14.2.2011 | 23:38
"Að lifa og elska.."
Árum saman ríkti nokkur tregða hér á landi við að taka upp dag elskenda, Valentínusardaginn vegna þess að hann væri erlendur en ekki íslenskur og við ættum ekki að er að apa eftir Ameríkönum.
Við ættum fremur að rækta hina íslensku daga, svo sem sumardaginn fyrsta.
Fréttir dagsins sýna okkur að Valentínusardagurinn er orðinn viðurkenndur um allan heim og skipta þjóðerni, þjóðmenning eða trúarbrögð ekki máli í því sambandi.
Allir helstu hátíðisdagar okkar eru komnir til okkar frá útlöndum. Bráðum koma bolludagur, sprengidagur og öskudagur sem eru allir komnir til Íslands með kaþóskum sið sem nefnist fasta.
Páskar, uppstigningardagur, hvítasunna og aðventa, öll þessi fyrirbæri eru komin frá útlöndum. Líka 1. maí.
Eftir sem áður eigum við að leggja rækt við gömlu mánuðina, þorrann með bóndadeginum, góuna með konudeginum og fyrsta vetrardag. Einnig dag þjóðarinnar, dag íslenskrar tungu og dag íslenskrar náttúru.
Þennan dag fyrir réttum 50 árum hittumst við Helga Jóhannsdóttir í fyrsta sinn og eigum nú 28 afkomendur. Við höfum upp á hann árlega síðan þótt við vissum ekki fyrstu 30 áriin að þetta væri Valentínusardagurinn.
Í tilefni þessa lagði ég lagið "Að lifa og elska" á eldhúsborðið í morgun og það er viðeigandi í lok dags elskendanna að enda blogg dagsins með texta lagsins, sem ég set kannski síðar inn á tónlistarspilarann minn.
AÐ LIFA OG ELSKA. (Með sínu lagi)
Þetta´er dagurinn okkar, sem eigum við nú,
þegar örlögin réðust og ást, von og trú
urðu vegvísar okkar á ævinnar braut
gegnum unað og mótbyr í gleði og þraut.
Þú varðst hamingjusólin og heilladís mín
og ég hefði´ekki orðið að neinu án þín.
Ég í fögnuði þakka þegar faðmar þú mig
að hafa fengið að lifa og elska þig.
Og til síðasta dags, ár og síð hverja stund
þá mun sindra björt minning um elskenda fund.
Ég við ferðalok þakka, - straumur fer þá um mig,
:,: að hafa fengið að lifa og elska þig:,:
Kysstust í meira en 32 tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.