Hin fullkomna jólaumgerð Akureyrar.

Ég brá út af vananum og var á Akureyri nú síðdegis á Þorláksmessu í stað þess að vera í Reykjavík.

Skaust hingað norður á litla Cuore-bílnum sem er með númerið A-467 og passaði því alveg í jólaumhverfið hér, enda rauður að lit.

Erindin var að árita diskana mína í Eymundsson á Akureyri og klára þá.

Hér á Akureyri er hin fullkomna jólaumgerð, drjúgur snjór sem skreytir hverja einustu trjágrein, ekki sami saltpækillinn og er á götunum fyrir sunnan svo allt veðst út, og stillilogn og frost.

Eftir áritun er ekki amalegt að fá sér smá snarl hér á horninu á móti KEA í Te og kaffi og blogga í kveðjuskyni við bestu aðstæður til þess arna sem ég hef kynnst á landinu.

Vippa sér síðan aðeins út til að ganga smáspöl með Friðargöngunni.

En þrátt fyrir þetta allt verður þessi Akureyrardvöl á Þorláksmessu undantekning.

Þeysisprettur dagsins hefur það í för með sér að þetta verður fyrsta Þorláksmessan, sem ég minnist þess að hafa ekki étið skötu.

Það er náttúrulega höfuðsynd hjá manni sem er giftur vestfirskri konu á á með henni vestfirsk börn.

Ó, Helga mín, ég er er bruna af stað suður og þrátt fyrir jólatöfra Akureyrar verð ég aldrei aftur annars staðar en í Reykjavík á þessum degi, nema þá að ég sé með þér.

Á leiðinni suður söngla ég við stýrið: "I´m coming home for Christmas!"


mbl.is Margir í friðargöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert óborganlegur.

Reynir (IP-tala skráð) 23.12.2010 kl. 21:38

2 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Það er líka soðin skata á Akureyri.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 24.12.2010 kl. 01:17

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Flýttu þér hægt á heimleiðinni, kall. Þú vonandi veist að viðbragðinu seinkar með aldrinum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.12.2010 kl. 01:35

4 identicon

Einhvern veginn skildist mér að þú hefðir farið í þyrlu

Sjálfur át ég skötu í Fljótshlíðinni, enda gengur hún upp Þverá síðan gosefnin breyttu satúreríngunni í ánni. Lítið mál að kæsa hana á árbakkanum, bara hafa lok á karinu svo að hrafninn taki hana ekki.

Að öllu gríni slepptu, hafðu nú góð jól Ómar og passaðu upp á Helgu. Hin FRÚ-in er á sínum stað og hefur ekkert dinglað, en ég er á leið til hennar til að kíkja aðeins. Það var svolítill hvellur hér í morgun. Læt þig vita af framvindunni hér svo að ég þurfi ekki að trufla í síma, en önugur verð ég ekki ef þú þarft að hringja.

Jón Logi (IP-tala skráð) 24.12.2010 kl. 11:18

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það ar enginn tími til að éta skötu á Akureyri. Hafðu ekki áhyggjur af viðbragðinu, Gunnar.

Var rétt rúma fjóra tíma brúttó suður og úthald og snerpa í góðu lagi. 

Í hitteðfyrra fékk ég gott tækifæri til að athuga viðrögðin þegar ég þurfti að fara í hraða "rall"keyrslu um Fjallabaksleið og síðan upp í Lakagíga og til baka aftur.

Stunda auk þess "stigahlaup" í Útvarpshúsinu á kvöldin sem felst í því að "læðast hratt" upp stigana (bannað að hlaupa að læknisráði vegna slitinna hnjáliða) og fara frá kjallara upp á fimmtu hæð á innan við 30 sekúndum, - síðan í lyftunni niður, - (hnén þola ekki hraða göngu niður) - og síðan aftur upp, alls fjórum sinnum. 

Þetta samsvarar að fara upp 22 hæðir í íbúðaháhýsi á 2 mínútum. 

Aðeins fjögur ár eru síðan ég gat hlaupið upp á 14. hæð í háhýsi á innan við mínútu og skeiðað 100 metrana á innan við 15. sekúndum, en þá byrjuðu slitnir hnjáliðir að gefa sig og ég hef orðið að leita nýrra leiða til að halda þrekinu.

Ómar Ragnarsson, 25.12.2010 kl. 02:32

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú ert magnaður, Ómar. Það verður ekki af þér skafið  

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.12.2010 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband