Umrót þegar fyllt er upp í tómarúm.

Það er þekkt fyrirbæri í heimssögunni að miklar hræringar og átök geta orðið þegar tómarúm myndast sem fylla þarf upp í, bæði landfræðilega og pólitískt.

Norðurheimsskautssvæðið hefur ísi þakið ekki kallað á átök, en þegar ísinn fer opnast nokkurs konar tómarúm, fullt af möguleikum auðlindanýtingar og samgöngubyltingar, sem sótt verður inn í.

Þetta á sér hliðstæðu til dæmis á tímum landafundanna miklu og kapphlaups stórvelda um að leggja undir sig lönd sem þau gerðu að nýlendum sínum. 

Eftir lok Seinni heimsstyrjaldarinnar var Bretland illa leikið og þegar heimsveldi þess liðaðist í sundur sem og nýlenduveldi Evrópuþjóða, tóku Bandaríkin að sér hlutverk Breta sem öflugasta stórveldi heims og um allan heim reyndu Bandaríkin og kommúnistaríkin að sækja inn í tómarúm hruninna nýlenduvelda.

Þetta var kveikjan að flestum þeirra styrjalda sem háð voru á síðari hluta 20. aldar. 

Þegar Sovétríkin og kommúnisminn í Austur-Evrópu féllu, gufaði Varsjárbandalagið upp og Evrópubandalagið og þó einkum NATÓ sóttu inn í það tómarúm sem myndaðist. 

Var oft tæpt teflt á undanförnum árum á meðan verið var að finna nýtt jafnvægi. 

Í Júgóslavíu myndaðist tómarúm á tíunda áratugnum eftir að ofurvald Títós og kommúnista linnti,ríkið liðaðist í sundur og miklar hræringar urðu og stríðsátök þangað til nýtt jafnvægi uppskiptrar Júgóslavíu myndaðist. 

Mikil óvissa ríkir um það í Líbíu hvernig fyllt verður upp í það tómarúm sem ósigur og dauði Gaddafis skapaði og ómögulegt að spá um það hvernig því lyktar. 

Í Egyptalandi óttast lýðræðissinnar að herinn muni fylla upp í tómarúmið, sem Mubarak skildi eftir. 

Og hér heima hefur mátt sjá ýmis dæmi um það hvernig pólitísk og efnahagsleg tómarúm hafa myndast og því fylgt heilmiklar hræringar. 

Þegar tök Sambandsins og síðar Kolkrabbans losnuðu, sóttu nýir auðmenn inn í tómarúmið og má skoða ýmsar sviptingar, eins og Baugsmálið, sem hluta af þeim óróa og átökum sem það skapaði. 

Og nýju auðmennirnir voru varla fyrr búnir að koma sér fyrir í stóru loftköstulunum sínun en þegar Hrunið umturnaði flestu og nú sækja nýir auðmenn inn í það tómarúm sem þá myndaðist með nýjum sviptingum.

Við Hrunið hrundi álit fólks á stjórnmálamönnum og við það myndaðist pólitiskt tómarúm sem ný framboð í byggðakosningunum 2010 sóttu inn í og gerðu heilmikinn skurk. 


mbl.is Spá átökum á Norðurslóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Þetta eru skemmtilegar pælingar Ómar. Breytingar á lögum um fjármálastarfsemi,kennitöluflakk og fl. sem viðkemur siðferði í fjármálum er í skötulíki. Við erum ekki búnir undir næstu skriðu siðleysingja.

Snorri Hansson, 10.11.2011 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband