Biðlað til Lilju?

Lilja Mósesdóttir vakti fyrst athygli á fyrsta eða öðrum borgarafundinum í Iðnó, en þeir fundir voru liður í aðdraganda Búsáhaldabyltingarinnar.

Þar varaði hún eindregið gegn því að leitað yrði til AGS og hefur haldið sig við það síðan. Á þessum tíma var nafnið Lilja Mósesdóttir eitt af nýju nöfnunum, sem fólk tengdi eðlilega við "byltinguna" en ekki einhvern af fjórflokkunum. 

Þessar vikur sýndist því líklegast að ef hún færi í framboð yrði það fyrir þá hreyfingu, sem þá var í mótun og tók loks á sig mynd Borgarahreyfingarinnar. 

Kannski hefði hún gert það ef gengið hefði betur að koma þeirri hreyfingu á koppinn, en á ákveðnum tímapunkti orðið að velja á milli tveggja kosta: Að leita eftir framboði fyrir VG áður en það yrði of seint eða að bíða í óvissu eftir því hvort tækist að koma á fót framboði Borgarahreyfinginarinnar. 

Ef þetta snerist um það að taka þann kost sem var líklegri til að skila henni áfram, er skiljanlegt að hún veldi VG. 

Þráinn Bertelsson ákvað að fara fram og reyndi í tíma fyrir sér hjá Framsóknarflokknum en eftir slakt gengi þar stökk hann um borð hjá Borgarahreyfingunni. 

Það hjálpaði til við ákvörðun Lilju að um þessar mundir mæltu Steingrímur J. Sigfússon og fleiri í VG á móti því að leitað yrði til AGS en síðar sneri Steingrímur við blaðinu og sagðist skipta um skoðun við nánari athugun.

Lilja hefur hins vegar haldið sínu striki, - samþykkti þó að styðja ríkisstjórn sem gekk til samvinnu við AGS, - en heldur þó til streitu andófinu gegn samvinnunni við AGS. 

Af vinsamlegum ummælum Þórs Saari í hennar garð má ráða að Hreyfingin sé að biðla til Lilju um að hafa vistaskipti. 

Myndi í því felast að hafa skipti "á sléttu" ef svo má að orði komast, með því að fá Lilju frá VG yfir í Hreyfinguna í stað Þráins Bertelssonar. 

Það sem helst gæti hamlað vistaskiptum Lilju er það að hana ói við þeim kosti, sem myndi blasa við ef stjórnin veiklast of mikið, - að það gæti kallað fram ríkisstjórn með annað yfirbragð en "vinstri stjórn." 


mbl.is „VG gera allt til að losna við Lilju“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar það er einn mikilvægur þáttur sem þú nefnir ekki í þessu innleggi þínu, en það er að Lilja hefur verið sannfærð um að hagfræðileg vandamál sé hægt að leysa með hagfræðilegri þekkingu. Þessu hafa þau Jóhanna og Steingrímur verið ósammála. Þau halda að þekking á trúarlegum  kennileitum úr fyrrum austurblokkar kommúnisma sé helsta haldreipi okkar. Bæði Jóhanna og Steingrímur hafa reint að kúa Lilju til hlýðni og hóta henni, en sjálfsvirðing Lilju er það mikil að slíkt hefur ekkert upp á sig.

Hún mun yfirgefa þennan ófögnuð. Það gerir hún með því að nota skynsemina. Munu aðrir aðilar innan þings og utan fara í kjölfarið?

Sigurður Þorsteinsson, 21.12.2010 kl. 22:05

2 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Svo má líka sjá á þessu að Steingrímur og Jóhanna hafa ekkert vit á fjármálum. Þau vilja heldur ekki treysta alvöru hagfræðingum...

Ólafur Björn Ólafsson, 21.12.2010 kl. 23:01

3 identicon

Ætli þetta sé ekki bara sönnunin staðhæfingu stærðfræðingsins Einars Steingrímssonar hélt fram í Silfri Eigils fyrir nokkrum mánuðum um að Ísland sé andverðleika-samfélag þar sem verðleika-fólki með reynslu, þekkingu og getu er bolað frá í stjórnmálum því það er ógn fólksins í pólitík sem hefur sleikt sér áfram þar á litlum eða engum verðleikum. Viðtalið sem er á youtube er hægt að sjá hér:

http://www.youtube.com/watch?v=IQIekKha-Rk

Atli (IP-tala skráð) 21.12.2010 kl. 23:26

4 identicon

Sæll Ómar.

Hluti af stefnuskrá þeirri sem Þráinn Bertelsson var kosinn út á segir meðal annars:

"Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. AGS fái ekki að ráða ferðinni með stöðu ríkissjóðs".

Og nú styður hann þessa ríkisstjórn sem eltir AGS í einu og öllu. Og er að rústa velferðarkerfinu. Og vildi að þjóðin borgaði skuldir glæpamannana, sem stofnuðu Ícesafe, með vöxtum og vaxtavöxtum.

Enda sýnist mér, einum af þeim sem Þráinn fékk atkvæði persónulega frá vegna búsetu í kjördæmi hanns, að hann sé vel að því kominn að daga uppi í flokki sem hefur svikið sína stefnuskrá sverar en allir aðrir flokkar í mínum minnum. Flokki sem ekkert er eftir í nema steingrímsarminn og galtóm tunna pólitískra svika og brotinna loforða. Og farið hefur fé fegra.

Lilja hinsvegar er sjálfum sér samkvæm og stefnu þeirri sem hún lofaði með VG.

Þannig að ef VG hreinsar ekki rækilega út og snýr sér aftur á réttan kjöl, gagnvart kjósendum sínum, er henni ásamt fleyrum sem hafa fengið nóg af Dabbalegum stjórnartilburðum Steingríms. Væntanlega ekki til setunnar boðið.

Og þá er Hreyfingin sannarlega vænni kostur en restin af 4flokknum.

Annars væri gaman að heira þitt álit á samstarfi AGS og stjórnar. Ásamt restinni af andvana fæddum tilburðum Jóhönnu og Steingríms til að stjórna.

Því ekki kæmi það mér að óvörum að stefnuskrá Hreyfingarinnar og vinna þeirra á þingi hingað til, félli þér ekki verr en 4flokksinns.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 21.12.2010 kl. 23:27

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það að Lilja studdi stjórnarsáttmálann í verki með því að skilgreina sig sem stjórnarþingmann, sem verði stjórnina vantrausti, sýnir að á þeim tíma hlýtur hún að hafa séð að ekki var hægt eins og á stóð annað en að framkvæma aðgerðir, sem hvort eð er hefði orðið að fara í, þótt AGS hefði ekki komið til.

Þær þjóðir sem þá lánuðu okkur fé, gerðu samstarf við AGS að skilyrði. Við áttum í raun engra annarra kosta völ og hefðum átt að gera okkur strax grein fyrir því.

Það er rétt að AGS hefur ekki góða fortíð, hafði staðið sig illa gagnvart þjóðum á marga lund, en í okkar tilfelli gekk þetta skár, því að bæði höfðu sérfræðingar AGS lært eitthvað á mistökum sínum og einnig var hér í landi fyrir hendi þekkingarþjóðfélag með ágæta og nýtískulega inniviði, að ekki sé minnst á það að í Hruninu kom fram sá eiginleiki Íslendinga að duga best þegar mest á reyndi og reyna að bjarga því sem bjargað yrði  þegar allt var komið í hönk.

Auðvitað hafa verið gerð ýmis mistök í þessum darraðardansi og margt orkar tvímælis, en þetta hefði getað farið miklu verr. 

Ómar Ragnarsson, 22.12.2010 kl. 01:05

6 identicon

Þetta minnir um margt á eineltið gegn Vilmundi Gylfasyni. Hann sagði þjóðinni satt. Stjórnlagaþing mun m.a. byggja á boðskap hans. Lilja er sérfróð um viðbrögð í kreppu. Það er ekki heilbrigð skynsemi að standa fastur á breimsunum þegar farkosturinn er að fljúga út af í hálku. Það gerir stjórnin samt! Það góða er, að ef þrenningin fer í jólaköttinn, þá fer Jógríma fyrir pólitískan ætternisstapa - í bremsu!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 01:38

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Takk fyrir ágætan pistil sem ekkert er annað en gott um að segja.

En í innslagi þínu hér að ofan kemur fram þín sterka meinloka um nauðsyn aðgerða AGS, sem þú hefur vissulega rétt á að hafa.  Þú gerir það upp við þína samvisku að hafa eytt afrakstri ævistarfs þíns í viðleitni til að fá þjóð þína til að skilja auðlegð sína, en hafa ekki haft ístað til að standa á móti AGS.  Skuldsetning sjóðsins vegna ICESave og krónubréfanna mun hafa örugglega eina afleiðingu, sem er núverandi stefna þessarar ríkisstjórnar, að virkja hverja virkjanlega sprænu á landinu, kannski hugsanlega að Hvítá undanskilinni.  Og við verðum ekki spurð álits, því Landsvirkjun mun verða það fyrsta sem verður tekið upp í pant.

Skoðanir erum öllum heimilt að hafa nafni, en þú átt ekki að gera Lilju upp skoðanir, og heimsku.  Þú segir "hlýtur hún að hafa séð að ekki var hægt eins og á stóð annað en að framkvæma aðgerðir, sem hvort eð er hefði orðið að fara í, þótt AGS hefði ekki komið til.  Þær þjóðir sem þá lánuðu okkur fé, gerðu samstarf við AGS að skilyrði. Við áttum í raun engra annarra kosta völ og hefðum átt að gera okkur strax grein fyrir því."

Lilja sá annað og rökstuddi það.  Þegar leitað var til AGS þá var hún spurð af Fréttablaðinu hvað hún legði til.  Hún kom með nokkrar mótaðar hugmyndir, þar sem tvennt var í kjarna.  Hún lagði til aðgerðir mjög svipaðar þeim sem Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna hefur beitt sér fyrir í Bandaríkjunum, það er að nota eftirspurnaraðgerðir til að hindra stöðvun framleiðsluþátta.  Ben er einn virtasti hagfræðingur heims í kreppustjórnun, og fékk embætti sitt út á þá þekkingu.  

Og Lilja lagði til skattlagningu krónuútstreymis, leið sem Chilebúar fóru eftir að þeir ráku AGS úr landi, og Malasiubúar, ein þjóða í Suðaustur Asíu kreppunni fór.  Malasia kom best út úr þeirri kreppu, með minnstu hörmungum fyrir almenning og innlent athafnalíf.  Þessi leið er núna farin í allflestum löndum Suður Ameríku og Suð Austur Asíu, menn lærðu af sögunni.

Hugmyndir Lilju sem hún sótti til helstu hugsuða hagfræðiheimsins, og úr reynslubrunni sögunnar, þar sem víti Argentínu var öllum þekkt, þó ekki hér á Íslandi, voru ekki farnar, heldur AGS leiðin.  Við fengum vissulega aðlögun í 2 ár áður en gripið yrði til samdráttaraðgerða, Lettar sem fengu þær beint í æð að skipun Evrópusambandsins fá þessa umsögn hjá Paul Krugman, hagfræðinóbel.  "A few more such successes and Latvia will have no economy at all".  Tilefni þessara ummæla var orð Matthew Yglesias hjá framkvæmdarstjórn ESB um að Lettar hefðu náð árangri.  Þeir eru búnir að missa 25% af þjóðarframleiðslu sinni, heilbrigðiskerfið er hrunið og ellilífeyrisþegar svelta.

Þetta er ekki reyndin hér vegna þess að við fengum 2 ár í skynsemi eftirspurnaraðgerða, einmitt þeirra sem Lilja benti á á sínum tíma.  En á því er einföld skýring, á þeim tíma átti að láta þjóðina taka á sig drápsklyfjar ICEsave, ásamt því að samþykkja að borga krónubréfeigendum út með gulli.

Þjóðin, ekki þú og aðrir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, hafnaði ICEsave, ef það hefði ekki gengið eftir, þá hefðu 60 milljarðar í viðbót komið til niðurskurðar á þessu ári.  

Hvernig hefði staðan þá verið nafni??  

Er það þín trú að ekki sé hægt að vinna bug á efnahagskreppum án þess að svelta fólk og eyðileggja velferð þess????

Lilja trúir því ekki.  Hún var líka alin upp af heiðarlegu verkafólki og þekkir kjör þess.

Hún má hafa þá trú án þess að henni sé núin vanþekking um nasir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.12.2010 kl. 09:20

8 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Lilja vildi taka upp sumar af hugmyndum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar - enda skilst mér að konan sé mjög fær í fræðunum.

Meinið er að ríkisstjórnin er alltaf að bíða eftir svari við því hvert sé Íslandsmetið í golfi.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 22.12.2010 kl. 09:45

9 identicon

Sæll Ómar.

Hvurnig var það.

Varst þú ekki sjálfur viðriðin Þjóðvaka á sínum tíma?

Varla ertu sammála þáverandi flokksystur þinni Jóhönnu nú um að þeir sem hafi menntað sig séu í raun vitleysingar?

Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 10:21

10 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Vinnubrögð Lilju og hugsjónir hennar eru til fyrirmyndar, og ekki byggðar á pólitísku valdapoti eins og víða má sjá og ekki síst í röðum annarra stjórnarliða.

Þær hugmyndir sem hún hefur komið fram með eru byggðar á reynslu annara þjóða, menntun hennar og hugviti virtra hagfræðinga, en nei Steingrímur og Jóhanna neita að hlusta á svoleiðis lagað, hún er í þeirra augum bara nýliði á þingi, en þau reynsluboltarnir, ekki furða að þessum hroka þeirra fylgi árekstrar, árekstrar sem ég tel að eigi eftir að marka endlok þeirra í pólitíkinni.

Steinar Immanúel Sörensson, 22.12.2010 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband