Fljótasti maður sögunnar?

Usain Bolt er líklega fljótasti maður sögunnar. Tímamælingar eru órækt vitni um það.

Hins vegar eru nokkrir menn sem eru alveg á hælum hans, einkum ef tekið er tillit til stórbættrar tækni, betri brauta, fatnaðar, skófatnaðar, þjálfunar, fæðis og löglegrar lyfjagjafar. 

Sumir segja að stærð Bolts geri gæfumuninn en það er hæpið.  Bolt er 1,95 á hæð en fljótasti maður heims á sjötta áratug síðustu aldar, Ira Murchison, var aðeins 1,59. 

Hér heima áttum við Hörð Haraldsson, sem var 1,92 og var að mínum dómi einn af fjórum bestu spretthlaupurum, sem við höfum hátt, en hinir voru Hilmar Þorbjörnsson (nr.1), Haukur Clausen (2) og Oddur Sigurðsson (4)

Þegar skoðaðar eru kvikmyndir frá tíma Murchisons sést að hann var langfljótastur allra fyrstu 30 metrana, þannig að hann var náði ekki eins miklum hámarkshraða og keppinautarnir. 

Jesse Owens var fágætur yfirburðamaður á sinni tíð og fjórfaldur Ólympíumeistari 1936. Hann stökk 8,06 m í langstökki, en þegar stökkið er skoðað og borið saman við stökk Bob Beamons, Charlei Powells og Carl Lewis,  sést, að ef Owens hefði fengið sömu þjálfun magavöðva og stíl, sem nýtti sér það, hefði hann getað stokkið allt að hálflum metra lengra. 

Stæði Owens Bolt framar, ef hann væri uppi nú?  Eða öfugt, - hefði Bolt verið betri en Owens ef hann hefði verið jafngamall honum og keppt við hann 1936?  Þessum spurningum er ekki hægt að svara á óyggjandi hátt. 

Umdeilt er hvernig eigi að meta það hvort sá sem nær mestum hámarkshraða sé fljótastur, og einnig hvort leggja eigi öllu spretthlaupin saman og fá út meðaltal, en spretthlaup eru á bilinu 60 til 400 metra löng. 

Séu fjölhæfnin og meðaltölin látin vega þyngst bankar hinn ótrúlegi hlaupari Michael Johnson á dyrnar hjá Bolt og Owens. 

Johnson er eini maðurinn sem hefur sigrað í bæði 200 og 400 metra hlaupum á sama móti og einnig eini maðurinn sem hefur varið titil sinn í 400. 

Og úr því að Jesse Owens hefur verið nefndur hér, má ekki gleyma Carl Lewis, sem líkt og Owens, sigraði í langstökki jafnframt því að sópa til sín verðlaunapeningum í spretthlaupunum. 

Og fegurð og mýkt hefur enginn haft á borð við Lewis. 


mbl.is Bolt varði 200 metra titilinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En hvað með Ásmund Bjarnason, Ómar?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.9.2011 kl. 15:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ásmundur var alveg á hælunum á þessum fjórum þegar ég reyndi á sínum tíma að leggja rökstutt mat á bestu íslensku spretthlauparana og miðaði þá við tvennt: Getu þeirra þegar þeir voru á tindi hennar og það að taka tillit til mismunandi tíma og aðstæðna.

Í hinu fræga 200 metra hlaupi 17. júní  1950 komu menn í mark í þessari röð: 1. Hörður Haraldsosn 21,5.  2. Haukur Clausen 21,6.  3. Ásmundur Bjarnason 21,7.  4. Guðmundur Lárusson 21,8. 

Ásmundur varð fimmti í 200 á EM en Haukur fékk ekki að keppa í þessari bestu grein sinni en varð samt fimmti í 100 og hljóp siðar um sumarið á besta tíma, sem náðist í Evrópu það árið, 21,3.  Það var Norðurlandamet sem entist fram á næsta áratug og Íslandsmet sem stóð langt fram eftir öldinni. 

Hörður og Ásmundur voru áþekkir í 100 og Hörður aðeins betri í 400. 

Ég tel erfitt að velja á milli Harðar og Hauks hvað varðar annað sætið í röð minni. Átti kannski að láta þá skipta á sætum. 

Hilmar keppti við sömu aðstæður og "gullaldarmennirnir" og náð langbesta tímanum í 100, 10,3 sekúndum, sem var tveimur sekúndubrotum betri tími en þágildandi Íslandsmet, sem Finnbjörn Þorvaldsson náði, en hann er líka hlaupari sem var á svipuðu róli þegar hann var upp á sitt besta og Ásmundur. 

Oddur Sigurðsson, Jón Arnar Magnússon og Vilmundur Vilhjálmsson kepptu miklu síðar þegar aðstæður voru gerbreyttar að öllu leyti. 

Oddur var gríðarlega fjölhæfur og Íslandsmet hans í 400 metra hlaupi hreint afbragð. 

Ómar Ragnarsson, 3.9.2011 kl. 16:21

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Viðbót: Hilmar átti um tíma Íslandsmetin í 100, 200, 300 og 4x100.

Íslandsmetið í 100 stendur enn. Metið í 200 var jöfnun á Norðulandameti Hauks. 

Nánar um Hauk: Norðurlandamet hans í 200 stóð í 7 ár og Íslandsmetið í 27 ár! 

Ef slegið er inn "slysin í íþróttasögunni" í leitarreitnum hér vinstra megin má fræðast nánar um "Gulldrengina" frá 1950. 

Ómar Ragnarsson, 3.9.2011 kl. 16:32

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn eitt: Met Hilmars, 10,3, var jöfnun á Norðurlandameti, þegar hann hljóp hið magnaða hlaup á Melavellnum 1957, sem ég var svo heppinn að fá að horfa á.

Ómar Ragnarsson, 3.9.2011 kl. 16:33

5 identicon

"Hins vegar eru nokkrir menn sem eru alveg á hælum hans, einkum ef tekið er tillit til stórbættrar tækni, betri brauta, fatnaðar, skófatnaðar, þjálfunar, fæðis og löglegrar lyfjagjafar."

Tækni, já. Betri brautir; án tvímæla. Fatnaðar; nei (ekkert Spandex leyft lengur). Þjálfunar; vitanlega! Fæðis; en ekki hvað!

En hvað telst "lögleg lyfjagjöf"? Maður veltir fyrir sér Ben Johnson annars vegar og Bolt hins vegar.

Hlaupin vekja alltaf athygli, ennþá. En þeirri andstyggilegu hugmynd skýtur alltaf upp kollinum: "Er þetta keppni í hlaupi eða stera-áti?"

Badu (IP-tala skráð) 4.9.2011 kl. 02:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband