25.11.2011 | 09:24
"Katla gýs bara einu sinni..."
Guðný Jenny Ásmundsdóttir hefur hugsanlega þurft að hugsa sig aðeins um þegar hún átti aðeins um tvennt að vlja, starfið eða fara sem markvörður á HM í Brasilíu.
Erfitt val en þó augljóst: Annars vegar hugsanlega eina tækifærið í lífinu til að upplifa þátttöku í heimsmeistaramóti eða hins vegar starf, sem er þess eðlis, að meiri líkur séu en minni sé á því að svipað bjóðist aftur.
Svona val þarf þó ekki að vera svona auðvelt, þótt annar möguleikinn felist í því að upplifa eitthvað, sem aðeins gefst einu sinni á ævinni.
Þegar aðeins innan við hálftími var þangað til ég skyldi leiða elstu dóttur mína upp að altarinu, var ég enn að störfum niðri á fréttastofu Sjónvarpsins.
Ólafur Sigurðsson, fréttamaður, spurði mig sposkur hvort ég væri virkilega svo mikill vinnufíkill að ég ætlaði að klúðra því að mæta uppábúinn í tæka tíð í brúðkaupið.
Ég svaraði því til að kirkjan væri aðeins í nokkurra mínútna fjarlægð frá Sjónvarpshúsinu og að ég yrði enga stund að fara í smókinginn.
Hann vissi hvað hugsanlegt Kötlugos myndi hafa mikla þýðingu fyrir mig og spurði í glettni, hvað ég myndi gera ef tilkynning bærist einmitt núna um að Kötlugos væri að hefjast.
Ég svaraðii snöggt: "Það er auðvelt val. Katla gýs bara einu sinni á ævi minni en ég á fjórar dætur."
Auðvitað sagði ég þetta í hálfkæringi af því að mér fannst svarið ögrandi og skemmtilegt þótt ég meinti ekkert með því.
Það er nefnilega aðeins einu sinni á ævinni sem maður leiðir í fyrsta sinn dóttur sína upp að altarinu.
Valdi HM frekar en starfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.