjunin er semsagt afturkræf, sjálfbær og skapar endurnýjanlega orku.
Sama er að segja um Sogsvirkjanirnar nema hugsanlega þá efstu hvað varðar urriðann í Þingvallavatni, sem vafi leikur á hvort hægt sé að efla á ný til fyrri stærðar.
Annað er hins vegar uppi á teningnum skammt vestan við Elliðavatn þar sem Rauðhólarnir voru teknir í malaruppfyllingu undir mannvirki í Reykjavík. Þetta var algerlega óafturkræf framkvæmd og ósjálfbær þróun, því að engin leið er að framkalla Rauðhólana aftur.
Rauðhólarnir áttu enga svona stóra hliðstæðu hér á landi nema við Mývatn og það hefði verið hægt að taka mölina annarsstaðar.
Við jarðvarmavirkjanir á Reykjanesskaga er miðað við að þær endist að meðaltali í 50 ár en þá muni jarðhitasvæðin kólna og ekki ná sér aftur fyrr en eftir að minnsta kosti öld þaðan í frá.
Með slíkum virkjunum er á óafturkræfan hátt tekið valfrelsi af nokkrum kynsóðum að minnsta kosti hvað snertir orkuöflun, því að þessir afkomendur okkar munu standa frammi fyrir því að afla orku annars staðar í staðinn og þá kannski á miklu merkilegri svæðum hvað náttúruverðmæti snertir.
Viðmælandi minn lagði líka stórvirkjanir í jökulfljótum að jöfnu við Elliðaárnar hvað sjálfbærni varðar, en það er algerlega fráleitt og sýnir að hann hefur ekki hugleitt þessi mál.
Með Kárahnjúkavirkjun verður 25 kílómetra og 180 metra djúpur 57 ferkílómetra dalur fylltur upp með jökulauri og er þessi aðgerð því gersamlega óafturkræf, auk þess sem svona virkjun gefur ekki endurnýjanlega orku eftir að miðlunarlónið er orðið fullt og ónýtt. Kárahnjúkavirkjun getur ekki talist sjálfbær þróun samanber skilgreininguna hér að ofan.
Sultartangalón mun fyllast á nokkrum áratugum og verða ónýtt til miðlunar.
Langisjór, fegursta fjallavatn landsins, mun líka fyllast upp á svipaðan hátt með Skaftárveitu.
Fleiri dæmi má nefna um ósjálfbæra þróun og miðað við það að nánast allir sem ég spyr, vita ekki hvað sjálfbær þróun er, er mikið verk óunnið í menntamálum og upplýsingagjöf hér á landi hvað þetta varðar.
Talað var við nærri 500 frambjóðendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sjálfbær þróun er fyrir mig að geta flutt úr landi og ekki koma aftur!
Eyjólfur Jónsson, 22.11.2010 kl. 21:01
ja, Ómar:
"Við jarðvarmavirkjanir á Reykjanesskaga er miðað við að þær endist að meðaltali í 50 ár en þá muni jarðhitasvæðin kólna og ekki ná sér aftur fyrr en eftir að minnsta kosti öld þaðan í frá. "
Það er nú eftir því hversu djúpt er farið, og svo munu þær kólna í rólegheitunum hvort eð er. Ná ær sér aftur? Er þetta hita-útjöfnun eða er verið að tappa rétt ofan afhellings orku? Það er enginn smá hiti ennþá í mörghundruðmetra þykkum hraunhlunki, þó hann kunni að vera1000 ára gamall eða meir.
Ekki hef ég áhyggjur af því að kólnun molans sé breytt í raforku. Er að mínu mati allgott, nema að maður hefur áhyggjur að öllu þessu jullimukki sem kemur í gufuformi þarna upp úr. Bölvuð pest og fullt af alls konar gasi.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 22.11.2010 kl. 21:26
Já, nema Eyjólfur hressist!
Ómar Ragnarsson, 22.11.2010 kl. 21:28
Á bak við skynsamlega orkunotkun jarðvarmasvæða getur legið rannsóknarvinna og reynsla okkar bestu manna í 40 ár, allt frá því Guðmundur Pálmason setti fram ákveðna formúlu fyrir slíkri nýtingu til rannsókna og ályktana Braga Árnasonar, Jóhannesar Zoega, Sveinbjörns Björnssonar, Stefáns Arnórssonar, Guðna Axelssonar og annarra helstu sérfræðinga okkar á þessu sviði.
Þegar er þegar fengin reynsla af því hvernig jarðvarmasvæði í Reykjavík og í Mosfellsbæ hafa verið tæmd á ótrúlega skömmum tíma og sérfróðustu menn um þessi efni hafa á þeim grundvelli og rannsókna sett fram þær kenningar sem ég hef verið að lýsa.
Niðurstaðan er einföld: Það eyðist sem af er tekið.
Ómar Ragnarsson, 23.11.2010 kl. 00:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.