4.12.2011 | 20:11
"...svo að ekki verður betur gert..."
Ég er ekki einn um það að halda því fram að Kristinn Sigmundsson sé besti söngvari sem Ísland hefur alið og hef heyrt því haldið fram að hann sé ekki aðeins klassa ofar en aðrir, heldur tveimur klössum.
Heimildarmynd Páls Steingrímssonar um hann var löngu tímabær og honum og aðalkvikmyndatökumanninum, Friðþjófi Helgasyni, til mikils sóma.
Ég hef kynnst Kristni nokkuð vel og hann er að öllu leyti í sérstökum metum hjá mér sem persóna og listamaður.
Fyrir meira en áratug þegar fjölmiðlar eltu Kristján Jóhannsson verðskuldað til þekktra óperuhúsa, var það viðburður ef svo mikið sem minnst var á Kristin.
Einu sinni kom lítil frétt í útvarpsfréttum klukkan fjögur þar sem sagt var frá því að í einu allra virtasta tónlistartímariti Evrópu hefði birst dómur um uppfærslu Töfraflautunni eftir Mozart sem Kristinn tók þátt í.
Orðrétt sagði svo um Kristin: "Sigmundsson söng hlutverk Sarastros þannig að betur verður ekki gert."
Ég efast um að nokkur íslenskur söngvari hafi fengið svo góðan dóm en fréttin sú arna var aðeins sögð einu sinni og kom ekki í kvöldfréttum eða neinst staðar annars staðar.
Ummæli nokkurra af þekktustu kunnáttumönnum erlendum um Kristin eru á eina lund: Hann er afburðamaður í listgrein sinni.
Læt hér fylgja með eina sanna sögu af Kristni. Ég bað hann um að syngja lagið "Flökkusál" með félögum úr Fóstbræðrum fyrir samnefndan sjónvarpsþátt um Fjalla-Eyvinda fyrr og nú.
Á frummálinu heitir lagið "Wandering star" og var sungið með afar djúpri og rámri rödd Lee Marvins í samnefndri mynd.
Kristinn sagðist verða í veiðitúr daginn fyrir upptökuna, sem var ákveðin klukkan þrjú í húsi FÍH. Hann kvaðst vera tímabundinn og bað um að öll uppstilling yrði klár klukkan þrjú.
Ég ákvað að koma aðeins síðar til að trufla ekki Kristin við undirbúning söngsins og kom tíu mínútum yfir til að sjá hvernig gengi, því að venjulega taka svona upptökur talsverðan tíma, jafnvel klukkustundir.
Þegar ég kom var mér sagt að Kristinn hefði komið klukkan þrjú, sungið lagið í einum rykk og farið.
Ég hlustaði á upptökuna þar sem Kristinn söng ævintýralega dimmum rómi og algerlega óaðfinnanlega.
Ég var afar leiður yfir því að hafa ekki einu sinni kastað kveðju á þennan mikla söngvara og hafði símasamband við Kristin til að biðja hann afsökunar. Ég hefði búist við því að upptakan myndi taka mun lengri tíma og spurði hann hvort það væri satt að hann hefði sungið lagið í einum rykk og farið.
"Já," svaraði Kristinn. "Ég kom þreyttur heim seint í nótt úr veiðitúrnum og ákvað að sofa vel út og stilla vekjaraklukkuna þannig að ég færi nánast beint í hljóðverið. Þetta gerði ég til þess að röddin væri eins lág, djúp og gróf og unnt væri og ekki farin að slípast og verða mýkri."
Ég gat ekki leynt undrun minni og sagði, sem satt var, að þetta væri alveg dæmalaust. "Hvernig má þetta verða?" spurði ég.
"Elsku Ómar minn. Mitt starf snýst um að hafa unnið heimavinnuna sína áður en farið er að syngja. Þegar ég er kominn á óperusviðið þýðir ekkert að stoppa í miðjum klíðum og biðja um að fá að byrja aftur. Mitt starf er "one take", nokkuð sem ég er að gera dögum saman og ég gerði þetta þannig að sjálfsögðu í dag."
Mér finnst ég ekki hafa neina veikleika | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Var ekki lagið í myndinni Cat Ballou með Jane Fonda, og hinu fræga atriði þar sem Lee Marvin lá brennívínsdauður á hrossi utan í húsvegg?
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 20:17
Wandering star var í myndinni Paint Your Wagon en þar má einnig finna Clint nokkurn Eastwood.
Svona í framhjáhlaupi má minnast á að gulu vinir okkar gerðu grín að þessu í einum af sínum fjölmörgu þáttum.
Karl J. (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 15:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.