10.8.2011 | 07:58
Fjárlögin: 0 atkvæði með, 63 ár móti?
Á sínum tíma var því að haldið fram að Stefán Valgeirsson væri í raun valdamesti stjórnmálamaður landsins, því að undir hans atkvæði var komið, hvort ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar héldi velli á þingi fyrst eftir að hún var mynduð haustið 1988.
Svona ástand kemur stundum upp þegar ríkisstjórn hefur aðeins eins atkvæðis meirihluta á þingi.
Frægt var þegar Guðrún Helgadóttir hélt ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens í gíslingu í nokkrar vikur vegna málefna landflótta Frakka að nafni Gervasoni.
Allir þingmenn eiga sér einhver aðal áhugaefni og engum þarf að koma á óvart þótt Þráinn Bertelsson sé heitur út af málefnum Kvikmyndaskóla Íslands.
Um hann og kvikmyndagerð almennt gildir nú um stundir að það er dýrt að vera fátækur. Reiknað hefur verið út að of mikill sparnaður og samdráttur varðandi stuðning ríkisins við kvikmyndagerð valdi því að í raun tapi þjóðfélagið meiru en það græðir, því að kvikmyndagerðin skapi bæði gjaldreyristekjur og atvinnu.
Sem kvikmyndagerðarmaður skil ég vel rökin fyrir afstöðu Þráins.
Hins vegar má líka leiða líkum að því að hver einasti stjórnarþingmaður eigi sér hliðstæð baráttumál sem hann gæti hugsað sér að setja á oddinn og ná fram árangri með því að taka ríkisstjórnina í gíslingu.
Væri ég á þingi gæti ég bent á það mikla óhagræði og tap, sem fylgir því að flugmálayfirvöld hafa neyðst til að leggja niður mikilvæga flugvelli, nú síðast Patreksfjarðarflugvöll, og hefur mér skilist að niðurlagning hans hafi kostað 2-3 milljónir króna, því að rífa þurfti upp allar merkingar og ljósabúnað vallarins.
Ég gæti líka bent á að ég teldi að ríkið ætti að sjá um viðhald og umsjón með Sauðárflugvelli, sem ég tel nauðsynlegan sem neyðarflugvöll inni á hálendinu sem allar flugvélar í innanlandsflugi geta notað, - líka Fokker 50.
Fyrir nokkrum árum töpuðu báðir hreyflar Fokker 50 afli á flugi yfir þessu svæði og voru farþegar í byrjun búnir undir nauðlendingu inni á hálendinu. Þá var þar enginn viðurkenndur flugvöllur.
Sem betur fór tókst að halda afli á öðrum hreyflinum og var síðan lent með hinn dauðan á Egilsstaðaflugvelli.
Ég þarf að greiða gjöld til Flugmálastjórnar fyrir að hafa umsjón með þessum velli og standast straum af því. Mér dytti hins vegar ekki í hug í núverandi ástandi, væri ég þingmaður, að gera það að skilyrði fyrir stuðningi við ríkissstjórnina að ríkið tæki þennan kaleik af mér.
Tæknilega gæti skapast það ástand að hver einasti stjórnarþingmaður setti eitthvert ákveðið skilyrði fyrir því að veita fjárlögunum brautargengi, og gæti bent á lífsnauðsynlega starfsemi í heilbrigðisstofnunum og velferðarkerfi, og ef öll stjórnarandstaðan sameinaðist um að greiða atkvæði gegn þeim, gæti atkvæðagreiðslan farið þannig að enginn greiddi atkvæði með þeim en 63 á móti !
Átakastjórnmálin, sem hér eiga sér stað um fjárlögin eru algerlega á skjön við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, þar sem ríkisstjórnir hafa um það samvinnu við stjórnarandstöðu að ganga frá þeim.
Setur skilyrði fyrir stuðningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kurteislega orðað hjá þér Ómar.
En þó ég beri virðingu fyrir Þráinn fyrir að þora að nota íslenska tungu þá hugnast mér ekki svo tækni ... í minni orðabók er þetta skráð sem blackmail.
Hlynur Jörundsson (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 12:15
Hlynur, nafnið Þráinn beygjist svona: NF: Þráinn, ÞF: Þráin, ÞáF Þráni, EF: Þráins.
Hörður Ingavarsson (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 18:05
Fín færsla.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 10.8.2011 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.