Draumaprinsessa í álögum.

Frá því að ég byrjaði að fylgjast ákaft með stjórnmálum fyrir 60 árum hefur draumaflokkurinn minn veirð frjálslyndur, víðsýnn, raunsær, grænn, lýðræðissinnaður umbótaflokkur.

Ýmsir forystumenn Framsóknarflokksins hafa í gegnum tíðina sýnt góða hluti, sem mér hefur líkað vel.  En alltaf hékk eitthvað annað líka á spýtunni sem eyðilagði fyrir þessu.

Jónas frá Hriflu hafði lengi sérstöðu meðal íslenskrar ráðamanna að því leyti að fara reglulega til útlanda, bæði austur og vestur um haf til að víkka sjóndeildarhring sinn og kynnast því helsta sem þarvar að finna. Jónas var fyrstu íslenskra ráðamanna að sjá fyrir hið alþjóðlega umhverfi Íslands út 20 öldina.

Á hinn bóginn var Jónas alveg einstaklega óraunsær varðandi það að viðhalda sérlega óréttlátri kjördæmaskipan, smábænda- og hokurbúskap og misnota aðstöðu sína í valdapoti og hlaða undir SÍS og sína menn í kerfinu. 

Eysteinn Jónsson var einn af frumkvöðlum íslenskrar náttúruverndarstefnu en áfram hélt Framsóknarflokkurinn að stunda spillingarkennt helmingaskiptasamband sitt við íhaldið og hygla Sambandsveldinu. 

Í öll þessi 60 ár hefur Framsóknarflokkurinn verið draumaprinsessa í álögum í mínum huga.

Steingrímur Hermannsson var einlægur umhverfisverndarsinni og sérlega laginn og afkastamikill stjórnmálamaður.  Með okkur tókust sérstaklega ánægjuleg kynni. 

En spillingin í flokknum hélt áfram og í nýju helmingaskiptasambandi við Sjálfstæðisflokkinn náði hún nýjum hæðum, raunar eftir að Steingrímur var farinn frá völdum. 

Þegar nýtt fólk komst til valda í flokknum Hrunveturinn mikla var eðlilegt að Guðmundur Steingrímsson renndi hýru auga til hans, flokksins, sem afi hans og faðir höfðu stýrt.

Nú var tækifærið með nýjum formanni að rífa flokkinn upp úr gömlu fari í takt við nýja öld og ný og krefjandi viðfangsefni, þar sem umhverfismálin og sambúð mannsins við móður jörð eru í raun langstærst. 

En smám saman hefur flokkurinn verið að færast í gamla stóriðjufarið og verið að heykjast á stjórnlagaumbótum og er þess vegna áfram sama draumaprinsessan í álögum fyrir mig og fleiri og hann hefur verið allt frá því að ég man eftir mér. 

Ég hef í gegnum tíðina í Alþingis- og borgarstjórnarkosningum kosið fleiri en einn flokk og fleiri en tvo en aðeins einu sinni kaus ég Framsóknarflokknum og hef alltaf séð eftir því, því miður. 

Ég mun því varla úr þessu faðma þessa glötuðu draumaprinsessu mína. 


mbl.is „Á ekki lengur heima í Framsókn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt V. Warén

"Á hinn bóginn var Jónas alveg einstaklega óraunsær varðandi það að viðhalda sérlega óréttlátri kjördæmaskipan, smábænda- og hokurbúskap og misnota aðstöðu sína í valdapoti og hlaða undir SÍS og sína menn í kerfinu."

Kaupfélögin voru staðsett hvert á sínum stað og með stjórnir og starfsstöðvar þar.  Það voru heimamenn sem voru stoð þeirra og styrkur.  Auðvita var eitt og annað við stjórnina að athuga, en heilt yfir var þetta í góðum farvegi.

Öflugur atvinnurekstur var í öllum stærri kaupfélögum og t.d. væri Akureyri vart svipur hjá sjón án KEA.  SÍS var í upphafi innkaupasamband kaupfélaganna og var náttúrulega strax þyrnir í augum íhaldsins og heildsalanna í Reykjavík. 

Ótrúlega en satt, tókst málmpípu þessara hópa, Morgunblaðinu, að sá efasemdafræjum hjá þjóðinni þannig að brátt hallaði undir fæti hjá þessum fyrirtækjum fólksins og allt hrundi að lokum.

Maður hlýtur að velta fyrir sér, var þessi einokun kaupfélaganna eitthvað verri eða óheilbrigðari en einokun þeirra sem ráða í verslunargeiranum nú?

Benedikt V. Warén, 22.8.2011 kl. 20:14

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var lengi vel afar hrifinn af hugmyndinni um eign alþýðu á verslunarfyrirtækjunum og ekki má vanmeta stóran þátt fyrstu kaupfélaganna í að opna verslunarhætti landsmanna.

Ef allt hefði verið með felldu á síðari hluta aldarinnar hefðu kaupfélögin og SíS átt að blómstra með því að bjóða alþýðunni lægra vöruverð og betri þjónustu. 

Samvinnufélögin nutu skattafríðinda og hefðu átt að geta gert þetta. En þetta gerðist ekki og þá hlaut að vera eitthvað mikið að. 

Þegar komið var fram á miðja síðustu öld sá maður með eigin augum hvernig elítan í Framsóknarflokknum og SÍS barst á, veiðandi í dýrustu laxveiðiám landsins, akandi um á glæsibílum, sem þeir fengu í gegnum spillt úthlutunarkerfi, og búandi í glæsivillum sumarhúsum þess tíma. 

Ég undanskil Eystein Jónsson sem aldrei barst neitt á. 

Hvers vegna hrundi þetta veldi?  Var ástæðan kannski eitthvað hliðstæð því þegar Sovétríkin féllu?  Hátimbrað kerfi, byggt á göfugum hugsjónum í upphafi, sem hafði smám saman færst frá upphafi sínu og fallið innan frá? 

Ómar Ragnarsson, 22.8.2011 kl. 20:24

3 Smámynd: Benedikt V. Warén

Það gildir eitt um öll veldi, það er mannlegi þátturinn. 

Sé ekki betur en að útrásavíkingarnir, sem enn eru með verslunina í járngreip sinni, hafi toppað Sambandið rækilega í sukki og svínaríi.  Hús, veiðiár, fjallahallir, einkaþotur, firðir, vogar og víkur, - allt út á krít. 

Erum við þá ekki bara sammála, - það er eftirsjá í kaupfélögunum?

Benedikt V. Warén, 22.8.2011 kl. 22:42

4 identicon

Þar sem ég bý, við lítið kauptún, - þar var einu sinni kaupfélag sem var eiginlega allt.

Það var reyndar heldur mikið af því góða....en.....með minni mannfjölda og verri samgöngur en í dag, var vöruúrval og þjónustustig síst verra en í dag. Sama með verðlag.

Ergó: Kaupfélagið féll, en það tók ekkert betra við. Vildi óska þess að einhver angi þess lifði enn.

Það var verst að þetta tengdist flokkapólítík, og ég hef reyndar aldrei skilið hana alveg, enda pólítískt viðrini með endemum er mér sagt ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband