17.1.2011 | 15:11
Eins og að snúa 320 þúsund manna farþegaskipi.
KK hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að það væri eins og að snúa risastóru 320 þúsund manna farþegaskipi að breyta stefnu Íslendinga í orkumálunum.
Það sem er spennandi við þessa kenningu er það, að það var byrjað að rífa í stýrið á skipinu fyrir mörgum árum og því er það spurningin hvort það fari núna loksins virkilega að byrja að beygja.
Við, sem viljum að þjóðin hætti að hugsa alltaf um núið og næsta dag en fari að hugsa nokkrar kynslóðir fram í tímann, erum stundum spurð, af hverju við séum að standa í þessari baráttu, sem er búin að virðast svo vonlaus fram að þessu.
Svar okkar hlýtur að vera að fyrst við viljum að aðrir hugsi langt fram í tímann, eigum við að hugsa svona líka sjálf og halda áfram baráttunni, jafnvel þótt hún beri engan árangur fyrr en eftir okkar dag þegar við höfum fært komandi kynslóðum fordæmi fyrir því að gefast aldrei upp í baráttu fyrir hugsjónum sem maður trúir á.
Persónulega hef ég sætt mig við að myndin sem ég hef verið að taka um drekkingu Hjalladals vegna Kárahnjúkavirkjunar verði ekki sýnd fyrr en eftir minn dag.
Ég hugga mig hins vegar við það að efnið, sem búið er að taka í þessa mynd, er algerlega óviðjafnanlegt og að aldrei verður hægt að taka kvikmynd af neinu þvílíku.
Þegar myndin verður loksins sýnd, mun þjóðin loksins fá að sjá, hvað við gerðum í raun og veru.
Stundum gerist það, sem maður hefur barist fyrir, óvænt. Ég átti aldrei von á því að lifa þann dag þegar settur yrði á fót dagur íslenskrar náttúru, hafði ekki einu sinni látið mér detta í hug að slíkur dagur yrði til hér á landi á svipuðum nótum og dagur íslenskrar tungu.
Svo gerðist það bara allt í einu fyrir tilverknað algerlega óþekkts alþýðumans úti í bæ og þá sér maður allt í einu hve mjög það lýsti hugsunarhætti þjóðarinnar að hafa verið með dag íslenskrar tungu árum saman en ekki dag íslenskrar náttúru, sem er enn merkilegri og einstæðari en tungan.
![]() |
Kerfið þvælist fyrir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þökkum forsjóninni fyrir að þú skulir yfirleitt vera til, Ómar! - Sem stendur hefur sá sem þetta ritar einna mestar áhyggjur af því að þegar að því kemur innan skamms að okkur vantar orku til að knýja þær samgöngur sem nauðsynlegar eru fyrir okkur hér á landi - þótt einkabílisminn verði kannski að láta í minni pokann - þá verði búið að ráðstafa öllum okkar skárstu virkjunarkostum í álframleiðslu.
Bergur (IP-tala skráð) 17.1.2011 kl. 15:25
Vertu ekki svartsýnn gamli. Um að gera að rubba þessari mynd af. Og standa í hinu tuskinu meðfram. Styð þig eins og ég get.
Jón Logi (IP-tala skráð) 17.1.2011 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.