20.1.2011 | 09:57
Hverju er þetta "að kenna"?
Í samræmi við þá stóriðjustefnu sem ríkt hefur sem ríkistrú í hartnær hálfa öld á Íslandi er nú talað um að það verði "umhverfisöfgamönnum" og "andstæðingum atvinnuuppbyggingar" að "kenna" ef ekki verður af álveri á Bakka.
Þessum mönnum sé það "að kenna" að milljarða undirbúningur sé ónýtur og allt í kalda koli á Norðausturlandi.
Raunar er Norðausturland eini landsbyggðarhlutinn þar sem fólki fjölgar þótt ekkert sé þar álverið.
Ég held að áltrúarmenn ættu að líta í eigin barm. Áltrúin hefur nefnilega byggst á því trixi sem notað var í Helguvík að skjóta fyrst og spyrja svo.
Það er flókið ferli, sem er undanfari að því að álver í fullri lágmarksstærð, 340 þúsund tonn á ári, rísi.
Í Helguvík þurfti mikið samningaferli við tólf sveitarfélög, sem mannvirkin verða í, auk samninga á milli orkuseljenda og orkukaupenda og mats á umhverfisáhrifum ýmissa þátta verkefnisins.
Þar var farin sú leið að leita að einhverju því atriði sem hægt væri að semja strax um, án þess að klára hin. Á grundvelli þessa var síðan rokið í að byrja á byggingu kerskála og lofa orku án þess að hafa fengið til þess leyfi eða hugað að því hvort orkan entist til frambúðar eða væri yfirleitt nóg.
Að sjálfsögðu var og er allan tímann aðeins rætt um fyrsta áfanga álversins þótt fyrir liggi að forsenda þess sé að það verði að minnsta kosti 340-360 þúsund tonn.
Allt byggist þetta á því að "redda" orkunni síðar meir fyrir síðari áfanga álversins og vaða þá um víðan völl, jafnvel langt út fyrir þau svæði sem látið er í veðri vaka að eigi að duga.
Sömu aðferð var beitt fyrir austan á sínum tíma, fyrst eytt milljörðum í að undirbúa Fljótsdalsvirkjun fyrir 120 þúsund tonna álver, en síðan komið í bakið á öllum með því að segja að fjórfalt stærra álver væri lágmarksstærð.
Þetta svínvirkaði og niðurstaðan varð fjórfalt stærri virkjun með margfalt meiri óafturkræfum umhverfisspjöllum.
Sömu aðferð átti að nota varðandi álver á Bakka. Gerðir samningar með miklum fagnaðarlátum, sem þáverandi fréttamaður Sjónvarpsins nyrðra stjórnaði í eftirminnilegri útsendingu.
Meta átti hvert einstakt atriði orkuöflunarinnar sér en ekki heildstætt þannig að aldrei fengist nein yfirsýn yfir viðfangsefnið.
Þeir sem eitthvað höfðu við þetta að athuga urðu sjálfkrafa "óvinir Norðausturlands." Þórunni Sveinbjarnardóttur voru ekki vandaðar kveðjurnar þegar hún vildi láta skoða heildina í staðinn fyrir einstaka hluta.
Þegar ég benti á það á sínum tíma að álver á Bakka yrði að lágmarki að verða 340 þúsund tonn var ég atyrtur fyrir "öfgar" og "staðlausa stafi."
Ári síðar kom síðan staðfesting á orðum mínum frá Alcoa og einnig frá Norðuráli.
Þeir sem óðu af stað með álver á Bakka sem eina valkostinn í nýtingu jarðvarma á Norðausturlandi gerðu það af fullkomnu ábyrgðarleysi varðandi orkuöflun.
Blekkingin um að þetta yrði "hóflega stórt" álver en ekki risaálver byggðist á óheilindum í trausti þess að þegar menn stæðu frammi fyrir gerðum hlut og ekki yrði aftur snúið eftir að fariði yrði af stað.
Ef orku skorti yrði henni samt reddað einhvern veginn, til dæmis úr jökulám Norðurlands.
Nú síðast var það talið vera trygging fyrir álverinu að til væri nóg orka fyrir fyrsta áfanga þess. Sem reyndist þó ekki vera þegar nánar var rýnt í málið.
Vegna þessarar stefnu hefur öðrum hugsanlegum smærri og hagfelldari orkukaupendum í raun verið bægt frá af því að öllum hefur mátt vera ljóst að Alcoa eigi að fá allt og meira en það.
Áltrúarmönnum væri hollt að fara yfir atburðarásina og átta sig á því hverjum það er raunverulega "að kenna" ef ekki rís álver á Bakka.
Nýmótuð orkustefna stýrihóps um það efni er áfellisdómur yfir stóriðjustefnunni, sem því miður var keyrð hér áfram allt of lengi.
Alcoa sagt ætla að draga sig í hlé á Bakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk, Ómar fyrir þennan pistil. Það er tími kominn til þess að þjóðin átti sig á staðreyndunum varðandi stóriðju.
Úrsúla Jünemann, 20.1.2011 kl. 10:32
Álsinnar munu aldrei taka rökum. En þessar fréttir um að Alcoa hafi gefist upp eru bestu fréttir sem Íslendingum hafa verið sagðar í marga mánuði.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 20.1.2011 kl. 10:41
Það stoðar lítt að vera með upphrópanir. Það skaffar ekki vinnu. Rétt til að halda því til haga, þá eru þeir sem vinna að atvinnuuppbyggingu að skoða öll atvinnutækifæri og þar með talið stóryðja, ekki endilega að byggja álver. Það eru engin trúarbrögð í álinu, engöngu það, að í þeim geira viðrast menn vera "sveltir" og því fljótari en aðrir að skoða alla möguleika þegar orka er annarsvegar.
Menn ættu aðeins að stíga létt til jarðar í öllum fullyrðingum og líta sem snöggvast til vestfarða þar sem fólki fækkar jafnt og þétt. Í guðana bænum komið samt ekki enn eina ferðina með milljónirnar sem fóru í framkvæmdir fyrir austan, þær komu erlendis frá og voru eyrnarmerkt í það verkefni, bæði álver og virkjanir. Það þarf að sannfæra aðra fjárfesta um að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum, þar verðum við öll að vinna saman, - öfgalaust.
Hvað varðar Gjástykki.
Sé ekki hvað er að því að kanna svæðið því það hlýtur að vera akkur í því að vita hvað leynist í iðrum jarðar á þessu svæði svo sem annarsstaðar. Þá fyrst er hægt að setja verðmiða á svæðið. Á að friða eða nýta? Hvor leiðin er þá veðmætari?
Búið er að raska svæðinu og ransóknir á því breyta litlu, nema meiri vitneskja fæst. Sé ekki annað en að það sé af því góða að vita hvað leynist undir yfirborðinu ekki síður en ofan á því. Náttúrusinnar meiga ekki vera svo forstokkaðir að ekki megi auka við þekkingu á náttúrunni neðanjarðar.
Annað mál er síðan að virkja. Eflaust er hægt að nýta svæðið með skáborun, eða annarri tækni síðar. Ekki þarf að ráðast í framkvæmdir nú þegar. Tækifæri gefst á að ná áttum og jafnvel sátt í hvaða svæði landsins á að nýta og hvaða svæði á eingöngu að njóta eingöngu.
Mannvirki geta, ef svo ber undir, verið neðanjarðar í jaðri svæðis til að sjónmengunin verði sem minnst. Það getur varla skaðað ímyndina að nýta það sem ekki sést, ég tala nú ekki um að nýta það sem enginn hefur áhuga á að kynna sér. Það er væntanlega verðlaust í huga þess sama hvort eð er.
Benedikt V. Warén, 20.1.2011 kl. 11:31
Fín færsla, Ómar. Þó ber að varast að ætla það að þessi drög að orkustefnu marki sérstök tímamót. Þarna er á ferðinni vinna starfshóps, sem að mestu er samansettur af fólki sem er virkt í Samfylkingunni og VG eingöngu. Hætt er við að þetta sé ekki sú þjóðarsátt um orkustefnu, sem við þurfum svo mjög á að halda. Það er athyglisvert og í raun fagnaðarefni að þessi stýrihópur hafi komist að þeirri niðurstöðu að stóriðjustefnan þjóni ekki lengur hagsmunum Íslendinga og nú sé tímabært að breyta um stefnu. En meðan ekki verður breið pólítísk sátt um orkustefnu er hætt við að stóriðjustefnan vakni til lífsins á ný.
Ketill Sigurjónsson, 20.1.2011 kl. 11:58
Ég átti svo sem allan tímann von á því að ekki yrði spurt um HVAÐ fælist í skýrslu nefndarinnar heldur HVERJIR hefðu látið vinna hana.
Enn hefur svæðinu Leirhnjúkur-Gjástykki ekki verið raskað svo mjög að á forsendunum "hvort eð er" sé réttlætanlegt að halda áfram.
Boranirnar, sem nú hefur fengist leyfi fyrir, munu valda miklu meiri röskun en það litla sem gert hefur verið til þessa.
Hið nýrunna hraun, og sjálf tilurð þess, gjárnar og gígarnir, er það sem gefur svæðinu einstætt gildi hvað varðar "sköpun jarðarinnar og ferðir til mars."
Engin leið er að leggja raflínu þvert yfir svæðið nema hún blasi við af því mestöllu, og engin leið að leggja þessa línu í jörðu með þrítugföldum kostnaði en að ryðja hrauninu í burtu og leggja veg þar sem línan á að vera í jörðu.
Þegar vaðið er með jarðýtur yfir apalhraun verður gersamlega óafturkræf aðgerð.
Sama er að segja um fullyrðinguna um mannvirki, sem verði neðanjarðar og margfalt dýrari en ef þau væru á yfirborðinu.
Engin leið er að leggja gufuleiðslur og gera borplön nema með gríðarlegu óafturkræfu raski.
Stöðvarhús á yfirborði jarðar mun sjást af meirihluta svæðisins og raskið gríðarlegt þar sem það yrði grafið í jörðu.
Ef menn segja að allt sé í lagi að bora rannsóknarholur með tilheyrandi borplönum og vegum í Gjástykki mætti alveg eins segja að allt væri í lagi að gera það sama í Öskju, Kverkfjöllum eða á Þingvöllum.
Ómar Ragnarsson, 20.1.2011 kl. 13:37
Setjum svo að hingað leitaði fyrirtæki með "vistvæna" og mannfrerka starfsemi sem þyrfti c.a. 350 MW (u.þ.b. helmingur af orku FLjótsdalsstöðvar). Hvar má gera virkjun til að sinna því ef með þarf?
Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 13:48
Mér sýnist þú, minn kæri Björn, vera með allan hugann við það að kaupendur að raforku þurfi að stunda "orkufrekan iðnað", en yfir því hugtaki hefur verið alveg sérstakur ljómi alla tíð áltrúarinnar.
350 megavött er mjög mikil orka, næstum tvöfalt meiri orka en "stórvirkjunin" Búrfellsvirkjun gaf og þá var það talinn kostur og er enn talinn kostur, að kaupandinn sé með "orkufreka" starfsemi.
Mér sýnist að í athugasemd þinni felist að þú getir ekki losað þig úr viðjum stóriðjustefnunnar, því að einn kaupandi að 350 megavöttum er mjög stór kaupandi, en það er einmitt þveröfugt við það sem passar við nýtingu jarðhitans.
Sú orka, sem nú sýnist vera fyrir hendi á Þeystareykjum, í Bjarnarflagi og við Kröflu er samkvæmt nýjustu úttekt alls ekki nóg fyrir 350 megavött, þótt ekki væri nema bara vegna þess að í tilkynningu Landsvirkjunar kemur fram að enn er óleyst 40 ára gamalt vandamál vegna sýru í borholum á Kröflusvæðinu.
Ég fæ ekki betur séð en að spurning þín sé í fullkomnu samræmi við áltrúna, þ. e. að kaupendurnir þurfi að vera risastórir og frekir á orku, samanber það að 8-10 sinnum meiri orku þarf til að framleiða tonn af stáli en tonn af áli.
Í heimi, þar sem orkuskortur vex og orkan verður dýrari, er hugtakið "orkufrekur iðnaður" ekki jákvætt heldur augljóslega neikvætt.
En það er erfitt að vinda ofan af þessu Faðirvoru áltrúarjátningarinnar, "orkufrekur iðnaður".
Ómar Ragnarsson, 20.1.2011 kl. 14:25
"Faðirvori" á það að vera.
