10.11.2011 | 13:20
Glæsilegur ferill glæsimennis.
Fáir stjórnmálamenn hafa byrjað feril sinn jafn glæsilega og Matthías Á. Mathiesen sem nú hefur lokið jarðvist sinni. Í Alþingskosningunum í júní 1959, hinum síðustu sem haldnar voru með einmenningskjördæmaskipan, afrekaði hann það að fella sjálfan forsætisráðherrann, Emil Jónsson, í Hafnarfirði.
Emil var forsætisráðherra í minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem höfðu í desember 1958 hafið rúmlega þrettán ára stjórnarsamstarf, það lengsta og farsælasta sem íslensk stjórnmálasaga kann frá að greina.
Fall Emils var því slysalegt í hugum krata en á móti kom að Emil var ekki sá eini af handhöfum forsetavalds sem féll, heldur féll einnig ein af máttarstólpum Sjálfstæðismanna á landsbyggðinni, Jón Pálmason forseti sameinaðs Alþingis, sem laut í lægra haldi fyrir Birni Pálssyni í Austur-Húnavatnssýslu.
Þetta er í eina skiptið í sögu lýðveldisins sem tveir af þremur handhöfum forsetavalds hafa fallið út á sama tíma.
Þetta stóð þó stutt, því að fjórum mánuðum seinna var kosið eftir nýrri kjördæmaskipan sem innleiddi það ástand að meirihluti alþingismanna þarf ekki að hafa áhyggjur á kosninganótt vegna þess að þeir sitja í svonefndum "öruggum sætum".
Ef hugmyndirnar, sem felast í frumvarpi Stjórnlagaráðs, ná fram að ganga varðandi persónukjör, mun því ástandi linna að merihluti þingmanna þurfi ekki að hafa áhyggjur af stöðu sinni á kjördegi, heldur geti aftur gerst það sem gerðist í gamla kerfinu, að forsætisráðherrar og ráðamenn í æðstu stöðum séu ekki óhultir, heldur gerist aftur það sem gerðist 1959, þegar hæfileikaríkir menn vinna sigra og komast til áhrifa.
Afrek Matthíasar 1959 var sérlega glæsilegt og svolítið tímanna tákn í upphafi rokkaldar þegar nýir vindar blésu og Matthías kom inn í augum okkar, sem þá vorum ung, í íslensk stjórnmál eins og hvítur stormsveipur, nokkurs konar íslenskur Kennedy, rúm ári á undan hinum bandaríska.
Í hönd fór glæsilegur stjórnmálaferill glæsimennis sem hafði fallega útgeislun. Hann haslaði sér völl á vettvangi þar sem mikið er um ágjafir á siglingunni og enginn sleppur án þess að fá á sig gusur.
En alltaf stóð hann keikur af reisn og myndugleik og persónulegri ljúfmennsku sem var sú hlið hans sem ég kynntist best.
Raunar hafði ég heyrt af Matthíasi í kringum 1950 þegar frumsamið lag hans var flutt í útvarpi og kann ég það lag enn í dag.Hann lumaði á ýmsum hæfileikum.
Ég kunni ævinlega vel við Matthías í samskiptum okkar og sakna hans. Sendi aðstandendum hans og vinum djúpar samúðarkveðjur.
Andlát: Matthías Á. Mathiesen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það eru engin "örugg þingsæti" til, Ómar. Til þess að komast á þing, þarftu atkvæði.
Fékkstu ekki að reyna það á eigin skinni, Ómar minn?
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.11.2011 kl. 14:00
Þetta var nú slappt hjá þér Gunnar. Lát mig nú sjá, - líkurnar á því að D-Listi á mínu svæði (Suðurland) nái ekki inn 2 mönnum eru skv. reynslu nákvæmlega engar. Sá efsti, sem jafnvel er kosinn í lokaðu prófkjöri er pottþéttur.
Láttu nú ekki eins og þú þekkir ekki hugtakið. Né hugtakið sem er "örugg flokksatkvæði".
Jón Logi (IP-tala skráð) 10.11.2011 kl. 15:34
Það eru engin "örugg þingsæti" til. Til þess að komast á þing, þarf atkvæði.
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.11.2011 kl. 17:08
Ætli það megi ekki orða það sem svo að einhver þingsæti séu "örugg" - þó svo engin sé 100% öruggur um neitt. Það er nú orðhengilsháttur að eltast við þetta Gunnar... Sumir sitja í svokölluðum "öruggum þingsætum" - aðrir ekki. Þeir sem sitja í þessum svokölluðu "öruggu þingsætum" geta nánast gert ráð fyrir því að komast inn, enda er atkvæða fjöldinn (atkvæði til að komast á þing) á bak við tiltekin flokk (í tilteknu kjördæmi eða landinu) alla jafna nægur til að hægt sé að taka svona til orða...
Sveinn Atli Gunnarsson, 10.11.2011 kl. 18:56
Vitaskuld er það hótfyndni hjá Gunnari að halda því fram að ekki séu til „örugg“ þingsæti. Tiltekna flokka myndu sauðtryggir kjósendur kjósa þótt sjálfur andskotinn væri þar í fyrsta sæti. Ég geri t.d. ekki ráð fyrir að ****** hætti að kjósa Sjálfstæðisflokkinn fyrr en í fulla hnefana. Það að núa Ómari því um nasir að hann hafi fundið fyrir skorti á öruggum þingsætum var að sönnu lúalegt, en sannaði þó einmitt mál Ómars. Gömlu flokkarnir áttu nóg af „öruggum“ þingsætum til að nýir áttu ekki upp á pallborðið.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.11.2011 kl. 18:57
Þó allir þurfi á uppbyggilegri gagnrýni að halda þá er þessi athugasemd G.Th.G gersamlega tilgangslaus en útskýrist sjálfsagt af takmarkaðri getu til að lesa á milli lína eða jafnvel í línurnar sjálfar og einstaklega þörf á að snúa út úr þeim fáu orðum sem þó síast inn. Við erum sjálfsagt flest sek um slíkt í gegnum tíðina. Ég bara skil ekki af hverju sami aðili er hér að snúa út úr öllu því sem er skrifað á þessu bloggi. Þetta fer að jaðra við hegðun eltihrellis.
Ég þakka annars fyrir áhugaverð skrif um einstakling sem ég greinilega verð að lesa meira um. Endilega ekki hætta að ausa úr minningarbrunni þínum Ómar, hann hjálpar allavega lesblindum eins mér.
Valgeir , 10.11.2011 kl. 19:10
Valgeir, þú verður að koma með dæmi svo ég geti varið mig fyrir svona skítkasti.
Það eru engin "örugg þingsæti" til.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn tæki upp stefnu Íslandshreyfingarinnar, þá myndi flokkurinn þurrkast út í einni svipan.
Það eru engin "örugg þingsæti" til.
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.11.2011 kl. 19:55
Þetta átti ekki að vera skítkast. Ég biðst forláts á því. Þetta er bara mín tilfinning á þeim ummælum sem þú viðhefur um þau málefni sem Ómar er að fjalla um. Útúrsnúningar og orðhengilsháttur. Sjálfur gerist ég sekur um slíkt hið sama. En að elta ólar við jafn saklausa en umfram allt fullyrðingu sem hægt er að styðja með rökum, eins og hún birtist hér að ofan er undarlegt í hæsta falli. Það sést einmitt á dæminu sem Ómar tekur. Í fyrsta og eina skiptið sem tveir af þremur handhöfum forsetavalds er hent út í kosningum. Síðan var tekið upp annað fyrirkomulag sem tryggir þeim sem lenda efst á lista fjórflokkana sæti. Ef þú getur nefnt dæmi um að einhver í fyrsta sæti fjórflokkanna hafi ekki komist inn á þing síðan 1957 þá endilega komdu með það. Þangað til stendur fullyrðing Ómars óhögguð. Að vísu má alveg eins segja að ég eigi ekkert með að vera að elta ólar við svona athugasemd eins og þú kemur með. En ætli ég sé þá bara ekki líkari þér en ég vildi trúa í upphafi minnar gagnrýni. Með virktum
Valgeir , 10.11.2011 kl. 21:49
En ég átti að koma með dæmi;
http://www.google.is/search?gcx=w&sourceid=chrome&ie=UTF-8&q=gunnar+th.#q=site:blog.is+gunnar+th.gunnarsson+%C3%B3mar+ragnarsson&hl=is&prmd=imvns&ei=iEq8TqPuDIfvsga7gsTAAw&start=90&sa=N&bav=cf.osb&fp=a49ebcfebbf5816&biw=1199&bih=571
Prófaðu að skoða þennan hlekk Gunnar. Það gæti komi þér á óvart hvað þú ert búinn að kommenta mikið hjá Ómari, en hvað af þessu er orðhengilsháttur og hvað er gott komment læt ég aðra dæma um. Það er eins og svo margt annað, háð skoðunum en ekki staðreyndum Ég byðst annars forláts á að skemma góðan þráð með misgáfulegum athugasemdum mínum.
Með virktum
Valgeir , 10.11.2011 kl. 22:15
Ég er búinn að vera "bloggvinur" Ómars í tæp 5 ár og hann er einn af mínum uppáhalds bloggurum. Það helgast af því að hann bloggar mjög oft um málefni sem ég hef mikinn áhuga á. Umhverfismál er auðvitað stór partur af þessu og þar erum við að mestu (ekki öllu) ósammála.
En það eru líka fjölmargir aðrir málaflokkar sem Ómar bloggar um sem vekur áhuga minn og oft bloggum við um sömu fréttirnar á mbl.is. Við erum fjarri því að vera ósammála um það allt saman og við höfum oft átt ágæt skoðanaskipti.
Niðurstaðan úr þessu skemmtilega gúgli hjá þér kemur mér ekkert á óvart, en e.t.v. þér og einhverjum fleirum. Bara gama að því.
Það má örugglega finna einhver ómálefnaleg komment hjá mér á þessum 5 árum, en eigum við það ekki til... flestir, þegar tilfinningarnar bera okkur ofurliði.
En ég reyni nú samt að vanda mig.... oftast.
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.11.2011 kl. 22:53
Ætli það hafi ekki verið samblanda af einhverjum tilfinningum og hugsunaleysi. Enda farinn að líta á Ómar eins og handritin og þó hann sé með þykkan skráp þá verðum við öll að finna fyrir stuðning einhverntíma. (ég er langt frá því að vera sammála honum í mörgu og þekki hann nákvæmlega ekki neitt nema sem áhorfandi/lesandi)
En einstaklingar sem þekkjast geta oft sagt aðra hluti við hvorn annan en einstaklingar sem gera það ekki og gætu þá sumir utanaðkomandi haldið að þar væri frekar fjandskapur á ferð en virðing og vinátta.
Eins og áður segir, ég biðst forláts.
með virktum
Valgeir , 10.11.2011 kl. 23:20
Mér finnst ég eiga í Ómari hvert bein, eins og öll þjóðin, en samt þekkjumst við ekkert persónulega. Það er auðvelt að láta sér þykja vænt um Ómar.
En af því hann er svo "væntumþykjanlegur" persónuleiki, með göfugar hugsjónir í náttúruvernd og mörgu öðru, þá eru ekki margir sem vilja "pönkast" í karlinum, þó mikill fjöldi fólks sé innilega ósammála honum ( í náttúruverndarmálum).
Ég læt mig samt hafa það.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.11.2011 kl. 00:46
Ég held ekki að Valgeir þurfi að biðjast forláts á að benda Gunnari á þennan málatilbúnað hans...
Sveinn Atli Gunnarsson, 11.11.2011 kl. 01:07
Það eru til örugg atkvæði. Ergó, örugg þingsæti. Sumir flokkar í sumum kjördæmum fá alltaf mann eða menn. Alveg sama þó að kölski sjálfur sé í 1. sæti. Svo koma tiltölulega örugg þingsæti, og svo baráttusæti. Margir, og þar með talinn ég nota þetta við ákvarðanatöku.
Jón Logi (IP-tala skráð) 11.11.2011 kl. 09:59
Ef ekki hefði verið 5% þröskuldur 2007 hefði Íslandshreyfingin komið tveimur mönnum á þing.
Þröskuldurinn gerði það að verkum að tæp 6000 atkvæði urðu ónýt sem hefðu, ef þau hefðu verið greidd einhverjum að fjórflokknum verið örugg með að koma mönnum á þing og í sumum tilfellum, ef þau voru greidd til réttra flokka í réttum kjördæmum, komið þremur mönnum á þing.
En samkvæmt skilningi Gunnars voru þetta ekki atkvæði heldur öskutunnumatur.
Tugir þingmanna vita alveg frá því að framboðslistinn með þeim var kynntur og þangað til þeir sitja á kosninganótt rólegir að þeir "eru öruggir inni" allan tímann.
Þessi hópur er í mörgum tilfellum meirihluti þingmanna og sá eini meirihluti sem er alveg pottþéttur.
Ómar Ragnarsson, 11.11.2011 kl. 10:02
Það eru engin "örugg þingsæti" til
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.11.2011 kl. 11:03
Ætli Gunnar sé ekki að djóka...
En eins og ég og fleiri höfum nefnt, þá eru auðvitað hægt að tala um "örugg þingsæti" eins og kerfið er sett upp í dag... Meira að segja útstrikanir virðast hafa tiltölulega lítil áhrif alla jafna.
Sveinn Atli Gunnarsson, 11.11.2011 kl. 12:05
Merkilegt hvað öfgasinnaðir sjallar eru gjarnir á að nota minningargreinar og umræður tengdar þeim til að setja fram pólitíska sleggjudóma um óskyld mál.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 11.11.2011 kl. 12:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.