Ómar Ragnarsson, 20.1.2011 kl. 14:29
Svona "sannindi" eins og þú skýtur hér inn eru auðvitað öfgalaus:
"Raunar er Norðausturland eini landsbyggðarhlutinn þar sem fólki fjölgar þótt ekkert sé þar álverið."
en eru aftur á móti lymskuleg og slóttug því Húsvíkinga skiptir litlu máli hvort fólkið sem flýr atvinnuleysið úr bænum fer til Akureyrar, suður eða til Noregs.
Á Húsavík er FÓLKSFÆKKUN og hefur verið síðastliðin 40 ár og við það er fólkið þar að berjast.
Ekki að stuðla að fólksfjölgun á Akureyri, Reykjavík eða í Noregi.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 15:06
Ómar.
Þú mátt ekki falla í sömu gryfjuna og "óvinurinn" í fullyrðingum. Fræg eru orð forstöðumanns bandarísku einkaleyfastofnunarinnar, þegar hann lagði til að stofnunin yrði lögð niður. Það var vegna þess allt, sem hægt væri að finna upp væri þegar búið að finna upp. Þetta var um1890. Þú ert svoldið á þessari línu í þínum málflutningi. Maður, sem fyrstur tileinkar sér nýja tækni, en festist síðan í fortíðinni og núinu þega kemur að ýmsum tæknilegum lausnum í orkugeiranum.
Hvað er vitað um flutningsmöguleika á orku eftir nokkur ár. Jarðstrengur getur hugsanlega verið jafn áhugaverður kostkur og há möstur. Ekki þarf heldur að leggja kapall alla leið, eingöngu um viðkvæmustu svæðin. Hugsanlega þarf hvorki streng né möstur, nú þegar er búið er að þróa þráðlausan raforkuflutning, þó í litlu sé enn. Mjór er mikils vísir.
Sama gildir um hús neðanjarðar. Auðvita má sú lausn kosta eitthvað ef raforkan er eftirsóknarverð. Könnun kostar alltaf einhverjar fórnir og þó illa hafi tekist til á einum stað, verður að varast að gera aftur sömu mistökin. Menn læra af mistökunum, þannig verða framfarirnar til.
Oft hefur verið fjasað um að við megum ekki eyða allri orku barna okkar. Hverju erum við að skila til þeirra. Við fluttum úr torfbæjum í hátæknisamfélag á einum mannsaldri. Þess njóta börnin okkar. Þau njóta einnig þekkingarinnar sem búið er að koma upp á þessum eina mannsaldri. Þau hafa aðgang að góðum bílum, flugvélum, tölvutækninni, upplýsingasamfélaginu og símkerfunum. Þetta er nú eitthvað.
Hvað varðar orku, þá er verið að búa til eldsneyti, sem væntanlega mengar minna. Stöðugt er verið að kanna ýmsar aðrar leiðir til orkuöflunar s.s. sólar- og vindorku. Straumar úthafanna eru í könnun og gleymum ekki því mikilvægasta, - stöðugt er verið að uppgötva leiðir til að spara orku án þess að rýra möguleikana á notkun hennar.
Framtíðin er björt. En menn verða að vinna saman. Það er enginn ein leið að markmiðinu. Þar þurfa allir að gefa eftir frá ítrustu kröfum sínum. Svo einfalt er það.
Benedikt V. Warén, 20.1.2011 kl. 17:33
Og svo smá að trúarbrögðunum.
Vinur minn sagði um daginn
- Það er komin fram heilög þrenning hjá náttúruverndasinnum.
- Nú!?; hváði ég
- Já, - Vigdís, Ómar og heilagur Andri.
Benedikt V. Warén, 20.1.2011 kl. 18:53
þá er bara að gera eitthvað annað!!!
Eyjólfur G Svavarsson, 21.1.2011 kl. 00:48
Sigurjón segir:
Á Húsavík er FÓLKSFÆKKUN og hefur verið síðastliðin 40 ár og við það er fólkið þar að berjast.
Ekki að stuðla að fólksfjölgun á Akureyri, Reykjavík eða í Noregi.
Á Austfjörðum er enn fólksfækkun, þrátt fyrir álver, en það er hæg aukning á Egilsstöðum. Ég skil ekki rök þín Sigurjón. Álverin hér virðast ekki hamla fólksfækkun á landsbyggðinni.
Aukin fiskkvóti gæti það. Fiskveiðistefnan, orkustefnan, landbúnaður ofl. hefur enga langtíma sýn, hvað voru stjórnmálamenn eiginlega að gera hér á árum áður???
Fræddu okkur frekar um það Sigurjón.
Óli Sig (IP-tala skráð) 21.1.2011 kl. 01:18
Ímyndið ykkur eitt andartak, að til væru tugmilljarðar sem sprauta mætti inn í atvinnulíf Þingeyjarsýslna. Þeir virðast vera til, öðrum megin borðs, hvar sitt hvorn stólinn hafa annars vegar stóriðja og hins vegar....allt annað.
Jón Logi (IP-tala skráð) 21.1.2011 kl. 11:50
Íbúaþróun frá stofnun Fjarðabyggðar 1998 er sem hér segir:
Ár Íbúafjöldi
1998 3300
1999 3190
2000 3092
2001 3063
2002 3057
2003 3110
2004 3175
2005 3895
2006 5705
2007 5111
2008 4736
2009 4637
(Upplýsingar eru af vef Hagstofunnar)
Hér þarf auðvitað að bera saman fólksfjöldann 2002 - áður en framkvæmdir hófust og nú.
Dettur einhverjum í hug að taka hæstu tölu; 2006, þegar framkvæmdir eru í hámarki og bera saman við tölur nú og segja: Sjáði nú, fólki fækkar þrátt fyrir framkvæmdirnar?
Þau sannindi voru öllum ljós fyrir framkvæmir.
Á Reyðarfirði bjuggu um 700 manns á árunum fyrir 2002. Nú eru íbúar þar yfir 1000 og aukning því 40 - 50%.
Ef sömu forsendur eru notaðar um Húsavík væri um að ræða fjölgun frá ~ 2400 manns í ~3500 en ekki stöðug fækkun.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 23.1.2011 kl. 09:36
Óli Sig segir:
"Aukin fiskkvóti gæti það. Fiskveiðistefnan, orkustefnan, landbúnaður ofl. hefur enga langtíma sýn, hvað voru stjórnmálamenn eiginlega að gera hér á árum áður???
Fræddu okkur frekar um það Sigurjón."
Ég get ekki frætt þig um hvað stjórnmálamenn voru að gera hér á árum áður.
Ég get þó frætt þig um að þín sýn; aukinn fiskkvóti, getur varla talist langtímasýn, fyrr en vísindamenn telja það óhætt.
Og hvorki hefur sjávarútvegurinn eða landbúnaðurinn nægt Húsvíkingum - ekki einu sinni til að halda í horfinu og er þó Húsavík vel í sveit sett hvað hvort tveggja varðar.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 23.1.2011 kl. 10:20
Íbúum í Húsavík og nærsveitum hefur fækkað um hvað, - eitthvað 150 frá 1998? Það er nú ekki eins og að það hafi átt sér stað kjarnorkuslys?
Og hvað mega þá 150 störf kosta, og þurfa þau BARA að vera í stóriðju?
Jón Logi (IP-tala skráð) 23.1.2011 kl. 14:46
...já eitthvað svoleiðis, alveg nógu gott handa þeim!
NEI, Jón Logi hvernig væri að fletta upp staðreyndum áður en farið er að slá um sig með "eitthvað" tölum. Það er ekki svo flókið.
1998 bjuggu 5147 á næsta áhrifasvæði Húsavíkur
2003 bjuggu 4735 þar og
2008 bjuggu 4372 á svaðinu
Fækkunin er því 15,1% á meðan fjölgunin á landsvísu er er um 18%
Það þarf kannsi kjarnorkuslys, eins og þú segir svo smekklega og endurspeglar víst umhyggju þína fyrir málefnum íbúanna þar, til að þér finnist að eitthvað þyfti að aðhafast!
"Og hvað mega þá 150 störf kosta, og þurfa þau BARA að vera í stóriðju?"
Nei - þau mega alveg vera eitthvað annað - ef þú ert með það tiltækt.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 23.1.2011 kl. 16:40
Nú skal ég segja þér nokkuð, Sigurjón.
Fyrir það fyrsta...
641 Húsavík 1998 : 904
640 Húsavík 1998 : 2.491
Alls 3.395
2010:
641 Húsavík : 733
640 Húsavík : 2.229
Alls 2.962
Fjöldinn er rúm 87% af því sem var.
Þetta eru 433 íbúar, og eitthvað færri störf.
Megi hvert starf kosta þó ekki sé nema helming af því sem það gerir í stóriðju, skal ég glaður taka atvinnuverkefnið að mér, enda ekki nema um nokkra milljarða að ræða. Reyndar væri hugsanlega hægt að borga hverjum og einum nokkuð vel bara fyrir vaxtaþáttinn......
Ó, - gleymdi því að við konan sköffuðum okkur sjálfum starf fyrir nokkuð lítið. Það gæti verið óendanlega meira að gera ef kapítalið væri ekki svona dýrt (vextir). Það sem við fáumst við (ferðaþjónusta á landsbyggð) væri óneitanlega stór-stækkanlegt verkefni í S-Þing, sem svo vill að ég þekki allnokkuð og er mikill aðdáandi svæðisins, fólksins, og náttúrufegurðar þess. Vann þarna 2 sumur.
Jón Logi (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 12:08
. . .en ekki 150 eins og þú taldir!
Hvort þínar seinni tölur eru réttari en mínar tölur er ekki stóra málið en ljóst þó að þú varst víðsfjarri í þínum ágiskunum sem segir sitt um þekkinguna á aðstæðum.
Húsvíkingar hafa í fjörutíu ár leitað, reynt, fundið og misst ótal atvinnutækifæri, stór og smá. Hver er staðan nú?
Finnst einhverjum skrítið að þeir séu orðnir langþreittir á málþófi og moðreyk og vilji fara að sjá eitthvað gerast?
Deila má um það hvort álver sé best eða verst eða einhversstaðar á mitt á milli og þeir ekki einu sinni sammála um það sjálfir.
Eitt er þó víst að aldrei finnst eitthvað sem allir geta sameinast um.
En álver er innan seilingar eftir alla þessa áratugi, blóðtöku og þrautagöngu.
Loksins er eitthvað áþreifanlegt handan við hornið en ekki loftkastalar einir saman.
Lái þeim hver sem vill þótt þeir vilji enda þessa óvissu og blæðingu (brain drain)
Finnist þér blóðugt, eins og mér og öllum Íslendingum að sjá eftir hundruðum af ungum barnafjölskyldum, menntuðum einstklingum úr öll greinum flýja land, þá ættir þú að geta sett þig inn í hugarástand Húsvíkinga síðustu áratugi.
Ég ætla ekki að elta ólar frekar við önnur rök of segi að vilji heimamanna verði hafður í fyrirrúmi. Þeir í 640 Húsavík unna sinni náttúru ekki síður en þeir í 101 og öðrum póstnúmerum landsins.
Eindæma hroki að ætla að svo sé ekki og að hafa þurfi vit fyrir þeim.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 20:53
Sigurjón Pálsson, þú segir um svar Jóns Loga:
„ "Og hvað mega þá 150 störf kosta, og þurfa þau BARA að vera í stóriðju?"
Nei - þau mega alveg vera eitthvað annað - ef þú ert með það tiltækt.“
Mér finnst þetta svar óskaplega týpískt fyrir umræðuna um álver hingað og þangað út um landið. Alltaf á að rædda fólki störfum og þar koma álverin auðvitað inn því að fólki dettur ekkert annað í hug. Hefur fólk ekkert hugmyndaflug eða sjálfsbjargarviðleitni? Hvernig er t.d. með öll þau litlu fyrirtæki einstaklinga eða sprotafyrirtæki sem hafa orðið til á síðustu árum, er ekki hægt að stofna þau á Húsavík eða er kannski þægilegra að fara bara að vinna í álveri?
Sigurður Karlsson (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 22:52
Ég fór á Eskifjörð í gær, - sem oftar. Rifjaði þá upp þau fyrirtæki með konu minni, sem þar voru til staðar á árunum 1960 – 1980 og fékk síðan aðstoð frænda hennar til að fylla frekar inn í þessa upptalningu.
Þetta er ekki vísindaleg úttekt, aðeins til að gefa mynd af þróuninni. Flest þessara fyrirtækja eru horfin, fá eru rekin í annarri mynd og í einstaka tilfelli hafa önnur tekið við og svipuð starfsemi stunduð áfram. Það breytir hins vegar ekki því, mörg störf eru horfin úr byggðalaginu og ljóst af þessu, að það er erfitt að vera sjálfs síns herra á Íslandi í dag.
Á Eskifirði voru rekin í "den":
Bío Valhöll - Góa-sjoppan - Verslun Ella Guðna - Pöntunarfélag Eskfirðinga - Vélsmiðja Kalla Sím. - Hraðfrystihús Eskifjarðar - Síldarmjölsverksmiðja ríkisins - Hótel Eskja - Kaupfélag Eskifjarðar - Steinaverksmiðja Halldórs og Þorvaldar - Steina- og rörasteypa Lúters Guðnasonar - Sáturhús - Fiskverkunin Eljan - Trésmiðjaverkstæði Ragnars Björnssonar - Trésmiðjaverkstæði Guðna Jónssonar - Netaverkstæði Jóhanns Klausen - Nýlenduvöruverslun Árna Jónsson - Verslun Margrétar Guðmundsdóttur - Ljósmyndastofa Vilbergs Guðnasonar - Bakarí Hlöðvers Jónsson - Sjoppa Eiríks Ólafssonar - Rafeindaþjónusta Arnþórs Ásgrímssonar - Fiskverkunin Friðþjófur - Harðfiskverkun Bóasar Emilssonar - Síldarsöltunarstöðvarnar Sæberg, Eyri, Auðbjörg, Askja og Friðþjófur - Bifreiðaeftirlit ríkisins
Slíka upptalningu er að finna frá flestum stöðum úti á landi, þar sem fjármunir staðanna hafa flotið til höfuðborgarinnar og síðan hefur þurft með töngum að slíta smáræði til baka fyrir brýnustu nauðsynjum.
Svo á að bjarga hlutunum við að "gera eitthvað annað" og þeir Vinstri Grænu (Alþýubandalagsmenn) eru hvað iðnastir við kolann.
Sjáið t.d. nýjasta útspil hjá Kammerat Ögmundi. Ekki króna til í ríkiskassanum til að reka sjúkrastofnanir landsins. Lausnin?? Að fara í milljarða sjúkrahúsbyggingu í höfuðborginni!?!?
Er þá allt í einu ódýrara að reka auralaust heilsubatteríið?? Hvernig er hægt að reka margfalt stærri sjúkraþjónustu, þegar það er ekki hægt nú, með langt um minna umfang?? Á ef til vill að loka öllum heilsugæsltstöðvum og sjúkrahúsum á landsbyggðinni?? Er þetta það sem vantar einmitt nú, mitt í allri kreppunni??
Ég segi nú bara, það er ef til vill ekki nauðsynlegt að vera bjálfi til að vera Vinstri Grænn sérfræðingur, - en það greinilega hjálpar."
Benedikt V. Warén, 24.1.2011 kl. 23:12
Sigurður, ég legg nú til að þú lesir það sem ég skrifaði og ekki sakaði að þú kynntir þér hvað á undan er gengið sl. áratugi. Þá væru þessi skrif kannski óþörf.
Nei, Húsvíkingar eru ekki að biðja um að einhverjir reddi sér heldur að ekki sé staðið í vegi fyrir því að sá kostur í atvinnumálum þeir hafa unnið að í fast að áratug, geti orðið að veruleika og að stjórnvöld sem markvisst og ítrekað hafa lagt stein í götu þeirra láti af því en búi ekki sífellt til nýjar og nýjar hindranir.
Það eru takmörk fyrir því hvað svo lítið sveitarfélag þolir og ekki stendur íslenskt samfélag heldur betur að vígi með sveitarfélag sem nánast er óvigt eftir ójöfn átök við yfirburða ríkisvald.
Lítið bæjarfélag þeirra hefur lagt ómælda vinnu og milljarð úr sveitarsjóði í að koma þessu samfélagsþrifamáli sínu á laggirnar.
Eftir ótal "eitthvað annað" lausnir sem ekki gengu upp nema að litlu leiti stóðu þeir frammi fyrir þessu tækifæri sem kjölfestu í atvinnumálum sínum og völdu.
Það eina sem þeir biðja nú um er að fá tækifæri og vinnufrið til að koma þessu í verk og að fleiri hindranir verði ekki til að milljarða fjárfesting þeirra og ómæld vinna í undirbúningi verði kastað á glæ og þetta litla samfélag standi snautt eftir á byrjunarreit.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 25.1.2011 kl. 00:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.